136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[16:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við tökum málið fyrir eins og það er lagt fyrir þingið. Það er óskað heimildar til þess að leiða til lykta þessa samninga og þá var í nefndaráliti vísað til 161. máls um fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum varðandi tiltekna þætti. Ég get tekið undir að það er mjög mikilvægt að líta heildstætt á öll þessi mál, líta heildstætt á þær skuldbindingar sem við erum í þann mund að gangast undir vegna hruns bankakerfisins og þeirrar efnahagslegu uppbyggingar sem við þurfum að ráðast í. En það var í sjálfu sér ekki í valdi nefndarinnar vegna þessarar þingsályktunartillögu að búa þannig um hnútana. Það er auðvitað í verkahring ríkisstjórnarinnar. Við höfum í stjórnskipulagi okkar ákveðna verkaskiptingu sem gengur út á það að framkvæmdarvaldið leiðir til lykta mál af þessum toga og reiðir sig síðan við stuðning frá þinginu. Við erum hér með þingræðisreglu og við erum með fyrirkomulag sem gengur út á að ekkert gjald verði greitt úr ríkissjóði án lagaheimildar þannig að við munum á endanum fá öll slík mál til umfjöllunar í formi fjárlaga. Þetta er allt saman í góðu samræmi við hið eðlilega fyrirkomulag og verkaskiptingu sem við byggjum á.

Ég er ekki að segja þetta til að gera lítið úr mikilvægi þess að hafa heildaryfirsýn yfir málin. Við höfum reynt að gera það annars vegar við fyrirgreiðslubeiðnina hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og hins vegar með þessu máli. Að öðru leyti hvílir sú skylda auðvitað á stjórnvöldum og einkum þá hjá forsætisráðherra sem fer með yfirstjórn efnahagsmála að tryggja að slík heildaryfirsýn sé til staðar og samræming á öllum þeim aðgerðum sem gripið verður til.