136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[12:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það væri fróðlegt ef maður hefði tíma til, að ræða um aðrar mögulegar leiðir í gegnum þetta. Það sem ég kallaði núlllausn er ósköp einfaldlega sú hugsun að reyna að sleppa hjá því að taka þessi lán, sérstaklega frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum vegna þess að því verður ekki á móti mælt að það er því verði keypt að ríkisstjórnin gafst upp í Icesave-deilunni, til að koma lánsumsókninni hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum áfram, það hangir á spýtunni. Það er bara þannig.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að ef ekki væri þetta kvika fé inni í hagkerfinu, jöklabréfin, sem ríkisstjórnin er nú hvort sem er að læsa inni með gjaldeyrishöftum, þá hefði verið miklu vænlegra að reyna að fara þessa leið út úr erfiðleikunum á forsendum landsins sjálfs og treysta á það að jákvæður viðskiptajöfnuður mundi fljótlega rétta stöðuna af og styrkja gengið eins og kannski má segja að vissar vísbendingar (Forseti hringir.) komi um þessa dagana. Ég held að hvort sem erfiðleikarnir verða meiri eða minni með þessari eða hinni aðferðinni í byrjun (Forseti hringir.) þá er eitt algjörlega ljóst, að langtímaframtíðarhorfur Íslands eru þeim mun verri sem ríkisstjórnin skuldsetur landið meira.