136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[15:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mitt sjónarmið er einfaldlega það að við höfðum ekkert til þess að ræða hér hvað viðvíkur skilyrðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins áður en samið hafði verið við sjóðinn um viljayfirlýsingu stjórnvalda. Um leið og stjórn sjóðsins hafði samþykkt viljayfirlýsinguna og þar með grunnforsendur þess hvernig við ætluðum að takast á við þennan vanda var málið lagt fram hér á þinginu. Það er einmitt það sem við erum að ræða.

Það hefur komið fram í umræðunni að styðji þingið ekki við þessa aðferðafræði sé sá möguleiki enn þá til staðar að endurgreiða þann hluta lánsins sem þegar hefur verið greiddur út — honum hefur ekki verið ráðstafað — og snúa á braut annarra leiða.

Varðandi ríkisfjármálin tel ég að hérna sé farin leið þar sem reynt er að ná tveimur markmiðum í senn, annars vegar að skera niður að lágmarki það sem þarf að gera, einfaldlega vegna þess að þjóðartekjurnar eru að dragast svo mikið saman sem ég nefndi hér áðan, í kringum 10%. Hins vegar er markmið að í þeim verkefnum þar sem menn ætla að verja fjármunum verði einblínt á þau verkefni sem kalla á mikinn mannafla, þ.e. að forgangsraðað verði í þágu mannaflafrekra framkvæmda. Þannig getum við notað þá fjármuni sem eru til ráðstöfunar til að tryggja eins mikla atvinnu og hægt er. Við verðum þó að gæta okkar á því að fara ekki í öfgarnar í hina áttina og sætta okkur við jafnvel 200 milljarða halla á ríkissjóði vegna þess að það er nákvæmlega það sem sömu menn tala um að við þurfum að forða okkur frá, þ.e. að ýta þessum vanda yfir á komandi (Forseti hringir.) kynslóðir.