136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[11:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og tala fyrir meiri hluta utanríkismálanefndar.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál á allnokkrum fundum og fengið til sín fjölda gesta eins og fram kemur á þskj. 267. Þá hefur nefndin fengið til sín mikið magn af upplýsingum og ýmis gögn frá þeim stofnunum sem unnið hafa að málinu innan stjórnsýslunnar.

Þingsályktunartillagan er lögð fram í því skyni að Alþingi veiti ríkisstjórninni heimild til að leiða til lykta áform um fjárhagslega fyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á grundvelli fyrirliggjandi viljayfirlýsingar íslenskra stjórnvalda, en ríkisstjórnin leitaði þangað eftir bankahrunið í októberbyrjun 2008. Í samvinnu við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var unnin ítarleg efnahagsáætlun sem hefur þau meginmarkmið að endurvekja traust á íslenskum efnahag og ná stöðugu gengi krónunnar, í öðru lagi að styrkja stöðu ríkissjóðs og í þriðja lagi að endurreisa íslenskt bankakerfi. Viljayfirlýsing íslenskra stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins skiptist upp í 27 töluliði sem einkum taka á atriðum varðandi efnahagsmál, ríkisfjármál, málefni vinnumarkaðarins og málefni bankanna. Í áætluninni er m.a. gert ráð fyrir að til skamms tíma verði komið í veg fyrir of miklar sveiflur í gengi krónunnar með beitingu stýrivaxta, aðhaldi í lánum til bankanna, tímabundnum gjaldeyrishöftum og notkun gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans. Með þessu móti eykst stöðugleiki á gjaldeyrismarkaði sem hefur það í för með sér að verðbólga lækkar ört, en það skapar aftur svigrúm til stýrivaxtalækkana. Samhliða er gert ráð fyrir verulegu aðhaldi í ríkisfjármálum næstu ár. Engu að síður verður nauðsynlegt að auka fjárlagahallann til að forðast frekari samdrátt í þjóðarbúskapnum. Þá gerir áætlunin ráð fyrir algjörri enduruppbyggingu bankakerfisins og endurskoðun gjaldþrotareglna. Meðal annars þarf að gera samkomulag við erlenda aðila sem eiga hagsmuna að gæta gagnvart Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, gæta þess að sannvirði fáist fyrir þær eignir sem fluttar hafa verið frá gömlu bönkunum til þeirra nýju og endurskoða alla regluumgjörð fjármálastarfsemi og framkvæmd bankaeftirlits sem og að laga gjaldþrotalöggjöf að breyttu ástandi heimila og fyrirtækja.

Nefndin ræddi mikilvægi þess að ríkisstjórnin og Seðlabanki Íslands kynntu ítarlega áætlun um fyrirkomulag efnahagsstjórnar á næstu mánuðum og settu í því skyni fram yfirlit yfir áfanga á leið til frjálsra gjaldeyrisviðskipta í þeim tilgangi að auka trú á þær aðgerðir sem ráðist verður í og draga um leið úr óvissu og áhyggjum heimila og fyrirtækja. Í því sambandi lagði forsætisráðuneytið fram grófa tímaáætlun fyrir efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar vegna fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem tekur til næstu tveggja ára. Tímaáætlunin er birt sem fylgiskjal I með áliti þessu. Forsætisráðuneytið hefur allt frá upphafi haft með höndum samræmingu og heildarskipulagningu á aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að lausn þess efnahagsvanda sem nú er við að glíma. Á fyrstu stigum málsins, í byrjun október, áttu sér stað undirbúningsviðræður undir stjórn forsætisráðuneytisins með fulltrúum annarra ráðuneyta og Seðlabanka Íslands við sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Einnig var á þessum tíma haft samráð við aðila vinnumarkaðarins. Frá þeim tíma hefur forsætisráðuneytið ásamt Seðlabanka Íslands verið aðaltengiliður stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn varðandi fjárhagslega fyrirgreiðslu sjóðsins og þá efnahagsáætlun sem lögð hefur verið fyrir sjóðinn. Frá því skrifað var undir viljayfirlýsinguna hefur ráðuneytið haft með höndum verkstjórn og eftirlit með framkvæmd þeirrar efnahagsáætlunar sem viljayfirlýsingin felur í sér. Mikil áhersla hefur verið lögð á að samræma sjónarmið og skilning á efnahagsáætluninni bæði innan stjórnkerfisins sem og út á við. Meiri hlutinn ítrekar mikilvægi þess að áfram verði unnið að þessu verkefni enda skiptir fátt meira máli til að tryggja árangursríka framkvæmd en gott upplýsingaflæði og samræmi í aðgerðum einstakra ráðuneyta og stofnana.

Þá bendir meiri hlutinn á að mikilvægur þáttur í þessu sambandi er að ná samkomulagi um stefnu í kjaramálum til næstu ára sem stutt gæti við endurreisn efnahagslífsins og stöðugleika. Til að það megi takast þarf við framkvæmd áætlunarinnar að tryggja samráð við þá aðila sem málið varðar: stéttarfélög, samtök atvinnurekenda og sveitarfélög.

Meiri hlutinn ítrekar einnig að þótt efnahagsáætlunin samanstandi af nokkrum meginþáttum, svo sem verkefnum á sviði peninga- og gjaldeyrismála, ríkisfjármála og endurskipulagningu bankakerfisins, er hér um heildstæða áætlun að ræða sem ekki mun skila tilætluðum árangri nema heildarskipulagningin sé í réttum farvegi. Forsætisráðuneytið sem ráðuneyti efnahagsmála gegnir því augljóslega lykilhlutverki í þessu sambandi.

Nefndin tók til sérstakrar umfjöllunar hvernig ríkissjóður mundi standa undir þeim skuldbindingum sem fælust í fjárhagslegri fyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum mögulegum lánveitingum. Nefndin taldi nauðsynlegt að fyrir lægi heildaryfirlit þeirrar greiðslubyrðar sem íslenska ríkið tæki á sig vegna þessara skuldbindinga. Í því skyni kynnti nefndin sér gögn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um forsendur sjóðsins fyrir greiðsluhæfi ríkissjóðs vegna skuldbindinga hans. Einnig fékk nefndin upplýsingar frá forsætisráðuneyti um öll lán sem tekin hafa verið eða áætlað er að taka í tengslum við efnahagsþrengingarnar, sem og áætlun um endurgreiðslubyrði þeirra á næstu fimm árum. Hér er m.a. um að ræða lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, lán frá þjóðum sem þegar hafa verið veitt eða hefur verið lofað í kjölfar lánsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, lán sem ætlað er að endurfjármagna Seðlabanka Íslands og viðskiptabankana og lán sem ætlað er til að fjármagna halla ríkissjóðs, en fyrirséð er að ríkissjóður verður rekinn með halla sem nemur um 10% af landsframleiðslu árið 2009. Ljóst er að um endanlega greiðslubyrði vegna nýrrar lántöku ríkissjóðs er enn töluverð óvissa. Bæði er það vegna þess hve óvíst er um endanleg lánskjör og hvort eða að hve miklu leyti dregið verður á lánalínur sem opnaðar verða.

Það verður því að segjast eins og er að á þessu stigi málsins er erfitt að fá nákvæmt yfirlit yfir áætlaða greiðslubyrði vegna þessarar nýju lántöku en í störfum sínum leitaðist nefndin við að fá eins gott yfirlit og hægt er miðað við þær forsendur sem fyrir liggja og þá er ljóst að sú efnahagsáætlun sem liggur láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til grundvallar hefur að sjálfsögðu verið unnin í samvinnu við sjóðinn, sem sýnir að sjóðurinn telur að ríkissjóður geti viðhaldið sér með þeirri greiðslubyrði sem stefnir í. Það hefur hins vegar komið fram við störf nefndarinnar og reyndar kemur það einnig fram í umsögn frá meiri hluta fjárlaganefndar að það er ekki mikið svigrúm eftir þegar horft er til framtíðar í þessu efni, það er ekki mikið svigrúm til viðbótarlántöku, ef svo má að orði komast, umfram það sem er sérstaklega verið að horfa til. Í því sambandi skiptir gríðarlega miklu máli að áætlanir um rekstur ríkisins standist vegna þess að fari þær úr böndunum mun þar verða skapaður viðbótarvandi sem við munum hafa mjög takmarkað svigrúm til þess að fást við.

Nefndin óskaði eftir upplýsingum um afkomu ríkissjóðs á næstu fimm árum en samkvæmt spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem unnin hefur verið í samvinnu við stjórnvöld, er gert ráð fyrir að innan fimm ára geti ríkissjóður skilað afgangi að nýju. Augljóslega mun spáin sæta stöðugri endurnýjun, nú stendur yfir vinna við gerð fjárlaga og á næstu vikum verður áfram unnið að gerð langtímaáætlunar í ríkisfjármálum.

Að teknu tilliti til þeirra upplýsinga sem nefndin hefur aflað sér telur meiri hlutinn þá áætlun sem sett hefur verið fram í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til þess fallna að koma á efnahagslegum stöðugleika að nýju hér á landi á næstu árum. Leggur meiri hlutinn því til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Undir álit meiri hlutans skrifa Bjarni Benediktsson, Árni Páll Árnason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Lúðvík Bergvinsson og Arnbjörg Sveinsdóttir.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þeim sem störfuðu að málinu í nefndinni fyrir ágætt samstarf. Það verður að segjast eins og er að aðstæður eru mjög óvenjulegar og mikil óvissa ríkir um ýmsa mikilvæga þætti. Hér er um mjög stórt og veigamikið mál að ræða sem hefur mikla þýðingu fyrir ríkissjóð og um leið þjóðina í heild. Við höfum gert okkar besta til þess að fá heildaryfirsýn yfir málið, aflað allra gagna sem hægt hefur verið að komast yfir og þurfum því miður að sætta okkur við að senda málið aftur frá okkur á þinginu, lifandi áfram við ákveðna óvissu um hvernig hlutunum vindur fram en við teljum mjög mikilvægt að fyrir liggi skýr vilji þingsins til þess að styðja ríkisstjórnina í þeim áætlunum sínum að starfa áfram að þessu máli, að endurreisa efnahagslegan stöðugleika á Íslandi í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn en um það snýst þetta mál í grunninn.