136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[13:02]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (andsvar):

Já. Ljóst er að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og ég erum sammála um ýmislegt. Þjóðin vill nefnilega raunsætt mat á hvernig við stöndum. Ég er alveg hjartanlega sammála því. En þjóðin vill líka framtíðarsýn og hún birtist að mörgu leyti í þessari verkefnaáætlun. En það þarf að taka hana saman og flytja framtíðarsýnina og leiðarljósið út úr þrengingunum.

Ég held að villan sem Argentínumenn gerðu sé mjög ólík því sem við ætlum nokkurn tíma að gera. Þeir tóku nefnilega fjármuni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og mokuðu í það vonlausa verkefni að halda pesóanum samstilltum við dollarann. Allir Argentínumenn og þeir sem hafa skoðað þetta vita að ekki er hægt að líkja því saman. Hæstv. forsætisráðherra sagði t.d. hér áðan að við ætlum ekki að nota fjármunina á þann hátt. Þannig að ég held að við þurfum ekki að óttast það. Atvinnuleysi óttast ég og held að algjört forgangsatriði eigi að vera að vinna með atvinnulífi okkar og efla það og styrkja.

Við ætlum að vona að aðrar þjóðir sem hafa gengið í gegnum eitthvað svipað áður eða hafa einhverja reynslu í þessa veru, hafi áttað sig á að miklu skiptir að koma sér hratt upp úr kreppuástandi. Ég ætla að vona að við Íslendingar með samstilltu átaki undir forustu Geirs H. Haardes og ríkisstjórnar hans komum okkur út úr þessu sem allra fyrst. Ég hef fulla trú á því.