136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[14:21]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað engum fagnaðarefni að efnahagsmál þjóðarinnar skuli vera með þeim hætti að við þurfum að byggja efnahagsáætlun í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til þess að freista þess að vinna okkur út úr þeim vanda sem upp er kominn. Hins vegar er alveg ljóst að þetta var nauðsynleg aðgerð. Það var enginn valkostur í þeirri stöðu sem upp var komin annar en sá að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hefur mesta þekkingu á tiltækum úrræðum við aðstæður sem þessar og er þar af leiðandi nauðsynlegur verkstjóri í því sem fram undan er: að endurreisa íslenskt efnahagslíf í samvinnu og samstarfi við okkar nágranna- og vinaþjóðir.

Menn hafa upp á síðkastið stundum gert því skóna að við höfum haft þann valkost að gera þetta á eigin spýtur. Ég held að það sé óraunhæft. Það hefði sett verulegar byrðar á íslenskan almenning og skapað mikla óvissu um framgang verkefnisins og sú áhætta hefði ekki verið tilraunarinnar virði.

Í vinnu utanríkismálanefndar í þessu máli var lögð höfuðáhersla á að leita leiða til þess að skýra vel umfang þess verkefnis sem hér er um að ræða, eðli þess í tíma og eins umfang þeirra skuldbindinga sem í þessu fælust fyrir íslenskt þjóðarbú. Ég vil sérstaklega þakka fyrir þann góða samstarfsanda sem var í nefndinni við vinnu þessa máls þar sem stjórnarandstaða og stjórnarmeirihluti unnu saman að því að skýra þetta verkefni. Við eigum mikið undir því að þetta verklag sé öllum ljóst og almenningur og fyrirtæki fái tilfinningu fyrir því að hér sé um að ræða heilsteypta áætlun, að eftir henni verði farið og vandað verði til verka.

Við fórum ítarlega yfir málið og í nefndaráliti er nákvæmlega getið þeirrar vinnu sem þar fór fram. Við lögðum höfuðáherslu á að skýra einstaka þætti áætlunarinnar og sérstaklega að raða þeim upp í tímaröð. Nefndarálitinu fylgir yfirlit frá forsætisráðuneyti, sem hefur verkstjórn með höndum í þessu verki, um verklagið og hvenær búast megi við hvaða aðgerðum. Það er mjög mikilvægt að þessi tímaáætlun fari í almenna umræðu þannig að almenningur sjái að við erum núna í fremsta hluta verkefnis sem lýkur í stórum dráttum í febrúar, mars. Eftir það eiga línurnar að skýrast um helstu útfærsluatriði og framkvæmdaþætti.

Í nefndinni lögðum við mikla áherslu á að skýra verkstjórnarhlutverk forsætisráðuneytisins. Það er gríðarlega mikilvægt upp á árangur þessarar áætlunar að ljóst sé hver fari með verkstjórnina, hver taki höfuðábyrgð á samstillingu ólíkra krafta í samfélaginu, sem nauðsynlegt er að stilla saman til að ályktunin gangi eftir með fullnægjandi hætti, og hvernig það er gert. Það er ljóst að forsætisráðuneytið mun hafa þessa verkstjórn með höndum og sérfræðingar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum munu vinna með því að verkefninu. Mjög mikilvægt er að ábyrgðin á verkstjórninni sé skýr og öllum sé ljóst hvar hún liggur.

Margir koma að framkvæmd þessa verkefnis, aðilar víðs vegar í samfélaginu og auðvitað Seðlabanki Íslands sem fer með þá þætti er lúta að stjórn peningamála. Þar er óhjákvæmilegt að staldra við vegna þess að við verðum að fá betri takt og samfellu í vinnu opinberra aðila við þessa áætlun. Það hefur rýrt tiltrú á þessi fyrstu skref hvernig Seðlabankinn hefur verið hálfvolgur í stuðningi sínum við áætlunina. Hann tók ekki ábyrgð á því að hafa skrifað undir áætlunina þegar kom að stýrivaxtaákvörðun upp í 18% heldur reyndi að skjóta sér undan þeirri ábyrgð og vísaði til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í því samhengi. Auðvitað er Seðlabankinn með undirskrift sinni búinn að binda sig við þessa áætlun og á einfaldlega að standa við hana sem sína. Það er mjög mikilvægt að svona uppákomum linni og Seðlabankinn ræki af meiri fagmennsku það hlutverk sem honum er sannarlega ætlað í þessari áætlun og standi heill og óskiptur að baki henni. Tiltrú almennings og viðskiptalífsins á áætluninni skiptir öllu máli og þess vegna þurfum við nú öll að róa í eina átt. Við sjáum að fyrstu aðgerðir ganga ágætlega þó að varlegt sé að spá nokkru um það frekar.

Það er rétt sem komið hefur fram í þessari umræðu að sú takmarkaða verðmyndun sem leyfð hefur verið á krónunni í dag og í gær er auðvitað ekki fleyting krónunnar í þeim skilningi að verð hennar ráðist af frjálsum viðskiptum á markaði. Þetta er eins takmörkuð fleyting með kúti og korki og hugsast getur og er fyrst og fremst ætlað að tryggja að ekki skapist hætta á óðaverðbólgu á næstu mánuðum eins og möguleiki var á ef hér hefði orðið viðvarandi gjaldeyrisskortur til vöruinnflutnings og þjónustuviðskipta. Þess vegna er þessari upphafsaðgerð fyrst og fremst ætlað að tryggja að þeir sem vilja flytja inn vörur og þjónustu fái til þess gjaldeyri og ákveðin lágmarksviðskipti með gjaldeyri séu möguleg í landinu. Þannig er dregið úr hættu á vöruskorti og langvarandi verðbólgu.

Síðan er eftir hin eiginlega sjósetning íslensku krónunnar, fleytingin. Árangurinn nú í upphafi hefur í sjálfu sér afar takmarkað forspárgildi um hvernig krónunni reiðir af í ólgusjó frjálsra fjármagnshreyfinga í fyllingu tímans. Það er ekki hægt að draga sérstakar ályktanir af reynslu síðustu daga, ekki frekar en maður getur sagt að árabátur sem dugar vel til að fleyta manni á kyrru stöðuvatni dugi jafnframt til úthafssiglinga. Það er einfaldlega ólíku saman að jafna og margt þarf að gerast í efnahags- og viðskiptaumhverfinu áður en til eiginlegrar fleytingar krónunnar getur komið með trúverðugum hætti.

Í fyrsta lagi þarf að tryggja að innlendu viðskiptabankarnir séu í stakk búnir til að taka trúverðugan þátt í gjaldeyrisviðskiptum þegar að hinni eiginlegu fleytingu kemur. Í öðru lagi þarf að ná mjög góðri samstillingu í framkvæmd efnahagsáætlunarinnar, sérstaklega milli ríkisstjórnar og Seðlabanka, þannig að víðtæk tiltrú sé á að aðilar gangi allir í takt. Jafnframt er ljóst að til þess að fleyting gangi almennilega er mjög mikilvægt að samhliða verði gefin fyrirheit um framtíðarfyrirkomulag gjaldeyrismála í landinu. Krónunni verði þannig ekki ætlað að basla í ólgusjónum einni og óstuddri heldur verði henni áfram gefinn ákveðinn stuðningur með yfirlýsingu um hvert stefnt sé til lengri tíma litið. Ég er fullkomlega sannfærður um að ef ráðist yrði í fleytingu krónunnar án fyrirheita um framtíðarstefnu í gjaldmiðilsmálum værum við að bjóða heim mikilli hættu og verulegri veikingu krónunnar. Óvissa um framtíðarstefnuna mundi auka á vantrú á skynsemi þess að halda í krónuna til skemmri tíma.

Ef á hinn bóginn fleytingu krónunnar fylgdi yfirlýsing um aðildarumsókn að Evrópusambandinu hníga öll rök til þess að það drægi mjög úr óvissu á gjaldeyrismarkaði, stækkaði kaupendahópinn að krónunni og yki á tiltrú á hana. Um þetta eru allir fremstu hagfræðingar landsins sammála. Hagfræðingur Seðlabankans benti á í útvarpinu í hádeginu í dag að æskilegt væri að ákvörðun um framtíðarstefnu í gjaldmiðilsmálum lægi fyrir áður en að endanlegri fleytingu kæmi og afnámi gjaldeyrishafta.

Virðulegi forseti. Nú eru miklir umrótatímar og vegna þessara miklu áfalla sem yfir okkur hafa dunið öxlum við vissulega ábyrgð á mjög umfangsmiklum skuldbindingum fyrir íslenskt þjóðarbú til næstu ára. Í umfjöllun utanríkismálanefndar um málið kom fram hvert líklegt umfang þessara skuldbindinga er næstu árin og um hversu háar fjárhæðir er að ræða í vaxtagreiðslur á næstu árum. Það eru auðvitað afskaplega háar fjárhæðir. Við þær aðstæður verður manni ljóst hversu lítið svigrúm við höfum í ríkisrekstrinum og hve mikilvægt það er að halda vel á málum, draga úr allri óvissu í efnahagslífi, viðskiptalífi og ríkisfjármálum sem kostur er og greiða þannig fyrir því að við komumst sem fyrst út úr þessu umróti.

Þess vegna skiptir miklu máli að við sýnum aðhald í ríkisbúskap eins og við mögulega getum leyft okkur samhliða því að reyna að sjálfsögðu að verja grundvallarstoðir velferðarkerfisins, heilbrigðisþjónustuna, velferðarþjónustuna, félagsmálin og menntakerfið og að við setjum sem fyrst fram trúverðuga framtíðarstefnu um íslenska samfélagsþróun til næstu ára. Þar er engin yfirlýsing skynsamlegri og líklegri til að hafa jákvæð áhrif fyrir almenning til að auka tiltrú hans, fyrir fyrirtæki til að auka tiltrú þeirra og fyrir hið alþjóðlega umhverfi, en yfirlýsing um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Við þurfum mjög á því að halda núna að auka tiltrú íslensks almennings á að baráttan og erfiðleikarnir sem fram undan eru séu þess virði að takast á við þá og að við sköpum fyrirheit um að þessi kollsteypa verði ekki bara fyrirboði annarrar strax í kjölfarið. Við þurfum með öðrum orðum að gefa fólki fyrirheit um að þetta sé síðasta kollsteypa hins gamla óstöðugleika og að við ætlum að marka okkur stefnu um annars konar efnahagsumgjörð til lengri tíma litið. Það er mjög mikilvægt til að fólk hafi trú á framtíðinni.

Sömu fyrirheit þurfum við að gefa íslenskum fyrirtækjum sem hafa gengið í gegnum ólgusjó vonlauss gjaldmiðils á undanförnum árum. Við þurfum að gefa skýr fyrirheit um að við tökum stefnu á eðlilegra og heilbrigðara umhverfi í peninga- og gjaldeyrismálum og þar með undirstrika mikilvægi þess að fyrirtækin sýni okkur biðlund og vinni með okkur en flytji ekki starfsemi sína úr landi .

Virðulegi forseti. Við þurfum líka að auka tiltrú alþjóðasamfélagsins á það sem við erum að gera hér, laða að erlenda fjárfesta og skapa sátt og frið við nánustu vinaþjóðir okkar. Ef við ætlum að ráðast í uppbyggingu í þessu landi á næstu árum þurfum við á lánsfé og lánafyrirgreiðslu að halda eða beinni erlendri fjárfestingu. Hvort tveggja kallar á jákvæð og góð samskipti við okkar nánustu vina- og samstarfsríki. Yfirlýsing um aðildarumsókn að Evrópusambandinu væri einmitt liður í að efla og styrkja þau tengsl og auka tiltrú á þá efnahagsáætlun sem við erum búin að setja okkur að vinna eftir á næstu árum.