136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[12:40]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Hæstv. forseti. Á 9. og 10. áratug síðustu aldar, þ.e. í lok 9. áratugarins og byrjun þess 10., starfaði ég sem ráðgjafi í GE, bandarísku fyrirtæki, enda búsett þá í Bandaríkjunum. Á þeim tíma var GE að lyfta sér upp úr mikilli kreppu í því fyrirtæki. Þar störfuðu 360 þúsund manns víða um heim og ég verð að segja frá þeirri reynslu að uppbyggingin var mjög gjöful, hún var erfið en með samræmdu áralagi og mikilli þrautseigju náði fyrirtækið því að standa miklu öflugra eftir en áður. En Ísland er ekki fyrirtæki og þar með lýkur einhvers konar líkingamáli varðandi GE.

Hins vegar hafa þjóðir víða um heim lent áður í bankakreppum og mig langar í tilefni af umræðunni í dag að fjalla um þrjú atriði: Í fyrsta lagi þann lærdóm sem við getum dregið af öðrum þjóðum í því ferli sem við göngum nú í gegnum. Í öðru lagi ætla ég að gera tilraun til að fara yfir nokkra þætti í viljayfirlýsingunni sem fylgir þingsályktunartillögunni og í þriðja lagi aðeins að fjalla um fjárhagslegar skuldbindingar okkar Íslendinga í tengslum við þetta mál á næstu árum.

Þingsályktunartillagan sem nú er til umfjöllunar hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta áform um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á grundvelli fyrirliggjandi viljayfirlýsingar íslenskra stjórnvalda.“ Síðan fylgir viljayfirlýsingin.

Varðandi þann lærdóm sem draga má af reynslu annarra þjóða langar mig að nefna að Svíar og Finnar gengu í gegnum mjög erfiða bankakreppu í byrjun 10. áratugarins og það er athyglisvert að skoða bankakreppur og kreppur liðinna áratuga í því ljósi en þær hegða sér að sumu leyti svipað og að sumu leyti aðeins mismunandi, eftir um hvaða þjóð er að ræða. Í stóru myndinni má lesa eftirfarandi í gögnum margra þjóða, þ.e. um tilurð fjármálakreppu og ég ætla að vitna í skýrslu sem ég las um finnsku fjármálakreppuna. Hún var á ensku og þar var tekið saman í sex orðum hvað olli fjármálakreppunni í Finnlandi: „Bad luck, bad policy, bad banking,“ þ.e. að við höfum verið óheppin, það voru óviðunandi reglugerðarumhverfi og í þriðja lagi að bankastarfsemin var of áhættusækin.

Varðandi óheppnina, af því að ég ætla aðeins að fara í þá þætti sem við getum talað um að við getum lært af öðrum, þá megum við Íslendingar ekki skauta yfir þá staðreynd að við erum ekki fyrst þjóða til að fara í gegnum svona herfilega reynslu eins og við erum að ganga í gegnum núna heldur hafa aðrir og líka Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn oft farið í gegnum svona kreppu og það má draga lærdóm af því. Ég ætla að leyfa mér að kíkja aðeins á það sem þeir Finnar sem hafa gert greiningu á orsökum finnsku kreppunnar hafa sagt um hana.

Í fyrsta lagi um óheppnina. Það varð til kreppa í kjölfar frelsis á fjármálamarkaði. Reglur voru rýmkaðar. Það var líka efnahagslægð á alþjóðamörkuðum á sama tíma. Það var gríðarleg útlánaaukning hjá bönkum og afar gott aðgengi að erlendum lánum. Það var mikil skuldasöfnun fyrirtækja og heimila og á sama tíma stöðugt hækkandi eignaverð. Í Finnlandi hafði það mikil áhrif að Sovétríkin riðuðu til falls. Hækkandi vextir ýttu undir flæði erlends fjármagns, gengi marksins í Finnlandi varð of sterkt, gengi þýska marksins var veikara og menn fengu gjarnan lánað í þýskum frekar en finnskum mörkum.

Varðandi reglugerðarumhverfið segir að frelsinu hafi ekki fylgt viðunandi reglugerðarumhverfi. Að ófullnægjandi stefna í fjármálum, peningamálum og auk þess ófullnægjandi lagaumhverfi hafi verið til staðar. Að fjármálaeftirlitið í Finnlandi hafi ekki verið eflt samhliða auknu frelsi.

Í þriðja lagi varðandi áhættusækna bankastarfsemi þá er talað um áhættusækni og mjög hraðan vöxt í kjölfar frelsis. Útlánaaukningu, að miklu leyti eða töluverðu leyti í erlendri mynt. Það var töluvert aukin samkeppni bankanna um markaðshlutdeild, hækkun eignaverðs, aðgengi í erlent fjármagn, það hefur reyndar komið fram áður.

Það var líka talað um kæruleysi í fjárfestingum og útlánastarfsemi og mjög veika áhættustýringu í bönkunum og innra eftirlitið var þar að auki veikt. Hljómar þetta kannski kunnuglega? Ég held að mörgum þyki þetta hljóma kunnuglega og auk þess þegar farið er að lesa skýrslurnar frá Argentínu og skýrslurnar frá Svíþjóð og reyndar fleiri löndum, þá hljómar þetta nefnilega svolítið skylt, þ.e. að aðdragandinn virðist vera mjög svipaður. Þá með afleiðingarnar. Skyldu þær vera svipaðar? Að sumu leyti og öðru leyti ekki.

Afleiðingarnar í Svíþjóð voru t.d. þær að húsnæðisverð féll um 50% frá því sem hæst var. Nákvæmlega sama gerðist í Finnlandi, svipað í Argentínu og ég gæti haldið áfram. Þetta er athyglisvert að skoða stóru myndina. Þá er það hagvöxturinn. Ég er hérna með línurit sem ég fékk frá forsætisráðuneytinu sem sýnir hvernig hagvöxtur þróast ef miðað er við að kreppuárið sé samstillt, þ.e. það ár þegar kreppan nær fyrst fullum þunga eins og verður 2009. Í 123 löndum er skoðað hvað gerist og einnig er spá sem byggir á útreikningum forsætisráðuneytisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem sýnir hvernig íslenska kreppan muni líklega haga sér. Og ég get sagt, byggt á þeirri greiningu sem ég hef gert á bankahruni í Argentínu, Finnlandi, Svíþjóð og reyndar víðar að á þessu fyrsta ári, þ.e. sambærilegu við 2009, er hagvöxtur mínus 8–10%. Því er spáð líka hér að hagvöxtur verði neikvæður um u.þ.b. 8%.

Hagvöxtur er neikvæður áfram á ári tvö en byrjar síðan að snúast í jákvæðan hagvöxt. Í Argentínu skall kreppan á í desember 2001. Því miður blasti strax við Argentínumönnum gríðarleg stjórnmálakreppa. Það voru einir fimm forsetar sem tóku völd hver á eftir öðrum í skamman tíma eftir að bankakerfi þeirra hrundi í desember 2001. Argentínumenn fóru í gegnum mjög djúpan dal og djúpa kreppu en ég minni á að árið 2006 staðgreiddu Argentínumenn skuldir til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þeirra viðmiðunarár var 2002 og neikvæður hagvöxtur var þar 2002 og 2003, snerist síðan í jákvæðan árið 2004. Vandinn við þessar kreppur, sem ég er svolítið ósátt við og fær mann til að hugsa, er að þær leiddu til ákveðinna afleiðinga hjá þjóðunum sem virtust ekki vera afturkræfar á þeim tíma sem maður hefði viljað sjá. Dæmi: Gengi pesóans í Argentínu hefur engan veginn náð því stigi sem það var fyrir kreppu en aftur kemur maður að því einstaka í hverju landi fyrir sig. Það má líka vissulega benda á að Argentínumenn höfðu lifað langt um efni fram á áratugnum 1990–2000 og m.a. nánast handhaldið gengi pesóans við dollar, í heilan áratug. Þeir mokuðu peningum í þetta, m.a. peningunum frá IMF. Þeir höguðu sér rosalega illa, má eiginlega segja, og gengið er engan veginn komið til baka.

Ef við lítum við Finnlands þá er þar dæmi um eitthvað sem er hræðilegt að horfa til og virðist hafa verið afar erfitt að endurheimta en það er atvinnustigið hjá Finnum. Áður en kreppan skall þar á í upphafi 10. áratugarins var atvinnuleysi um 3%. Um 1993 var atvinnuleysið orðið 20%, sem er vissulega rosalega hátt, og 1994 var það enn þá 20% en maður skyldi ætla að það hafi farið í betra horf hjá Finnum og vissulega gerði það það því í dag er atvinnuleysi 6%, mun hærra en það var fyrir kreppu. Af þeim 6% sem eru atvinnulausir í Finnlandi hefur um það bil fjórðungur, þ.e. 2% Finna, lent í langtímaatvinnuleysi og það eru afar slæmar fréttir. Þetta er viðvarandi atvinnuleysi þegar viðkomandi einstaklingur hefur verið atvinnulaus í mjög mörg ár.

Ég veit að lærdómur frá öðrum skiptir okkur höfuðmáli. Ég veit líka að lærdómur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins skiptir okkur höfuðmáli. Við Íslendingar eigum ekki að fara í þetta einir. Við eigum að leita í sjóði, reynslu og þekkingu þeirra sem á undan hafa gengið og við eigum að nýta okkur Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem við erum aðilar að og höfum verið í áratugi og við eigum að fara í gegnum þetta. Við erum kannski ein fyrsta þjóðin sem leitar á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í þeirri alheimskreppu sem við stöndum vissulega frammi fyrir, a.m.k. í vestrænum heimi stöndum við frammi fyrir víðtækri kreppu sem lýsir sér í lánsfjárþurrð og gífurlega erfiðri stöðu á lánsfjármörkuðum. Það eru erfiðleikar hjá fyrirtækjum, t.d. hjá bílaframleiðendum. Við gætum farið að rekja stöðuna í heiminum núna en ég ætla ekki að gera það. Ég vil sjá okkur Íslendinga vera fyrstu þjóðina til að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en líka fyrstu þjóðin til að fara út úr aðstoð þeirra vegna þess að við höfum í raun og veru náð þeim árangri sem við þurfum að ná. Mér finnst mikilvægt að við lærum af reynslu annarra.

Í öðru lagi langaði mig að tala aðeins um viljayfirlýsinguna, tillögu til þingsályktunar og viðhengið með henni. Viðhengið er um aðgerðir og áform íslenskra stjórnvalda vegna fjárhagslegrar fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Í viljayfirlýsingunni koma fram 27 liðir sem ég veit að þingmenn þekkja mjög vel og í þeim birtist aðgerðaáætlun ríkisins varðandi stefnuna næstu árin eða næstu missirin skulum við segja.

Það má eiginlega skipta þessu plaggi í tvennt. Í fyrsta lagi er fjallað um endurskipulagningu bankakerfisins. Í öðru lagi stefnuna í peninga- og gjaldeyrismálum. Í þriðja lagi stefnuna í ríkisfjármálum og svo um samstarfið um vinnumarkaðinn og þjóðarsáttina, sem við þurfum að ná.

Mig langar til að nefna margt í plagginu en tíminn líður hratt svo ég ætla að stikla á stóru. Í 5. liðnum er talað um að endurskipuleggja þurfi bankana til að hámarka heimtur eigna með gegnsæjum hætti og koma að því að endurreisa fjármálastarfsemina. Það sem mér finnst ánægjulegt við þann lið sérstaklega er að við höfum fengið til samstarfs Svía sem hefur átt m.a. þátt í að endurreisa fjármálakerfi í kjölfar bankakreppunnar þar í landi í byrjun 9. áratugarins og ég trúi því að hann komi inn með þá reynslu og þekkingu sem Svíar byggja á. Hún er æðimikil og ég ímynda mér að það verði okkur til farsældar að fá þannig þekkingu beint inn í verkferlana, í verkþættina, og fá til starfa einstakling sem þegar hefur farið í gegnum álíka krísu. Ekki nóg með það, heldur hefur viðkomandi aðili einnig verið yfirmaður á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og unnið með öðrum þjóðum líkt og Íslandi núna.

Í 10. liðnum er talað um endurskipulagningu á eftirlitsstofnunum og reglugerðarumhverfinu og þar erum við að fara í reynslusjóð og leita í reynslusjóði og þekkingu Finna. Það er finnskur maður sem hefur fengist til að stjórna því verki, fyrrverandi forstöðumaður fjármálaeftirlitsins í Finnlandi og ég trúi því að hann hafi til að bera bæði þá þekkingu og þann skilning sem við þurfum á að halda í því verki sem fram undan er. Tími gefst ekki til að fara nákvæmlega í alla þá þætti sem eru í viljayfirlýsingunni en ég ætla að hvetja alla þingmenn til að kynna sér yfirlýsinguna vel en fyrst og fremst vil ég hvetja stjórnvöld til að deila með öllum landsmönnum hvað í þessu felst. Þetta er nefnilega ekki svo hræðilegt ef þetta er brotið niður í verkþætti vegna þess að við stöndum einfaldlega þannig að það er skurður beint fyrir framan okkur og við þurfum að moka ofan í skurðinn og við þurfum að gera þetta saman.

Ég minntist á GE í upphafi ræðu minnar sérstaklega vegna þess að þar var snilldin, þetta samhæfða áralag sem fæst þegar allir skilja að hverju er stefnt og hverju við ætlum að vinna að og við þurfum öll að vinna saman. Ég hef svo mikla trú á íslenskri þjóð, á íslenskum ungdómi, á fólkinu okkar og ég trúi því að við getum öll saman unnið að því að moka ofan í þennan skurð. Og í þriðja lagi, skurðurinn samanstendur af mörgum þáttum og m.a. þarf að moka ofan í hann vegna þess að okkur vantar einfaldlega fjármuni. Það er gríðarlegt uppbyggingarstarf fram undan í íslensku samfélagi í kjölfar bankahrunsins. Skuldir ríkissjóðs blasa við hvort sem við erum að vinna með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða hvernig sem við mundum hafa unnið þetta þá blasa skuldir ríkissjóðs við. Þær hafa margfaldast miðað við það sem áður var. Fjármögnunarkostnaður ríkissjóðs á næstunni vegna hrunsins er fyrst og fremst tilkominn af þrennu:

Í fyrsta lagi þarf að fjármagna þann hallarekstur sem er fram undan á fjárlögum næstu ára. Ég fagna því að við tökum halla á fjárlögum vegna þess að það er eitt sem ég lærði af hinum þjóðunum sem fóru í gegnum bankakrísuna. Finnar voru ekki nógu duglegir við að nota ríkissjóð til að sveiflujafna og þetta kom gríðarlega niður á atvinnuleysi í Finnlandi þannig að það er ekki alslæmt að það skuli vera hallarekstur fram undan. Við vitum að hann verður og það á auðvitað eftir að koma í ljós hversu mikill hann verður. Það er áætlað að hann geti verið 470 milljarðar.

Í öðru lagi er um að ræða endurfjármögnun bankanna. Áætluð þörf er á bilinu milli 350 og 385 milljarðar. Í þriðja lagi þarf að endurfjármagna Seðlabankann sem nemur líklega um 150 milljörðum. Við vitum það nokkurn veginn að gera má ráð fyrir að bara þessar þrjár upphæðir sem ég hef talið upp séu á bilinu 900 til 1.000 milljarðar, með töluverðri óvissu þó. Við vitum t.d. ekki hver hallarekstur ríkissjóðs verður. (Forseti hringir.) Við vitum ekki hvernig stendur að styðja við atvinnulífið og halda uppi atvinnustigi. Við vitum ekki hvernig tekst að efla nýsköpun og nýta auðlindirnar. Það mundi draga úr hallanum. (Forseti hringir.) Það kemur einnig til greina að erlendir kröfuhafar eignist í bönkunum. Það mundi draga úr fjármagnsþörf og fleira. — (Forseti hringir.) Ég hef reyndar ekki alveg lokið máli mínu þótt tíma mínum sé lokið en læt staðar numið í bili.