136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

niðurlagning úrskurðarnefnda á sviði siglingamála.

94. mál
[14:00]
Horfa

Frsm. samgn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um niðurlagningu úrskurðarnefnda á sviði siglingamála, frá samgöngunefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Unni Gunnarsdóttur og Ólaf Pál Vignisson frá samgönguráðuneyti.

Umsagnir bárust frá Siglingastofnun Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, ríkislögreglustjóra, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Landssambandi björgunarsveita, Félagi skipstjórnarmanna, Persónuvernd, Hafnasambandi sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, tollstjóranum í Reykjavík, Umhverfisstofnun, Olíufélaginu hf., Olíudreifingu ehf., Eyþingi – sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum og Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Frumvarpið er lagt fram í þeim tilgangi að leggja niður tvær sjálfstæðar úrskurðarnefndir á sviði siglingamála en það er liður í þeirri stefnu að fækka skuli sjálfstæðum úrskurðarnefndum. Er það gert til að auka ráðdeild í meðferð ríkisfjármála auk þess sem það er í samræmi við þá meginreglu að ráðherra fari með yfirstjórn stjórnarmálefna.

Nefndin ræddi þá tilhögun sem lögð er til í frumvarpinu og fjallaði m.a. um hvort breytingin geti haft í för með sér takmörkun á kæruleiðum fyrir hlutaðeigandi aðila. Nefndin telur svo ekki vera heldur miði breytingin fremur að hagræðingu og einföldun í skipulagi stjórnsýslu. Nefndin telur að breytingin samræmist meginreglunni um að ráðherra sem æðra sett stjórnvald beri ábyrgðina og því eðlilegt að úrskurðarvald í málum sem þessum sé hans. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Á eftir 3. gr. komi ný grein sem orðist svo: Í stað orðanna „farbannsnefndar skv. 24. og 25. gr.“ í 27. gr. laganna kemur: ráðuneytis.

Ármann Kr. Ólafsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta rita allir aðrir nefndarmenn samgöngunefndar.