136. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2008.

frumvarp um eftirlaun.

[10:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Hér er hreyft við mjög alvarlegu máli. Komið hafa fram tvö þingmannafrumvörp um að breyta lífeyrisréttindum þingmanna og ráðherra og bæði ganga út á það að flytja fólk úr hópi með miklum forréttindum í hóp með minni forréttindi en forréttindahóp engu að síður vegna þess að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er með miklu betri réttindi en hinir almennu lífeyrissjóðir verkalýðshreyfingarinnar. Ég mundi leggja til að menn tækju sér tak og að þingmenn fái almenn lífeyrisréttindi, eins og ég flutti frumvarp um fyrir löngu síðan, að þingmenn nytu almennra lífeyrisréttinda eins og þeir kjósendur sem kjósa þá, í lífeyrissjóð að eigin vali hjá hinum almennu lífeyrissjóðum vegna þess að þar verða menn að vera háðir því að eignir dugi fyrir skuldum. Þar eru menn ekki með föst réttindi eins og hjá ríkinu þar sem réttindin eru föst en iðgjaldið hækkar ef staða sjóðsins versnar. Þar þurfa menn að standa og falla með fjármagninu sem stendur á bak við. Ég skora á hv. þingmenn að taka sér loksins tak og samþykkja hvorugt þessara frumvarpa frá Vinstri grænum eða þingmönnum Samfylkingarinnar og samþykkja heldur að þingmenn séu með almenn réttindi eins og kjósendur þeirra velflestir.