136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[12:08]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um þetta atriði. Að öðru leyti álít ég að sú lausn sem hann talar um og kallar núlllausn hefði hugsanlega verið fær. Ég tel hins vegar að sú leið sem er farin með þessari þingsályktunartillögu sé miklu heppilegri til þess að við náum okkur fyrr upp úr þeirri djúpu lægð sem við erum að sigla inn í.

Það er tvennt sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega og taldi slæmt við skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það er í fyrsta lagi vaxtahækkunin. Ég styð hana á þeirri forsendu að ég tel að hún sé nauðsynleg viðspyrna gegn útflæði fjármagns og af sömu ástæðu styð ég líka gjaldeyrishöftin. Í annan stað sagði hv. þingmaður að gjaldeyrissjóðurinn krefðist mikils niðurskurðar. Það er alveg rétt að það felst í þessari stefnu. En hv. þingmaður sagði líka að við hefðum lent í náttúruhamförum þótt þær væru að vísu af mannavöldum.

Þegar þjóð lendir í slíku þá verður hún að bregðast við. Okkur er sá kostur einn nauðugur við þessar aðstæður að skera niður og við verðum að gera það. Og eftir það mikla góðæri sem hér hefur verið á síðustu árum þá tel ég að okkur takist að skera niður þá tugi milljarða sem við verðum að gera án þess að það muni leiða (Forseti hringir.) til einhverra náttúruhamfara í ríkisfjármálunum. Ég tel að það sé gerlegt.