136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[13:00]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir athyglisverða ræðu og vil lýsa mig hjartanlega sammála henni hvað það varðar að engin ástæða er til að efast um dugnað og vilja þjóðarinnar til að vinna sig út úr þessum erfiðleikum. En þeir eru hins vegar miklir og það sem er fram undan erfitt. Það mun að sjálfsögðu takast enda kemur ekkert annað til greina. Uppgjöf er ekki til, að minnsta kosti ekki í mínu orðasafni, gagnvart svona hlutum.

Ég held að þjóðin vilji engu að síður fá raunsætt mat á hvernig staðan er og hvaða verkefni bíður okkar. Það þýðir ekkert annað en að leggja spilin á borðið. Þess vegna tek ég líka undir að auðvitað ber stjórnvöldum rík skylda til að upplýsa og leggja áætlanir fyrir á heiðarlegan hátt og reyna ekki að fela vandann eða draga úr honum, án þess þó að draga kjarkinn úr þjóðinni. Heldur einmitt hið gagnstæða; að segja hlutina eins og þeir eru. Þetta er erfitt og verður erfitt í einhver ár en við ætlum í gegnum þetta.

Varðandi lærdóminn sem má draga t.d. af Argentínu tek ég undir það og nefndi ég bæði það land og fleiri í máli mínu. Þar er víti til að varast hvað varðar gjaldmiðil landsins og hvernig gríðarlegum fjármunum var sóað í tilgangslausar eða mislukkaðar aðgerðir til að verja hann.

Varðandi Finnland þá þekki ég það býsna vel. Ég kom til Finnlands á erfiðleikaárunum miklu upp úr 1990 og sá þar ótrúlega hluti eins og mörg hundruð metra biðröð eftir heitri súpu í hádegi á sunnudegi í miðborg Helsinki sem líður mér seint úr minni. Þar er líka víti til að varast því Finnar skáru mjög harkalega niður í velferðarkerfinu og misstu atvinnuleysið upp úr öllu valdi, þannig að enn er það gríðarlegt á sumum svæðum og í sumum héruðum Finnlands þó að landsmeðaltalið hafi þokast niður, eins og hv. þingmaður benti á.

Í ljósi reynslu annarra þjóða og vegna þess að því miður er prógramm Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í aðalatriðum hið (Forseti hringir.) gamla, klassíska niðurskurðarharðlínuprógramm er stóra spurningin sú hvort hv. þingmaður er ekki sammála mér um að það eigi að vera forgangsverkefni að forða sér undan því aftur.