136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[12:16]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta utanrmn. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir áliti 3. minni hluta utanríkismálanefndar við stöðu þessa máls sem er eins og alþjóð veit eitt af alvarlegustu málum sem upp hafa komið í íslensku þjóðfélagi í áratugi. Miðað við þau gögn og munnlegar upplýsingar sem legið hafa fyrir í utanríkismálanefnd við afgreiðslu málsins verður að gera í upphafi þann almenna fyrirvara við afgreiðslu þess að flest bendir til að það taki þjóðina að minnsta kosti fimm eða jafnvel tíu ár að vinna sig út úr þeim vanda sem við blasir. Það geta liðið mörg ár þar til ríkisfjármálin verða aftur afgreidd án halla á hv. Alþingi á hverju ári. Það liggur því fyrir að auknar byrðar verða lagðar á almenning á næstu árum.

Niðurskurður á fjárlögum mun verða staðreynd og það er næsta víst að greiðslubyrði vaxta og afborgun lána verður stór þáttur í fjárlögum næstu ára sem m.a. verður mætt, að ég hygg, með mismunandi tillögum um skattahækkanir í framtíðinni.

Ríkisstjórnin og Seðlabankinn tóku þá stefnu að leita samninga við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Aðrar leiðir voru ekki fullreyndar, að mínu mati. Þá á ég einfaldlega við að fullreyna þá lánasamninga sem ef til vill hefðu staðið til boða í upphafi ferlisins. Sá skilyrðapakki sem ríkisstjórnin lýsti yfir að fjallaði um áform íslenskra stjórnvalda vegna fjárhagslegrar fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var um síðir kynntur á hv. Alþingi en hafði reyndar áður birst í DV. Öll ábyrgð málsins og meðferð þess hvílir því á herðum ríkisstjórnarinnar enda Alþingi ekki upplýst um málatilbúnað. Áætlun ríkisstjórnarinnar og samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er stærsta mál sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir í áratugi og að mörgu leyti er framtíð okkar í gerbreyttu samfélagi.

Það verður ekki undan því vikist að vandinn fram undan er staðreynd og á honum verðum við að taka hvort sem okkur líkar betur eða verr. Vandinn hverfur ekki nema því aðeins að við vinnum skipulega að því að takast á við hann þannig að þjóðin fari í framtíðinni sem best út úr þessum málum. Í því sambandi teljum við í Frjálslynda flokknum að einkum þurfi að verja heimilin og velferðarkerfið í komandi þrengingum. Það þarf að reyna að auka tekjur með öllum tiltækum ráðum í þjóðfélaginu og sömuleiðis að halda uppi atvinnustiginu eins og hægt er.

Það hefur mikið skort á að skýrar upplýsingar væru til staðar um þær heildarskuldir sem íslenska ríkið þarf að taka til sín með erlendum lántökum. Ég vil taka undir orð hæstv. forsætisráðherra að vissulega er að því stefnt að taka eins lítil lán og mögulegt er. Það er sú meginstefna sem við þurfum að hafa til að reyna að komast út úr þessum vanda og alvarlega ferli, að taka eins lítil lán og mögulegt er. Því verður hins vegar ekki undan vikist að leysa vandann með erlendum lántökum. Mjög hefur þó skort á upplýsingar við vinnslu málsins að mínu mati. Ekki hefur verið lagt raunsætt mat á hver vaxtabyrðin verður né hvernig afborgunarskilmálarnir verða eða hvað það mun kosta íslensku þjóðina. Í utanríkismálanefnd var lagt fram plagg sem fylgiskjal í áliti meiri hlutans um það hvernig það ferli sem sett var upp gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum gæti hugsanlega litið út, þ.e. aðgerðapakkinn.

Hins vegar fylgja engir útreikningar á því nákvæmlega hverju við stöndum frammi fyrir í tölum, vaxtabyrði og afborgunarskilmálum komandi ára. Hægt er að áætla eftir þeim munnlegu upplýsingum sem komið hafa fram við meðferð málsins í fjárlaganefnd og í utanríkismálanefnd hver skásta staðan geti orðið og einnig versta staðan. Ég held að ef við reynum að gera okkur grein fyrir því hver skásta staðan í þjóðfélaginu geti orðið, þegar tekið er tillit til þess máls sem við ræðum á eftir varðandi hina svokölluðu Icesave-reikninga í löndum Evrópusambandsins og væntanlegu samningaferli um það, að því gefnu að tekið sé tillit til þess að talsverðar eignir geti farið upp í þær skuldir á móti við sölu eigna m.a. í Bretlandi, þá sé líkleg niðurstaða að besta staðan geti verið í heild um 700 milljarðar kr. í skuldastöðu næstu tvö til þrjú ár. Það er ekki vitað nákvæmlega en leiða má að því líkur. Þær tölur eru þekktar sem við höfum dregið á lánalínur á þær heimildir sem við höfum samið um við Norðurlandaþjóðirnar, þ.e. við seðlabanka frændþjóða okkar. Við þekkjum líka þær tölur sem lagðar hafa verið í íslenska bankakerfið og við getum giskað á að við bestu niðurstöðu úr Icesave-reikningunum sitji kannski eftir 150 milljarðar á íslensku þjóðinni. Ef það eru réttar ágiskanir sem er kannski nálægt því að vera skásta staðan, að teknu tilliti til þess láns sem við tökum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þá er líklegt að vaxtabyrði komandi ára liggi á bilinu 50–70 milljarðar ár hvert.

Ég tel ekki rétt að fara í gegnum þessa umræðu án þess að nefna neinar tölur sem menn vita best um. En ég sakna þess, bæði í fjárlaganefnd og utanríkismálanefnd, að það skuli vera svo að við ræðum einn stærsta vanda sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir án þess að fá fram raunhæfar upplýsingar um hvað fram undan er í lántökum, hvað er fram undan í vaxtakjörum, hvað er fram undan í afborgunarferli o.s.frv. og tímaröð á hvernig raða megi þessu saman með sem hagfelldustum hætti fyrir íslensku þjóðina til framtíðar. Því eins og hæstv. forsætisráðherra sagði þá skiptir auðvitað máli hversu stórt lán við tökum og ég tek undir það og ítreka að auðvitað er best að taka eins lítið lán og við mögulega komumst af með. En allt að einu þurfum við líka að gera áætlun um að taka lán til að borga niður lán á þessum tíma. Því þó að kvaðir séu um að skera niður í fjárlögum um 10% á næstu árum þá er mjög vafasamt að það dugi til, til að axla þær byrðar sem á okkur lenda vegna vaxta og afborgana á komandi árum. Í áliti okkar kemur fram, hæstv. forseti, að líklegt sé að í fjárlögum næstu ára muni verða útfærðar mismunandi skattahækkanir, m.a. til að axla þær byrðar sem þjóðin tekur nú á sig.

Það er einnig líklegt að hallinn á ríkissjóði næstu þrjú árin geti orðið yfir 400 milljarðar samanlagður. Þann halla þarf einnig að fjármagna og væntanlega verður það gert með innlendri lántöku, útgáfu ríkisskuldabréfa. Það fer ekkert á milli mála að við erum að taka mikla áhættu með framtíð okkar næstu árin og göngumst í raun undir það að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi framkvæmd efnahagsstefnuna að miklu leyti á valdi sínu miðað við þau skilyrði sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að gangast undir og er fylgifiskur þeirrar lántöku sem við erum að ræða um varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Auðvitað er margt óljóst um þau árangurstengdu markmið sem miða skal við, m.a. í eftirliti sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætlar að hafa með stefnu okkar til framtíðar. En eftir því sem við komumst af með því að taka minni lán þeim mun auðveldara verður þetta allt saman fyrir okkur og væntanlega erum við öll sammála um það, í hvaða stjórnmálaflokki sem við erum, að við munum leggjast á árarnar við að koma okkur út úr þeim vanda sem vissulega er staðreynd.

Segja má að Alþingi standi í raun frammi fyrir orðnum hlut að því er varðar lántöku hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Málið var þannig unnið af hálfu ríkisstjórnar og Seðlabanka að ekki varð aftur snúið. Krónan er komin á flot m.a. í skjóli þess gjaldeyris sem lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum veitir okkur og við erum því rauninni ekki að fjalla um þetta mál þannig að samningagerðin sé gerð með fyrirvara Alþingis. Framkvæmdin er hafin, lán hefur þegar verið tekið og í raun hefur ríkisstjórnin lokað öðrum leiðum ef þær voru mögulegar fyrr í ferlinu, sem vissulega getur verið deiluefni út af fyrir sig.

Eitt liggur algjörlega fyrir, hæstv. forseti, í þessu máli. Áætlun ríkisstjórnarinnar um ferlið fram undan liggur ekki fyrir nú og þegar spurt er í nefndum þingsins þá er jafnan vísað á áætlanir eða spár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þó að það séu liðnir hátt í tíu dagar síðan beðið var um sérstakt yfirlitsblað frá stofnunum ríkisins, forsætisráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu, Seðlabanka, um það hvernig framtíðin gæti litið út að þessu leyti, hvaða áætlun liggi fyrir um lántökur, kostnað af þeim, afborganir, afborgunarskilmála, röð lántökunnar og svo framvegis, ríkisfjármálin, þá hafa slíkar upplýsingar ekki verið gefnar. Einstöku sinnum hefur á fundum komið einn og einn takmarkaður upplýsingapakki í mæltu máli, þá ýmist frá fulltrúum Seðlabankans eða fulltrúum ríkisstjórnarinnar úr ráðuneytunum. Í heildina litið höfum við þingmenn ekki haft yfirlit yfir þetta mál á einu skipulegu framlögðu blaði um það hvernig málið gæti litið út heldur eru þetta samantínd brot og oft og tíðum byggt á munnlegum upplýsingum.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að í þessu ferli er virkilega hægt að sakna gömlu Þjóðhagsstofnunar sem hafði þó það hlutverk að reikna fyrir okkur út marga valkosti í ýmsum málum, þ.e. hvað gæti gerst við ákveðnar aðstæður eða miðað við ákveðnar forsendur og að menn hefðu þá getað lagt hér fram útreikninga sem sýndu valkost eitt, tvö og þrjú eða A, B og C eftir atvikum eftir því hvernig menn vilja orða það, miðað við mismunandi lántökur og mismunandi niðurstöðu.

Það er alveg ljóst, hæstv. forseti, að okkur er mikill vandi á höndum á næstu árum að stýra fjármálum ríkissjóðs meðal annars með þeim áherslum að halda hér utan um velferðarkerfið, tryggja að ekki verði fjöldagjaldþrot heimilanna, stuðla að því svo fremi sem við getum að atvinnustigið í landinu haldist uppi. Þetta eru allt markmið sem við þurfum að horfa á í ríkisfjármálunum sama hvar í flokki við stöndum til að forðast að lenda of djúpt í þeirri lægð og vanda sem við stöndum frammi fyrir.

Hæstv. forseti. Ég tel að sú stýrivaxtahækkun sem gripið var til fyrir nokkrum vikum hafi verið misráðin. Ég tel að það eigi að keyra stýrivextina mjög hratt niður meðal annars til þess að stuðla að því að atvinnulífið nái hér betri stöðu sem allra fyrst. Það er mikið um uppsagnir hjá atvinnufyrirtækjunum og við megum ekki með neinum hætti við því að þær haldi áfram eins og verið hefur því að við þurfum að styðja við atvinnulífið. Það er líka partur af því að vernda stöðu heimilanna.

Partur af því, hæstv. forseti, fyrir framtíðina er líka að afla þjóðarbúinu tekna og við getum vissulega aukið tekjur þessa þjóðfélags. En þá verða menn líka að vera samtaka um að það geti þurft að taka einhverja áhættu í þeim efnum, eða sumir vilja kalla það áhættu. Ég er reyndar ekki á því að mikil áhætta sé fólgin í því þó að við aukum tekjurnar úr hafinu og við þurfum að horfa til þess hvaða kosti við eigum varðandi orkunýtingu og þar eigum við auðvitað fleiri kosti en bara álver. Við erum langt komin á þeirri vegferð að byggja upp álver í Helguvík og ákvarðanataka um Húsavík liggur held ég fyrir. Ég tel að við eigum ekki snúa af þeirri braut heldur reyna að fleyta þeim verkefnum áfram þó ég sé ekki talsmaður þess, hæstv. forseti, að hér rísi álver í hverri vík. Ég tel einmitt að það sé kominn tími á að fara að staldra þar við fyrir framtíðina og horfa til annarra kosta.

Það liggur ljóst fyrir að á komandi árum mun sá mikli vandi sem við stöndum frammi fyrir birtast íslensku þjóðinni í skertum lífskjörum. Það er ekki hægt að ræða þessi mál án þess að segja hlutina hreint út eins og þeir eru. Lífskjörin munu versna áður en þau batna. Það er alveg ljóst. Vonandi verða árin ekki mörg sem við búum við þær alvarlegu afleiðingar sem mér sýnast fylgja þeim skuldum sem við erum að taka á okkur. En ég held að það sé mikil bjartsýni að halda að þessu ljúki á næstu fjórum, fimm árum. Svo getur ekki orðið, hæstv. forseti, nema við fáum þá einhvern algjöran sérstakan happdrættisvinning hér í verulega auknum tekjum og ýmsum aðstæðum sem maður sér alla vega ekki fyrir hér og nú, enda hefur sá sem hér stendur í ræðustól aldrei unnið í happdrætti og hefur ekki byggt mikið á því að vinna í happdrætti fyrir framtíðina.

Niðurstaðan getur hins vegar orðið sú í versta falli að staða þjóðfélagsins verði sú að heildarskuldir okkar fari yfir 1.000 milljarða, jafnvel upp í 1.400 milljarða, meira en þjóðarframleiðslan. Það má meðal annars lesa í sumum skjölum sem sést hafa þar sem þjóðarframleiðslan er notuð sem viðmið við það hverjar skuldirnar gætu orðið. Það er mjög alvarlegt ef svo fer, hæstv. forseti, og það ber að varast. Það ber að varast með öllum tiltækum ráðum að í svo stórum skuldapakka lendi íslenska þjóðin til framtíðar.

Við stöndum hins vegar frammi fyrir því, hæstv. forseti, að sú vegferð sem við nú ræðum, lántakan hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, er hafin og ég sé ekki, hæstv. forseti, að neinn vegur sé að snúa við á þeirri leið sem við erum komin á. Þess vegna eru aðeins tveir kostir í stöðunni fyrir okkur þingmenn í stjórnarandstöðu að mínu viti. Annar er sá að sitja hjá við afgreiðslu þessa máls í ljósi þess hvernig það hefur verið unnið og hvar ábyrgðin liggur. Hinn er sá að greiða atkvæði með tillögunni í þeirri von að það ferli sem þegar er hafið og verður örugglega ekki snúið frá færi þjóðinni þá bestu niðurstöðu sem við getum búist við út úr þessum vanda. Ég hygg, hæstv. forseti, að það verði niðurstaða okkar í Frjálslynda flokknum.