136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[16:24]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var merkileg ræða. Hv. þm. Magnús Stefánsson tekur undir það sjónarmið breskra stjórnvalda að yfirlýsingar íslenskra stjórnmálamanna hafi í reynd réttlætt þá gjörð breskra stjórnvalda sem fólst í því að beita bresku hermdarverkalögunum.

Ég tel að þegar að því kemur að Íslendingar notfæri sér það, sem tekið er fram í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar, að stjórnvöld hyggist leita réttar síns, muni ummæli hv. þingmanns vera dregin upp. Hann styður í reynd það sem bresk stjórnvöld hafa sagt. Að íslenskir stjórnmálamenn og íslenska ríkisstjórnin hafi gefið í einhvers konar samtölum yfirlýsingar sem réttlæti þessa gjörð. Ég tel að ummæli af þessu tagi veiki stöðu Íslands stórlega.

Ég vil taka skýrt fram að ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að stórlega ámælisvert er og skaðar með sama hætti málstað Íslands þegar aðalbankastjóri Seðlabankans segir opinberlega að hann búi yfir upplýsingum sem staðfesti skoðun þingmannsins og breskra ráðamanna. Ég tel að yfirlýsing af því tagi sem seðlabankastjórinn hefur gefið út um þetta veiki sömuleiðis stöðu Íslands stórlega.

Mig langar til að geta þess að hv. þingmaður færði sem rök fyrir máli sínu að fundur milli viðskiptaráðherra og Alistairs Darlings hefði átt sér stað. Sömuleiðis vísaði hann í símtal hæstv. fjármálaráðherra og sama manns. Það símtal hefur verið birt opinberlega. Það kann að vera að dapurlegt hafi verið að það gerðist með þeim hætti. En hvað (Forseti hringir.) í því símtali gefur hv. þingmanni tilefni til að segja (Forseti hringir.) að hafi verið ámælisvert og skaðað stöðu Íslands?