136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[15:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá meiri hluta utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál á þó nokkrum fundum og fengið til sín fulltrúa úr ráðuneytum og skilanefndum bankanna. Nefndin hefur viðað að sér gögnum og upplýsingum eins og hægt er. Sérstaklega hafa þau varðað samskipti íslenskra stjórnvalda við samninganefndir annarra ríkja, svo sem Hollandi og Bretlandi, en einnig gögn frá fundum fjármálaráðherra með Evrópusambandsríkjunum og EFTA-ríkjunum og önnur gögn sem fram koma á þingskjali 263. Þau snúast meira eða minna um lögfræðilegar greinargerðir vegna ágreinings um efnislegt innihald tilskipunar sem löggjöf okkar um Tryggingarsjóð innstæðueigenda byggir á.

Eins og oft hefur komið fram í umræðu um þessi mál snýst sú deila í grunninn um það hvort ríkissjóði beri að styðja við innstæðutryggingarsjóð þegar fjármögnun hans að lögum reynist ekki fullnægjandi vegna þeirra krafna sem að honum er beint.

Með þessari tillögu er leitað heimildar Alþingis ríkisstjórninni til handa til að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um.

Á fundum nefndarinnar kom fram að málið snýst nær einvörðungu um skuldir gamla Landsbanka Íslands vegna svokallaðra Icesave-reikninga. Talið er að ekki muni reyna á Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta vegna skulda gamla Kaupþings en formaður skilanefndar upplýsti að útlit væri fyrir að sala á eignum bankans gæti staðið undir öllum kröfum í gamla bankann vegna svokallaðra Kaupþing Edge reikninga sem voru innstæðureikningar Kaupþings. Þá var tekin til skoðunar starfsemi gamla Glitnis og fram kom að hún var með þeim hætti erlendis að afar ólíklegt er að reyni á tryggingarsjóðinn vegna hennar.

Nefndin kynnti sér eigna- og skuldastöðu gamla Landsbanka Íslands, væntanlegar kröfur tryggingarsjóðsins á hann og hvað mætti gera ráð fyrir að fengist upp í þær kröfur við sölu á eignum bankans. Mikil óvissa er enn um það virði sem fæst fyrir eignirnar en á grundvelli upplýsinga frá skilanefnd Landsbanka Íslands má áætla að um 150 milljarðar kr. geti staðið út af að því ferli loknu. Þessi niðurstaða er eins og áður segir háð mikilli óvissu. Sá möguleiki er því fyrir hendi að eignir Landsbankans dugi fyrir forgangskröfum þannig að ekkert falli á ríkissjóð.

Ég vil undirstrika þetta atriði úr nefndaráliti meiri hlutans, það er mikil óvissa um þetta. Verið er að reyna að leggja mat á virði eigna sem í bókum bankans voru skráðar á hartnær 2.000 milljarða en er gengið út frá í þessari áætlun að séu jafnvel ekki nema 1.000 milljarða virði. Töluvert mikil vikmörk eru í því mati og þess vegna er það niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að málið geti farið þannig að ekkert reyni á ríkissjóð hvað varðar fjármögnunarþörf innstæðutryggingarsjóðs. Þá er það auðvitað gefið í því samhengi að ríkissjóður hafi samþykkt að styðja við sjóðinn til þess að hann geti staðið undir og greitt þær kröfur sem að honum er beint.

Niðurstaða um þetta atriði ræðst fyrst og fremst af tvennu. Annars vegar af endanlegu virði eigna gamla Landsbankans, en talið er að hámarksverðmæti fáist fyrir þær með því að selja þær ekki að svo stöddu. Er gert ráð fyrir að eignirnar verði varðveittar í gamla Landsbankanum í u.þ.b. 3 ár. Hins vegar ræðst niðurstaðan af þeim samningum sem hér er leitað heimildar til að gera.

Eins og fram kemur í athugasemdum við tillöguna varðandi lagalega stöðu málsins hafa íslensk stjórnvöld byggt á því sjónarmiði að skýr lagaskylda væri ekki til staðar um ábyrgð íslenska ríkisins ef greiðslur til innlánseigenda færu fram úr því sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta gæti staðið undir. Nefndin hefur farið yfir þau lögfræðilegu álitaefni sem málið snýst um og ljóst er að önnur aðildarríki EES-samningsins eru ekki sammála skilningi íslenskra stjórnvalda um að óvissa ríki að þessu leyti. Hugmyndir um að úr þessu yrði skorið fyrir hlutlausum úrskurðaraðila eða dómstól hafa ekki náð fram að ganga í viðræðum aðila.

Ljóst er að miklir hagsmunir eru í húfi um niðurstöðu slíks máls fyrir báða aðila. Óhagstæð niðurstaða um skuldbindingu Íslands hefði alvarlegar afleiðingar fyrir ríkissjóð. Á hinn bóginn má leiða að því líkur að lagaleg óvissa um þetta atriði gæti vegið að fjárhagslegum stöðugleika og trúverðugleika þess lagaumhverfis sem fjármálafyrirtækjum sem starfa innan vébanda Evrópusambandsins hefur verið skapað. Þessu sjónarmiði hefur m.a. verið teflt fram af þeim aðilum. Hagur þess að lausn finnist við samningaviðræður er því ótvíræður. Þess má geta að á meðan ágreiningur aðila um þetta efni var óleystur var sú hætta fyrir hendi að Evrópusambandsríkin gripu til aðgerða gagnvart Íslandi sem settu EES-samninginn að hluta eða í heild í hættu.

Þarna snýst málið sem sagt um að það þarf ekki að liggja fyrir endanleg niðurstaða um slíkan ágreining. Einfaldlega sú staðreynd að deilt er um atriði sem fallast má á að skipti miklu fyrir framkvæmd EES-samningsins og sá ágreiningur hefur ekki verið settur í neinn farveg og er óleystur — sú staðreynd getur leitt til þess að Evrópusambandsríki fari fram á að tilteknum köflum eða viðaukum við EES-samninginn verði kippt úr sambandi að hluta eða í heild. Í þessu liggur m.a. áhættan með því að hafa málið í ágreiningi.

Þá var ljóst að Norðurlöndin voru sammála um að nauðsynlegt væri að Ísland semdi um lausn á þessu máli til að þau gætu séð sér fært að taka þátt í fjárhagslegri fyrirgreiðslu í tengslum við efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sama gilti um afstöðu annarra ríkja sem Ísland leitaði fyrirgreiðslu hjá.

Ég gerði það að umtalsefni í ræðu minni um þingsályktunartillögu vegna lánveitingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að þetta hefði auðvitað verið með öllu óviðunandi framkoma og gerði við hana alvarlegar athugasemdir. Engu að síður er vakin athygli á þessari stöðu hér í tengslum við þetta mál. Með vísan í allt sem ég hef rakið er það álit meiri hlutans að ljóst er að það þurfti að leita pólitískrar lausnar á vandamálinu.

Frumforsenda þess að leitað væri pólitískrar lausnar á málinu var að tryggt yrði að tekið yrði tillit til hinna erfiðu aðstæðna sem nú eru uppi á Íslandi. Þau umsömdu viðmið sem þingsályktunartillagan fjallar um fela í sér viðunandi forsendur fyrir lausn að áliti meiri hlutans. Ekki er fallið frá þeim lagarökum sem Ísland hefur sett fram en fallist á að leita samninga á grundvelli sameiginlegra viðmiða. Þau eru annars vegar að tilskipunin gildi með sama hætti hér á landi og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu og hins vegar að samningar um lausn taki mið af sérstakri og fordæmislausri stöðu Íslands. Hvorug þessara forsendna getur talist íþyngjandi fyrir Ísland eða íslenska hagsmuni. Í þessu sambandi var nefndin upplýst um þau meginsamningsmarkmið sem stjórnvöld hafa sett sér og fram kom að stöðu Íslands verði haldið á lofti í þeim viðræðum sem í hönd fara þannig að sem hagstæðust niðurstaða fáist fyrir Ísland. Leiði samningar ekki til ásættanlegrar niðurstöðu fyrir Ísland er það sjálfstætt úrlausnarefni hvernig stjórnvöld og Alþingi vinna úr þeirri stöðu en hin umsömdu viðmið fela ekki í sér að stjórnvöld afsali sér með einhverjum hætti lagalegri stöðu að þjóðarétti sem ríkið hefur í dag.

Ég ætla að láta nægja að vísa til fyrri umræðu um þetta mál þegar kemur að eiginlegum samningsmarkmiðum og læt sitja við það að þau meginsjónarmið sem komu fram í fyrri umræðu um þetta mál falla mjög vel að þeim samningsmarkmiðum sem kynnt voru fyrir nefndinni við meðferð málsins. Ekki þótti ástæða til þess, og jafnvel ekki skynsamlegt, að tíunda þau öll í nefndaráliti þannig að þau lægju opinberlega fyrir. Augljóslega er þó stefnt að því að þannig verði búið um hnútana að sem hagstæðust niðurstaða fáist fyrir okkur í öllu tilliti.

Meiri hlutinn lítur svo á að í samþykkt þessarar tillögu felist pólitískur stuðningur við stefnumörkun stjórnvalda í yfirstandandi samningum. Í tillögunni kemur fram að endanlegar niðurstöður samninganna sem munu nást í viðræðunum verði lagðar fyrir Alþingi til öflunar viðeigandi fjárheimilda eftir því sem aðstæður krefjast. Álit meiri hlutans er að þetta verði að sjálfsögðu gert í samræmi við stjórnskipulegar kröfur og eðli þeirra samninga sem nást. Þá hefur komið fram af hálfu utanríkisráðherra að utanríkismálanefnd verði upplýst um framgang samningaviðræðna eftir því sem þeim vindur fram, allt í samræmi við ákvæði 24. gr. þingskapalaga. Ég tel afar mikilvægt að áfram verði haft samráð við nefndina þannig að hún sé upplýst um framvindu mála.

Í meðferð nefndarinnar kom einnig til umræðu hvernig ríkissjóður muni standa undir skuldbindingum sem samningar, sem hér er óskað eftir heimild til að leiða til lykta, leggja á hann. Ákveðið var að ræða það atriði í samfellu við efnislega úrlausn á 161. máli, tillögu til þingsályktunar um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Sú umræða hefur að nokkru farið fram hér fyrr í dag.

Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið telur meiri hlutinn óhjákvæmilegt að ráðast í þá samningagerð sem tillagan gerir ráð fyrir og leggur til að hún verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálit meiri hlutans rita sá sem hér stendur, Árni Páll Árnason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Lúðvík Bergvinsson og Arnbjörg Sveinsdóttir.