136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[12:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddi um núlllausn. Hún er athyglisverð en ég held að því verði ekki á móti mælt að hún hefði haft í för með sér gríðarlega óvissu og gríðarlega hættu. Hún hefði einungis getað gengið upp með víðtækum gjaldeyrishöftum og jafnvel með enn hærri stýrivöxtum en þó er raunin í þessu tilviki til að stemma stigu við útflæði fjármagns sem hefði verið óhjákvæmilegt við þær aðstæður. Það hefði verið mikið hættuspil að leika sér með þeim hætti að afkomu almennings í landinu og þá hefðum við staðið raunverulega frammi fyrir verulegri hættu á óðaverðbólgu og sívaxandi gjaldeyriskreppu.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lærði ekkert af fyrri reynslu sinni í öðrum löndum og beitti sömu frjálshyggjulausnunum, ef ég man rétt, og sömu áherslunni að öllu leyti í því efni. Þarna er hv. þingmaður að reyna að sanna fyrir sjálfum sér að málflutningur hans hingað til eigi við rök að styðjast því að reynslan sýnir allt annað.

Það var athyglisvert í viðskiptanefnd í síðustu viku að sjá að hinn ágæti framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Vilhjálmur Egilsson, trúði varla sínum eigin augum þegar hann sá gjaldeyrishöftin sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði lagt til. Þar kom líka fram að það var erfitt fyrir fulltrúa Vinstri grænna í nefndinni, hv. þm. Jón Bjarnason, að finna leið til að vera á móti málinu, slíkur konfektmoli fannst honum nú felast í þessum víðtæku gjaldeyrishöftum. Það er nefnilega alveg ljóst að þau víðtæku gjaldeyrishöft sem nú hafa verið sett á í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eru virkilegt fráhvarf frá þeirri stefnu sem sjóðurinn hefur fylgt hingað til og hann er þar greinilega að læra af reynslu sinni. Þetta atriði í málflutningi (Forseti hringir.) hv. þingmanns stenst því ekki.