136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[11:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Mér finnst þetta vera heldur dapurlegur dagur þessi dökki föstudagur 5. desember árið 2008, að hér skuli vera á dagskrá Alþingis tvö mál, tvær tillögur sem fela í sér áður óþekkta skuldabyrði á landið. Það er erfitt að ræða það öðruvísi en að taka þessi mál að einhverju leyti saman, að minnsta kosti ef reynt er að gera einhverja tilraun til þess að fá heildaryfirsýn yfir það hvað hér fer fram.

Ég tek undir það sem kom fram í máli síðasta ræðumanns og hv. þm. Péturs Blöndals að Alþingi mætti gjarnan hafa betri gögn í höndum en raun ber vitni. Maður leyfir sér að velta því fyrir sér hvernig þeir þingmenn til að mynda sem ekki hafa setið í utanríkismálanefnd eða þeim þingnefndum sem sérstaklega hafa verið að reyna að glíma við þetta undanfarna daga eru á vegi staddir og hvaða upplýsingar þeir hafa í höndum til að greiða atkvæði um stærstu skuldbindingu íslensku þjóðarinnar í seinni áratuga sögu hennar að minnsta kosti.

Þessir tvílembingar, tillaga til þingsályktunar um fjárhagsaðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum annars vegar og tillaga um uppgjöf í Icesave-deilunni hins vegar, eru ekki miklir að vöxtum, þ.e. þingskjölin sjálf. En segja má að alvarleiki málsins og skuldbindingarnar sem þeim fylgja séu akkúrat í öfugu hlutfalli við það. Ég hef sjaldan séð rýrari pappíra sem fela að sama skapi í sér jafnafdrifaríkar ákvarðanir og þarna eru á ferðinni.

Þegar farið var að reyna að grafa í það hvaða gögn væru til í íslensku stjórnsýslunni ráðuneytum eða Seðlabanka um þessa hluti varð fátt um svör. Niðurstaðan var svona dregin út með töngum og varð ekki almennilega ljós fyrr en í gær þegar sendisveit mikil frá Seðlabanka og nokkrum ráðuneytum kom á fund utanríkismálanefndar. Þá kom í ljós að engin íslensk gögn voru til. Það er ekkert til nema útreikningar og áætlanir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Jú, menn geta sagt að Íslendingar eigi einhverja hlutdeild í því en ekki unnu þeir þó starfsmannaskýrsluna sem þarna er aðallega stuðst við. Með öðrum orðum: Íslensk ráðuneyti, ekki fjármálaráðuneytið, ekki forsætisráðuneytið, ekki Seðlabankinn, ekki Þjóðhagsstofnun, því að hún er ekki lengur til, hafa hvergi reynt að setja málið upp á eitt blað og átta sig á því hver er heildarskuldsetningin, hver er vaxtabyrðin og hver verður vaxta- og afborgunarbyrðin þegar afborganir fara að falla til. Þar er vísað í gögn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Segja má að fjölmiðlar hafi staðið sig betur því að Morgunblaðið til að mynda hefur þó reynt að setja málið á blað, setja það upp í skífurit og fjallaði um það bæði í gær, 4. desember, og eins 1. desember, í töflum sem settar voru upp.

Hvað er hér á ferðinni í grófum dráttum þegar pakkinn er skoðaður í heild sinni? Jú, það er lántakan frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum upp á rúma 2 milljarða bandaríkjadali. Gert er ráð fyrir viðbótarlántöku frá seðlabönkum ýmissa nágrannaríkja upp á 3 milljarða bandaríkjadala. Áætlað er að skuldbindingin vegna Icesave-reikninganna eða innlánstrygginganna í heild sinni geti orðið upp á 8,2 milljarða bandaríkjadala. Og vel að merkja Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ekki ráð fyrir nema helmingsendurheimtum á eignum upp í þann reikning, 50% í sínum útreikningum. Þá vantar enn inn kostnaðinn við endurfjármögnun bankanna upp á 350–380 milljarða, kostnaðinn við endurfjármögnun Seðlabankans upp á 150–200 milljarða, hallarekstur ríkissjóðs næstu árin sem talið er að verði 450 milljarðar, ef ég man rétt, frá með næsta ári til og með árinu 2011.

Þetta er að verða dálítill reikningur, herra forseti. Þetta reynir Morgunblaðið að setja upp en sleppir að vísu lántökunni hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og erlendu seðlabönkunum. Að öðru leyti er þar reynt að setja upp heildarskuldsetninguna, vaxtabyrðina og að fá yfirlit yfir dæmið.

Hverjar eru líkurnar á því að þjóðarbúið ráði við þetta? Þær eru ekki allt of góðar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir það sjálfur í skýrslum sínum að í raun og veru megi ekkert út af bera, þá muni Ísland lenda í vandræðum með að standa við afborganirnar af láninu til sjóðsins því að sjóðurinn metur eins og hver annar lánveitandi áhættuna af því að lántakinn ráði ekki við greiðslubyrðina.

Á blaðsíðu 72 í skýrslunni segir að ef íslenska ríkið lendi í því að taka nokkrar teljandi viðbótarskuldbindingar á sig t.d. vegna þess að tjónið af falli bankanna verði meira, meira lendi á ríkinu vegna þess en nú er áætlað, gæti Ísland lent í erfiðleikum við að endurgreiða lánið til sjóðsins. Svo tæpt er dæmið. Það má sem sagt ekkert út af bera til þess að þjóðarbúið yfir höfuð ráði við greiðslubyrðina. Á hvaða forsendum? Á þeim forsendum að skera mjög harkalega niður útgjöld ríkisins og forsmekkinn af því erum við þegar búin að sjá, kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um 10% niðurskurð fjárlaga næsta árs. Því verður ekki neitað að þaðan eru þau skilaboð komin. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir: Verði það ekki gert verður of mikill slaki í fjármálum ríkisins strax á næsta ári.

Framhaldið þekkjum við. Sjóðurinn krefst þess að hallinn á ríkissjóði sem getur orðið af stærðargráðunni 150–200 milljarðar á næsta ári verði tekinn niður í núll á tveim til þremur árum. Halda menn að það muni ekki taka í? Jú. Það er sem sagt með blóðugum niðurskurði af þessu tagi sem reyna á að standa við þetta greiðsluprógramm. Það er satt best að segja ekki mjög falleg framtíðarsýn og er þó hér aðeins verið að horfa til áranna sem endurgreiðsla lánsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á að taka til, þetta stutta lán frá honum.

Hvernig verður staðan þegar afborganir af Icesave-reikningunum bætast þar ofan á og þegar afborganir af þeim miklu skuldum bætast við sem ríkið verður að setja sig í — að vísu hér innan lands sem gegnir nokkuð öðru máli um — vegna endurfjármögnunar bankanna, Seðlabankans og hallans á ríkissjóði næstu árin? Hvernig verður staðan þegar þetta leggst allt saman?

Það sem í reynd er að gerast er að með þessu verða lífskjörin á næsta áratug tekin mjög harkalega niður á Íslandi. Árabilið frá 2011–2012 og inn á þriðja áratug aldarinnar verður greiðslubyrðin gríðarlega þung þótt ekkert bætist þar við sem við vitum ekki af núna.

Þá mynd hefði þurft að setja upp og skýra miklu betur. Þá mynd hefði t.d. Þjóðhagsstofnun, ef hún væri til, þurft að vinna linnulaust við að reikna út og stilla upp undanfarnar vikur. En hún er ekki til og virðist enginn aðili í íslenska stjórnkerfinu hafa litið á það sem skyldu sína að reyna einhvern veginn að halda utan um þetta mál heldur bendir hver á annan.

Þegar utanríkisráðuneytið, forsætisráðuneytið og menn úr bönkunum voru á fundi utanríkismálanefndar til að reyna svara fyrir þetta á bentu þeir á fjármálaráðuneytið. Þeir gætu kannski svarað einhverju um þetta. Það var þægilegt fyrir þá því að fjármálaráðuneytið var ekki á fundinum. Þegar aðrir gestir komu á fundinn var gjarnan leikinn sami leikurinn þannig að ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég hef af því miklar áhyggjur hversu vanmegnugt íslenska stjórnkerfið virðist vera til þess að ráða við þetta mál. Ég held að verkstjórnin sé því miður í molum. Hún er búin að vera það allan tímann hjá hæstv. forsætisráðherra sem brást þeirri skyldu sinni að setja upp eitthvert skipulag og einhverja verkstjórn sem væri í samræmi við alvarleika málsins sem barði að dyrum á Íslandi í byrjun októbermánaðar. Þar tel ég að hæstv. forsætisráðherra hafi brugðist illa bogalistin.

Auðvitað átti að setja upp skipulag sambærilegt við það ef náttúruhamfarir hefðu orðið því að segja má að þetta séu náttúruhamfarir. Þær eru að vísu af mannavöldum og þær eru á efnahagssviðinu. Það átti að setja upp stjórnstöð, það átti að hafa trygga yfirsýn og það átti að fela tilteknum aðilum þannig verkstjórn að uppákomur af þessu tagi ættu sér ekki stað, við afgreiðslu þessara rosalegu mála frá Alþingi yrðu menn að játa sig sigraða gagnvart því að reiða fram aðgengileg gögn og hafa heildaryfirsýn yfir framtíðina sem verið er að teikna upp með þessum hlutum.

Ríkisstjórnin sagði gjarnan í október og nóvember þegar hún var að fara í þessar viðræður eða þegar fjármálaráðherrann missti niður pennann úti í Washington að allt væri þetta náttúrlega gert með fyrirvara um samþykki Alþingis. Menn skyldu ekki hafa of miklar áhyggjur því, þetta væri allt með fyrirvara og samþykki Alþingis.

Hvers virði er sá fyrirvari þegar hér er til umræðu 5. desember tillaga um aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem þegar er komin í gang þegar búið er að taka fyrstu 800 milljónir bandaríkjadalina og jafnvel byrjað að nota þá, þegar búið er að fleyta krónunni? Hæstv. forsætisráðherra hældist hér um af rausn sinni að koma með þessa þingsályktunartillögu fyrir þingið því að þess hefði í raun og veru ekki þurft. Það er auðvitað fráleitur málflutningur því að lántökurnar eða skuldbindingarnar, sem með þessum málum báðum og tengdum hlutum ríða nú ríkissjóð á slig, eru langt út fyrir allar heimildir sem ríkisstjórnin hefur í sínum höndum. Lántökuheimildir frá því í vor upp á 500 milljarða til að taka gjaldeyrislán til að styrkja gjaldeyrisvaraforðann duga náttúrlega hvergi nærri upp í þetta. Það sjá allir menn.

Það er nú ekki neitt sem á að þakka fyrir heldur er það gagnrýnisvert að málin skyldu ekki lögð með öðrum og skýrari hætti fyrir Alþingi strax og að Alþingi væri búið að taka grundvallarafstöðu til þess hvort fara ætti inn í þennan leiðangur eða ekki áður en farið var að draga lán og nota þau. Hlutunum er því ekki forgangsraðað rétt. Það er eins og margt fleira sem farið hefur stórkostlega úrskeiðis á undanförnum vikum þannig að það verður örugglega talsverð vinna fyrir lögfræðinga og stjórnsýsluspekinga á komandi árum og áratugum að skoða þetta tímabil í Íslandssögunni, hversu mislagðar mönnum voru hendur einfaldlega gagnvart því að virða lög, stjórnsýslureglur og jafnvel stjórnarskrána, því miður.

Auðvitað geta menn sagt að aðstæðurnar séu afbrigðilegar, tíminn sé naumur og það verði að gera hlutina hratt, það er allt rétt. En það réttlætir samt ekki að menn reyni ekki að vanda sig eins og kostur er og það hefur ekki verið gert hér. Það er hvorki hægt að halda því fram gagnvart undirstöðu ákvarðanatökunnar að gögnin og reifun málsins séu sómasamleg og þaðan af síður að ýmis vinnubrögð í kringum þetta nái máli eða standist.

Ég tek það fram að ég er ekki sérstaklega að gagnrýna vinnu utanríkismálanefndar sem var mikill vandi á höndum. Þar var heiðarlega reynt að draga gögn fram í dagsljósið sem reyndust annaðhvort ekki til eða að menn vildu ekki sýna þau. Ég ætla auðvitað að vona það vegna ráðuneyta og stofnana að ekki sé verið að halda gögnum frá Alþingi eða þingnefndum sem hugsanlega væru einhvers staðar til. Mér þykir miklu betra að fá að trúa því þótt það sé sárt að þau séu ekki til. Það sé einfaldlega þannig að enginn aðili hafi reynt að hafa heildaryfirsýn yfir málin, reikna hlutina út og stilla þá eitthvað af. Það er þá leitað á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í þeim efnum.

Auðvitað væri það sjónarmið út af fyrir sig að segja myndin sé svo dökk að menn veigri sér við að draga hana fram í dagsljósið. Það væru skilaboð til þjóðarinnar, ekki síst ungs fólks, sem menn hefðu ekki kjark í sér til þess að senda. En ég held að það þýði nú ekkert annað en að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru og berjast á raunsæjum forsendum við vandann eins og hann er.

Við gagnrýndum það á sínum tíma að hefja þennan leiðangur til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og bentum sérstaklega á hættuna sem í því væri fólgin að hinir hroðalegu reikningar vegna innlána í Bretlandi, Hollandi, Þýskalandi og víðar mundu verða tengdir við það mál og úr þessu yrði gaffall sem Ísland kæmist ógreiðlega úr ef menn héldu inn á þessa götu. Því var harðlega neitað, með stórum orðum, að til greina kæmi að við létum kúga okkur eða þvinga og ekki kæmi til greina að hinn ágæti Alþjóðagjaldeyrissjóður, sem sumir hafa á köflum talað um eins og góðgerðastofnun, mundi ástunda slík vinnubrögð.

Hver varð niðurstaðan? Niðurstaðan varð sú að umsóknin til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var tekin í gíslingu og beið þar á meðan Evrópusambandið beitti okkur þvingunarbrögðum til þess að gefast upp gagnvart óútkljáðum deilumálum vegna innlánsreikninganna. Ríkisstjórnin lét þar því miður kúga sig til að gera drög að nauðasamningum sem að mínu mati eru að vísu ógildanlegir nauðasamningar. Þeir eru gerðir undir þvingunum og má þar af leiðandi efast um gildi þeirra að lögum og þjóðarétti — ég kem betur inn á það þegar seinni tillagan verður til umræðu, en allt hangir þetta saman.

Þegar búið var að pína Ísland eða ríkisstjórnina til uppgjafar í Icesave-deilunni var græna ljósið sett á hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Menn voru svo langt leiddir að ýmsir tóku því fagnandi, gott ef þeir héldu það ekki hátíðlegt þegar prógrammið var samþykkt hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. En er það eitthvað til að gleðjast sérstaklega yfir, það sem hér á að fara að gera? Það er ekki bara lántakan sem skiptir máli, það eru ekki bara þessir fimm milljarðar bandaríkjadala rúmir sem tilheyra Alþjóðagjaldeyrissjóðspakkanum, það eru skilmálarnir sem Ísland á þar með að undirgangast, sem eru kannski af tvennu enn alvarlegri en lántakan sjálf vegna þess að hendur okkar verða mjög bundnar. Við höfum eftir það ekki frelsi til að velja þær leiðir sem við teljum bestar — fyrir hverja? Fyrir almenning í landinu, fyrir þjóðina, en ekki endilega fyrir peningamennina og fjármagnið sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er fyrst og fremst að passa upp á. Það er það alvarlega í þessu máli.

Hvað blasir við okkur nú þegar hvað varðar skilmála Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Hækkun vaxta, og meira að segja er frekari hækkun vaxta boðuð í skjalinu ef á þarf að halda. Vonandi kemur ekki til þess, vonandi getur hið gagnstæða gerst fljótlega að vextir fari að lækka enda annað algert óráð. En prógrammið er þetta og það segir sína sögu um hvað Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er að hugsa, hvernig hann er forritaður og þar hefur því miður nánast ekkert breyst. Þegar kemur að kjarnanum í stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er hún áfram sama harða peningahyggjan, harða frjálshyggjustefnan, sem þar hefur verið rekin um árabil. Sjóðurinn hefur sætt mikilli gagnrýni, sérstaklega vegna framgöngu sinnar og útreiðar margra þróunarríkja sem orðið hafa að leita á náðir hans. Og hvernig hefur hann brugðist við því? Með því að breyta stefnu sinni í grundvallaratriðum? Nei, hann hefur brugðist við því á þann veg að fá sér andlitslyftingu og setja deildir svona utan um sem líta voðalega fallega út og láta sér þykja vænt um umhverfið og jafnvel félagsleg mál. En hin eiginlega stefna sjóðsins birtist í skilmálum hans í efnahags- og peningapakkanum. Hún er nákvæmlega sama harðlínuniðurskurðarstefnan og sjóðurinn hefur alltaf beitt með skelfilegum afleiðingum fyrir mörg þau lönd sem lent hafa inni í prógrammi hans, eins og Argentínu, Suður-Kóreu og mörg fleiri. Það væri fróðlegt fyrir þingmenn að kynna sér og heyra í þeim sem hafa reynslu af þessum samskiptum. Og hver hefur niðurstaðan orðið í hverju landinu á fætur öðru sem lenti inni í prógrammi hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Það varð að forgangsatriði í viðkomandi löndum að komast þaðan út aftur, að borga sig út úr Alþjóðagjaldeyrissjóðnum með blóði, svita og tárum. Þá leið valdi Suður-Kórea, þá leið valdi Brasilía og fleiri lönd reyndu það með misjöfnum árangri.

Þau sem hins vegar voru hlýðnust, eins og Argentína, fóru verst út úr því — borguðu og borguðu og borguðu samkvæmt prógrammi sjóðsins og enduðu á hausnum. Það er því ekki þannig, virðulegur forseti, að tilefni sé til mikillar gleði að Ísland lendi inn á þessari braut. Ég vil láta það koma hér fram að eftir því sem við verðum í aðstöðu til að hafa áhrif á málin, þingmenn Vinstri grænna, verður það forgangsatriði af okkar hálfu á komandi missirum eða árum að reyna að borga Ísland út úr þessu prógrammi aftur. Það skal hafa algeran forgang af okkar hálfu að reyna að standa þannig að málum að við endurheimtum aftur frelsi okkar á þessu sviði eftir því sem aðstæður frekast leyfa.

Það skiptir líka máli að við tökum eins lítið af þessum lánum og mögulegt er. Ég skora á ríkisstjórnina að haga þessu þannig að eins lítið af lánum, helst ekki meira en þegar er komið, verði tekið og að samningar við hina seðlabankana verði lánalínur frekar en lán þannig að við getum látið á það reyna að þurfa sem minnst að taka af þeim og bera af því vexti og kostnað. Það skiptir miklu máli og það skiptir líka máli gagnvart framtíðinni að við komumst undan skilmálunum.

Hækkun vaxta, 10% niðurskurður á fjárlögum næsta árs, ákvæði um kjaramál í landinu, sem eru afar varhugaverð að mínu mati, vegna þess að ljóst er að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætlast til þess að gerð verði þjóðarsátt um stórfellda frekari kjaraskerðingu í landinu en orðin er, það er ekkert hægt að lesa það sem þar stendur á blaði um kjaramálin öðruvísi. Áformin um ríkisfjármál til meðallangs tíma eru að ná hallanum niður á tveimur til þremur árum. Og hvernig ætla menn að fara að því ef hann verður nú kannski hátt í eða jafnvel fullir 200 milljarðar kr. þegar fjárlögum fyrir árið 2009 verður lokað? Halda menn að það taki ekki í að ná því síðan niður á tveim til þrem árum í framhaldinu með þeim horfum um samdrátt í þjóðartekjum, vaxandi atvinnuleysi og erfiðleikum sem hér eru teiknaðir upp?

Auðvitað geta menn svo komið hér og sagt, og það munu sjálfsagt einhverjir gera: Já, en þetta er bara svona, staðan er svona skelfileg og hvað annað á að gera? Nauðhyggjuröksemdirnar hafa verið mjög fyrirferðarmiklar að undanförnu. Þeir sem leyfa sér að gagnrýna eru jafnvel skammaðir fyrir það að þeir skuli þá ekki hafa bjargað málunum — flokkar í stjórnarandstöðu skuli ekki bara hafa bjargað þessu. Það hefur ekki verið í okkar höndum að reyna að halda þannig á málum að Ísland ætti einhverra kosta völ og það er kannski mesta synd ríkisstjórnarinnar að hún hefur misst þessi mál í það öngstræti að setja allt traust sitt á þessa einu útgönguleið. Ekki er einu sinni hlustað á hagfræðinga og ýmsa aðila sem hafa varað við þessu og bent á að Ísland gæti reynt að hafa sig í gengum þetta eftir öðrum leiðum, t.d. einfaldlega þeim að taka ekki þessi lán, að undirgangast ekki skilmálana heldur reyna að rétta landið upp með eigin aflafé, þó að það verði erfitt í byrjun, gegn því að eiga bjartari framtíðarhorfur til lengri tíma litið með minni skuldir á herðunum.

Auðvitað er það dapurlegt að ekki skuli vera stillt upp fleiri möguleikum, einhverri áætlun B, áætlun C, og að ríkisstjórnin skyldi ekki reyna að hafa einhver fleiri spil eða úrræði á hendi. Ég fullyrði að í byrjun októbermánaðar voru ýmsar leiðir mögulegar í þeim efnum, að sækja bráðabirgðalán til nágrannalandanna — frá Rússlandi eða Kína eða hvaðan sem það var — að því marki sem við töldum okkur nauðsynlega þurfa viðbótargjaldeyri inn í landið en gætum ekki farið þá leið að reyna að láta jákvæðan viðskiptajöfnuð, með snarminnkuðum innflutningi og lágu gengi krónunnar, rétta þetta við. Auðvitað er öllum ljóst að það væri erfitt en þó er það nú það sem er kannski að gerast núna og það er hæstv. ríkisstjórn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn — svo grátbroslegt sem það nú er — sem hafa sett á gjaldeyrishöft. Til hamingju, Sjálfstæðisflokkur, til hamingju með gjaldeyrisskömmtunina. Er ekki gaman að vera formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra og setja á gjaldeyrishöft?

Hvað halda menn að Sjálfstæðisflokkurinn hefði sagt ef sá sem hér talar hefði farið fyrir ríkisstjórn og sett á gjaldeyrishöft? (Gripið fram í.) Hugsið ykkur sönginn sem þá hefði verið í frjálshyggjuliðinu, stuttbuxnaliðinu. Nú þegja þeir þegar Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir þessum hlutum með þeirri einu undantekningu þó að hv. þm. Pétur Blöndal hefur reynt að standa á sannfæringu sinni í þessum efnum og er greinilega gagnrýninn, og rúmlega það, á það hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á þessum málum. Vonandi fylgir hann sannfæringu sinni til enda og samþykkir tillögu sem er í nefndaráliti mínu, og verður nú að lokum gerð grein fyrir, þ.e. um málsmeðferðina sjálfa.

Niðurstaða okkar er einfaldlega sú að þessi leiðangur sé í heild sinni svo hættulegur að ekkert vit sé í að leggja upp í hann, að Alþingi afgreiði hér á einum degi heimildir til ríkisstjórnarinnar til að gera hvort tveggja, að fara inn í þennan Alþjóðagjaldeyrissjóðsleiðangur og skrifa upp á uppgjöfina í Icesave-deilunni. Þá er teningunum að verulegu leyti kastað og það verður risavaxið verkefni og erfitt fyrir Ísland að reyna að komast út úr þessu aftur þó að auðvitað verði að reyna það. Ég vísa til þess, sem ég áður sagði, að þeim mun minni lán sem tekin verða og þeim mun minna sem notað verður af þeim, þeim mun viðráðanlegra ætti það að geta orðið fyrir landið að komast út úr þessu aftur og endurheimta sjálfstæði sitt í þessum efnum.

Það er niðurstaða í áliti 2. minni hluta, sem ég mæli hér fyrir, að í fyrsta lagi skorti allar forsendur til þess að standa að afgreiðslu þessa máls. Þetta er ekki hægt, það er ekki boðlegt að fara að afgreiða þetta svona á jafnveikum grunni og boðið er upp á. Væri það bara Alþjóðagjaldeyrissjóðshluti málsins einn og sér er hann í sjálfu sér sæmilega útreiknanlegur af því að þar liggur lánstími fyrir, og lánskjör o.fl. í þeim dúr, en því er ekki að heilsa og ekki er annað hægt en taka afstöðu til þessa máls í heild eins og það er. Nú er Alþingi ætlað á einum degi að afhenda framkvæmdarvaldinu — sem þegar hefur farið langt út fyrir valdmörk sín hvað það varðar að skuldbinda þjóðina og hefja framkvæmd þessa máls án samþykkis Alþingis — að afhenda ríkisstjórninni, sem ég treysti ekki og þjóðin treystir ekki, þessar ískyggilegu heimildir og láta hana annast um framkvæmdina með þeim stofnunum sem algjörlega hafa brugðist hlutverki sínu á undanförnum missirum. Það get ég ekki samþykkt af því að ég hef enga trú á því og ég hef ekkert traust til þess ferlis sem þá fer í gang í höndum þeirra manna sem þar eiga um að véla.

Þá er betra að átta sig á því strax, stoppa við og segja: Nei, við skulum ekki fara með Ísland inn í þennan leiðangur úr því að hann lítur svona út. Það er heiðarlegra. Og þó að kostirnir séu ekki margir má a.m.k. berjast heiðarlega í staðinn fyrir að gefast upp með þeim hætti sem hér er að mörgu leyti ætlunin að gera og varpa vandanum inn í framtíðina. Það verða þá ríkisstjórnir og Alþingi og þjóðin á næsta og inn á þarnæsta áratug sem koma til með að bera hitann og þungann af því sem þessi ónýta ríkisstjórn ætlar að fara að skrifa upp á, því miður. Þó að erfiðleikarnir fram undan til næstu mánaða og missira séu því miður miklir, með uppsögnum og atvinnuleysi, verða skilmálar þjóðarbúsins og staða ríkisfjármála og opinberra fjármála enn ískyggilegri þegar frá líður, þegar vaxtakostnaðurinn hefur hlaðist upp ár frá ári. Ætli megi ekki ætla að hann verði orðinn um fjórðungur af fjárlögum á árunum 2010 og 2011? Það er ekki ólíklegt, þá verði hann kominn vel inn á annað hundrað milljarða kr. og eru þá afborganirnar ekki farnar að falla til að því marki sem þær verða.

Það er því niðurstaða okkar að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar og fela henni að taka viðræður við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn upp á nýjum forsendum með það markmið að lántakan verði sem minnst eða engin og að skilmálarnir verði ekki þeir sem hér er teiknað til. Fáist Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ekki til að veita einhverja fyrirgreiðslu án þeirra þvingunarskilmála sem á okkur hafa verið settir er betra að sleppa því.

Vegna tengingarinnar yfir í Icesave-uppgjöfina, sem er af tvennu illu enn tilfinnanlegri — að þar fari hundruð milljarða kr. íslenskra skattgreiðenda í hafið, peningar sem við sjáum aldrei neitt af, getum ekki nýtt til nokkurs hlutar. Öfugt við lán sem við tökum til einhverra verkefna hér innan lands, endurfjármögnunar eða til að styrkja gjaldeyrisvaraforða er ekki hægt að skrifa upp á þennan pakka og það er hliðstæð frávísunartillaga, eða öllu heldur rökstudd dagskrá, í hinni tillögunni þannig að niðurstaða okkar er sú að fara í málið á öðrum forsendum, að ríkisstjórnin fái það umboð frá Alþingi að fara aftur til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og semja þar upp á nýtt. Ef það verður niðurstaðan eftir sem áður að einhver lán, eða þó það lán sem komið er, eigi að standa — sjálfur sagði hæstv. forsætisráðherra opinberlega að ef Alþingi féllist ekki á umboðið til ríkisstjórnarinnar yrði láninu skilað og það hlýtur að standa enda er það að mestu leyti inni á bankabók í New York ef ég veit rétt — þannig að fyrir Alþingi geti komið á nýjum forsendum áætlun í þessum efnum sem byggist þá á því að menn hafi ekki gefist upp gagnvart Icesave-deilunni og sem byggist á því að menn ætli aðra leið með landið í gegnum þessa erfiðleika, leið sem minnstrar lántöku, hugsanlega þar með meiri erfiðleika til skamms tíma litið, maður verður að vera heiðarlegur og horfast í augu við að þá er verið að segja það, en framtíðarhorfurnar og möguleikar landsins til að vinna sig síðan hratt upp með miklu minni skuldir á bakinu væru margfalt betri.

Þetta er niðurstaða 2. meiri hluta, (Gripið fram í.) 2. minni hluta, virðulegur forseti — þökk fyrir aðstoðina, orkumálaráðherra, eða skal ég segja olíumálaráðherra í dag? Mér er sagt að dagamunur sé á því hvernig ráðherra titlar sig. (Gripið fram í.) Með vísan til þess rökstuðnings sem hér hefur verið fluttur leggur 2. minni hluti utanríkismálanefndar til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið eftir atvikum (Forseti hringir.) að semja um lágmarkslánveitingar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða aðra alþjóðlega aðila eða ríki um þau gjaldeyrislán sem nauðsyn ber til að taka og án þess að Ísland afsali sér sjálfsstjórn í innri málum.