136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[15:46]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Herra forseti. Það er mjög einkennilegt að vera komin inn í þingið sem nýjasti þingmaðurinn og fylgjast með vinnubrögðunum sem tengjast þessu stóra máli. Það er mjög einkennilegt, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefnir, hvernig málin hafa verið unnin hérna innan þingsins. Við fáum upplýsingar um það nánast í fjölmiðlum að þegar sé búið að leggja peningana frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum inn á bandarískan reikning hjá Seðlabankanum.

Það er bara búið að klára þetta, afgreiða málið. Ég hefði talið mun eðlilegri vinnubrögð að áður en forsætisráðuneytið og Seðlabankinn fóru í viðræður við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefði málið komið inn á borð þingsins og það verið rætt, í fyrsta lagi hvort almennt ætti að leita til sjóðsins. Síðan hefði viðkomandi fagnefnd á þinginu mótað það hvernig við vildum hafa þessa viljayfirlýsingu, hvernig við vildum hafa skilyrðin um það hvernig við vildum semja gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Alþingi mundi síðan gefa ríkisstjórninni umboð til að fara í þessar samningaviðræður við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Við förum í ræðustól, málið fer mjög hratt í gegnum utanríkismálanefnd, maður les í gegnum meirihlutaálitið þar sem kemur meira að segja mjög skýrt fram hjá meiri hluta nefndarinnar að hann viðurkennir alveg fúslega fljótaskriftina í lokaorðum sínum. Hérna segir að það sé mikil óvissa og menn viti ekki eiginlega hvað þeir eru að samþykkja. Það er nákvæmlega eins og kemur fram líka hjá minni hlutanum, við vitum hreinlega ekki hvað við erum að samþykkja.

Þegar ég sé svona stór mál fara í gegnum þingið vonast ég innilega eftir því að að breyting verði á vinnubrögðum. Við heyrum virkilega að almenningur kallar eftir því. Hann vill sjá breytt vinnubrögð. Hann vill sjá þingið koma miklu meira að málunum og að stefnan sé mótuð af löggjafarvaldinu en ekki framkvæmdarvaldinu. Það er það sem ég vil innilega hvetja þá menn sem hafa meiri reynslu hérna en ég til að íhuga, þ.e. hvernig við ætlum að breyta þessu í framtíðinni svo við vinnum þetta ekki svona áfram.