136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[16:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar sem mér er skapi næst að kalla tillögu til þingsályktunar um uppgjöf í Icesave-reikningadeilunni því að um það er tillagan auðvitað. Áður hefur verið dregið fram í umræðum, bæði um þetta mál og næsta á undan, að það eru í sjálfu sér ekki ýkja merkileg gögn sem þinginu standa til boða við að afgreiða þessi gríðarlega afdrifaríku mál bæði tvö. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur í báðum tilvikum, við upphaf umræðunnar, vakið athygli á því og spurt hvort ekki sé einhver tilraun gerð til þess af einhverjum að öðlast heildaryfirsýn yfir málið. Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég sagði um það mál í umræðum um fyrra þingmálið en ég velti fyrir mér stöðu þeirra þingmanna sem ekki eiga sæti í utanríkismálanefnd og eiga að sjálfsögðu heimtingu á því að hafa upplýsingar og gögn í höndum til að glöggva sig á afstöðu sinni til málsins sem og auðvitað þjóðin ætti að hafa.

Ég get upplýst, af því að ég er hér með möppu nokkra á borðinu, virðulegur forseti, að í fórum okkar utanríkismálanefndarmanna eru vissulega allmikil gögn en þau eru að uppistöðu til merkt trúnaðarmál. Þetta eru fundargerðir frá viðræðufundum um þessi mál, þetta eru lögfræðilegar álitsgerðir og þetta eru ýmis fleiri gögn sem sannarlega væri fengur að fyrir þingmenn alla að hafa. Sum eru vissulega viðkvæm og geta orðið grunngögn undir samningaviðræðum og/eða í deilum eða málaferlum sem kunna að koma upp, en svona er þetta. Það er umhugsunarefni við þær aðstæður sem Alþingi eru skapaðar og almennum þingmönnum sem ekki eiga sæti í þeirri þingnefnd eða þeim þingnefndum sem slík gögn fá í trúnaði.

Hér er fundargerð að fundum fulltrúa Hollands og Íslands um Icesave-reikningana 10. október, trúnaðarmál; fundur með fulltrúum Breta vegna krafna í þrotabúi Landsbankans 11. október, trúnaðarmál; og frásögn af öðrum fundi með Bretum 23. og 24. október, trúnaðarmál. Hér er fundur fjármálaráðherra ESB og EFTA-ríkjanna 4. nóvember 2008, trúnaðarmál; fundur fastafulltrúa ESB með Íslandi vegna lagaálits í kjölfar ECOFIN 4. nóvember 2008, trúnaðarmál; minnisblað frá formennskulandinu, Frakklandi, um sama mál, bréf, trúnaðarmál, dagsett þessa sömu daga. Hér eru gögn frá fastanefnd Íslands í Brussel, dagsett 10. október, trúnaðarmál. Hér er embættiserindi frá sendiráði Íslands í Brussel til utanríkisráðuneytisins um þetta mál, trúnaðarmál. Hér er greinargerð með bakgrunnsupplýsingum um efnahag Íslands og stöðu þessu tengt, trúnaðarmál, og hér er „Internal Note“ eða innra minnisblað um tilskipunina, nr. 9419, og það er „strictly confidential“, það er sérstakt trúnaðarmál o.s.frv. Ég ætla ekki að tefja tímann, virðulegi forseti, en nánast öll gögn okkar, önnur en þau sem birtast með þingmálinu og eru þegar opinber af öðrum ástæðum, eru svona merkt.

Það er satt best að segja nokkurt umhugsunarefni að grunngögnum í máli af þessu tagi skuli vera haldið leyndum, að menn skuli sjá ástæðu til slíks. Ég öfunda í sjálfu sér ekki þá þingmenn sem hafa jafnvel að þessu leyti til enn erfiðari stöðu til að átta sig á málinu en við sem þó höfum komið höndum yfir þetta vegna setu okkar í utanríkismálanefnd.

Óhjákvæmilegt er að gagnrýna vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar í meðferð þessa máls, það hef ég þegar gert og ítarlega. Ég vil upplýsa hér að ég gerði það sem ég taldi mér fært, og allt sem mér kom í hug á sínum tíma, til að reyna að afstýra því að þessi samkomulagsyfirlýsing, eða hin sameiginlegu viðmið frá 18. nóvember sl., yrði undirrituð af ríkisstjórn Íslands. Ég hafði m.a. um það þau orð við hæstv. forsætisráðherra að ég teldi að ríkisstjórnin hefði ekki heimild til þess, um væri að ræða skuldbindingu af því tagi sem varðaði stóra milliríkjahagsmuni og ekki væri fært að gera þetta með þessum hætti og stilla þingi og þjóð síðan upp frammi fyrir því að íslensk stjórnvöld hefðu að einhverju leyti gefið eftir rétt þjóðarinnar í þessu afdrifaríka deilumáli án þess að fá að láta á það reyna fyrir dómstólum eða í einhverjum samþykktum úrskurðarfarvegi.

Þessi niðurstaða málsins var í hróplegri mótsögn við allan málflutning ráðherra ríkisstjórnarinnar allt þar til síðustu dagana áður en menn láku niður og gáfust upp. Þá var sagt, og höfð um það stór orð, að ekki kæmi til greina að láta kúga okkur á nokkurn hátt í þessu máli til að láta reyna á rétt okkar og fá það á hreint hver okkar raunverulega lagalega og þjóðréttarlega ábyrgð væri í þessu sambandi. Því var alfarið hafnað að það yrði liðið að þetta mál yrði tengt við umsóknina til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Engu að síður var það gert, það liggur fyrir skjalfest, því reynir enginn að neita lengur.

Um hinn lengri tíma aðdraganda þessa máls mætti margt segja og frammistöðu íslenskra stjórnvalda, ríkisstjórnar og einstakra ráðherra og fagstofnana, Fjármálaeftirlits og Seðlabanka, sem og auðvitað bankanna sem hér eiga í hlut á umliðnum missirum. Tíminn leyfir ekki að fara djúpt ofan í það mál enda þarf þess í sjálfu sér ekki, málið er ósköp einfalt. Það liggur algjörlega fyrir að ríkisstjórn landsins, bæði núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnir, einstakir viðkomandi ráðherrar, og þá sérstaklega forsætisráðherra, viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra, og Fjármálaeftirlit og Seðlabanki bera mikla ábyrgð á því hvernig komið er með vítaverðu andvara- og aðgerðaleysi, svo ekki sé beinlínis sagt vanrækslu, samanber lög um ráðherraábyrgð á embættisskyldum — sú vanræksla hefur valdið íslensku þjóðinni miklum skaða.

Því miður er væntanlega engin önnur leið út úr þessu en sú að á Íslandi lenda miklar byrðar vegna þessa óláns sem þarna átti sér stað. Ekki er nein sérstök vörn fólgin í því að menn hafi gert þetta allt í góðri trú og þetta hafi allt litið vel út, menn hafi ekki vitað betur eða mátt vita betur því að veruleikinn er annar, það liggur núna alveg fyrir. Þó að mönnum hafi tekist að vera með svo bundið fyrir augu og vera svo gjörsamlega skeytingarlausir um málefni ráðuneyta sinna að þeir áttuðu sig ekki á því sem þarna var að gerast, þá er það ekki heldur afsökun. Ráðherrum ber að fylgjast með og yfirmönnum æðstu stofnana ber að fylgjast með og þeir geta ekkert afsakað sig eftir á með því að segja: Ja, ég vissi þetta ekki. Það er embættisskylda þeirra að vita hvað fer fram. Þegar jafngríðarlegar fjárhæðir hrúgast inn á þessa reikninga og tók að gerast er það ekkert annað en vanræksla — það er eiginlega of milt að nota orðin andvara- og aðgerðaleysi — að sjá ekki að þarna stefnir í stórhættulega stöðu. Ábyrgðin er því kollektíf, hún er sameiginleg, hún er ríkisstjórna, ráðherra og yfirmanna þeirra stofnana sem sváfu á verðinum.

Hin umsömdu viðmið eru mjög undir í málinu og eru í fylgiskjali með þingsályktunartillögunni sem skrifað var undir 16. nóvember — sendiherra okkar í Brussel fékk víst það öfundsverða hlutskipti að skrifa undir uppgjöfina. Þau viðmið virðast, að því er næst verður komist, fela það í sér að Ísland afsali sér réttinum til — ekki kannski endanlega en í öllu falli á meðan ferlið er í gangi á þessum grunni — að láta reyna á hina lagalegu óvissu, þ.e. spurninguna um það hversu umfangsmikil eða víðtæk hin lagalega og þjóðréttarlega ábyrgð Íslands á innlánstryggingakerfinu er.

Spurningin er auðvitað ósköp einfaldlega um það hvort Ísland hafi ekki gert skyldu sína og fullnægt ákvæðum tilskipunar um innstæðutryggingu, nr. 9919/EB, með því að setja á fót innlánstryggingarsjóð samkvæmt ákvæðunum og greiða til hans 1% af hinum tryggðu innstæðum og gera þetta á þann hátt að aldrei bárust við það, svo mér sé kunnugt um, neinar athugasemdir frá eftirlitsaðilum sem eiga að fylgjast með því að löggjöf sé í samræmi við ákvæði Evrópuréttarins að þessu leyti og að tilskipanir hafi verið innleiddar með lögmætum og réttum hætti. Ég hef hvergi séð eða heyrt að nokkurn tíma hafi borist athugasemd við það að þetta fyrirkomulag innlánstryggingamála væri ekki fullnægjandi af okkar hálfu.

Það munar ekkert litlu á kannski 19 milljörðum kr. — og þó að það væri eitthvað aðeins meira, sem sjóðurinn hefði átt að standa í — og 630–640 milljörðum. Það er meira en bitamunur, hvort þetta eru óverulegar fjárhæðir, getum við sagt, þó að umtalsverðar séu í skilningi fjárlaga, eða hvort þetta er talsvert á önnur fjárlög íslenska ríkisins eins og þau eru um þessar mundir. Óvissan er mikil um það hvað getur átt eftir að lenda á Íslandi í þessum efnum. Ég óttast að menn séu að reyna að fegra myndina og það held ég að sé ekki heiðarlegt. Menn tala hér um það, jafnvel eins og formaður utanríkismálanefndar, að vel geti farið svo að ekkert lendi á íslenska ríkinu. Hvers vegna gerir þá Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ráð fyrir því, í sjálfbærnismati sínu á greiðslugetu Íslands næstu árin, að helmingurinn af reikningnum lendi á Íslandi? Það er skýrt í forsendum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að þeir reikna með því að helmingurinn lendi þarna á okkur, sem sagt á fjórða hundrað milljarða kr. Verulegar ástæður eru til að hafa af því áhyggjur þegar betur er skoðað hvað þarna liggur á bak við vegna þess að 630–640 milljarða kr. upphæðin, þetta er miðað við gengi á evru og pundi eins og það hefur verið að undanförnu, er auðvitað aðeins hluti málsins, dæmið er stærra. Á innlánsreikningunum í heild sinni, á Icesave-reikningunum í heild sinni, að meðtöldum heildsöluinnlánum, voru á 14. hundrað milljarðar kr. Að frátöldum heildsöluinnlánunum er það hátt í 1.200 milljarðar. Þær kröfur eru allar jafnstilltar þó að ákvæði neyðarlaganna haldi.

Þá er spurningin: Hverjar eru eignirnar? Jú, þær eru taldar vera kannski 1.700 milljarðar rúmir. Áætlað er að út úr þeim gæti fengist milljarður plús/mínus 25%. Það er besta áætlun þeirra sem um þetta véla núna, einkum skilanefnda bankanna. Þá er þetta nú enginn smáreikningur sem þarna er og ekkert smáræði sem munar eftir því hvernig til tekst. Meiningin er sú, alla vega er það greinilega ætlun gagnaðila okkar, Breta, Hollendinga og Þjóðverja, að lána íslenska innlánstryggingarsjóðnum fyrir þessum upphæðum í heild sinni, brúttó, og þeim lánum verða menn væntanlega að taka við strax því að greiða á innstæðurnar út. En síðan á ekki að ráðstafa eignunum, að því er nú er sagt, fyrr en kannski eftir þrjú ár. Hvað gerist á meðan? Allur reikningurinn hvílir á okkar herðum með þeirri greiðslubyrði eða þeim vaxtakostnaði sem á honum verður eftir því hvernig um semst. Menn geta auðvitað komið hér og sagt: Við ætlum að ná svo góðum samningum, við ætlum að fá vaxtalaus lán, við ætlum að fá afborgunarlaus lán í mörg ár, en það er nú ekki í hendi eða hitt þó heldur.

Miðað við upplýsingar eða vísbendingar sem gaukað var að mér áðan þá var ekkert sérstaklega létt fyrir fundinum í gær og fyrradag með Bretum og ekki útlit fyrir að við ættum þar mjög góðu að mæta, enda höfum við mætt mjög góðu? Hefur okkur verið sýnd sanngirni? Er ástæða til að ætla að „innréttingin“ í þeim snúist við allt í einu og þeir verði voðalega góðir og sanngjarnir, mennirnir sem hafa beitt okkur þeim þvingunarkostum sem raun ber vitni? Því að auðvitað eru það ekkert annað en ofboðslegir afarkostir og nauðungarkostir sem ríkisstjórnin gekkst inn á að samþykkja.

Í 2. tölulið samkomulagsins eða hinum umsömdu viðmiðum sem birt er sem fylgiskjal með tillögunni er talað um að viðurkenning aðila, þ.e. deiluaðilanna, á hinni lagalegu stöðu muni greiða fyrir samningaviðræðum um fjárhagsaðstoð við Ísland, þar með talið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það þarf því ekki að þrátta um það meir hvernig þetta var tengt saman. Ég ætla að leyfa mér að segja, þótt bundinn trúnaði sé, að það leynist engum sem les fundargerðirnar af þessum fundum hvernig framkoman var í okkar garð, t.d. á fjármálaráðherrafundi EFTA og ESB-ríkjanna í Brussel. Þar var ekkert verið að dulbúa það að við skyldum gjöra svo vel og gefast upp í Icesave-deilunni og semja við þá áður en lánið hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum færi hænufet, það er bara þannig, og svo á að semja um þetta allt í voðalegum góðum anda. Í þessu felst að Ísland fellst í reynd á að landið sé ábyrgt fyrir innlánstryggingu í útibúum íslenskra banka erlendis upp að 20.887 evrum. Svo á að snakka um þetta allt í voðalegu góðu á eftir.

Það er mat mitt að með því að undirrita þetta samkomulag, þessi umsömdu viðmið, hafi menn stórskaðað og nánast gert að engu samningsstöðu Íslands sem þó var uppi í málinu. Mér liggur við að segja að ég hafi grátbeðið ríkisstjórnina, forsætisráðherra og utanríkisráðherra um að gera þetta ekki vegna þess að við höfðum samningsstöðu þangað til skrifað var undir. Í hverju var sú samningsstaða fólgin? Hún var fólgin í því að Evrópusambandinu reið mikið á að engin óvissa skapaðist um innlánstryggingarkerfið á öllu evrópska svæðinu. Við gátum sagt við þá: Við höfum skilning á því vandamáli, við skiljum það, en þá verðið þið að hafa skilning á okkar vandamálum og leysa það á sanngjarnan hátt. En með því að gefa eftir og láta Evrópusambandið fá allt sem það bað um, að við féllumst á að það væri engin lagaleg óvissa eða við mundum að minnsta kosti aldrei láta á hana reyna, hvarf samningsstaða okkar út í vindinn. Það mikið þykist ég kunna á þessa hluti að þarna var hrapað að hlutunum í óskaplegu óðagoti og taugaveiklun af því að mönnum lá svo á að koma umsókninni til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins áfram. Það er dýrt, það er skelfilega dýrt að þannig skyldi fara. Að sjálfsögðu var málið komið í hið mesta óefni. Að sjálfsögðu vorum við beitt miklum fantaskap af þeirri blokk sem myndaðist innan Evrópusambandsins og í raun síðan að lokum af Evrópusambandinu í heild.

Hvað heitir það á lagamáli þegar svoleiðis samningar eru gerðir þó að það sé ekki undir byssukjöftum beinlínis? Það eru nauðungargerningar. Það eru væntanlega riftanlegir, ógildanlegir nauðungargerningar sem gerðir eru við aðstæður af þessu tagi og er þekkt fyrirbæri, bæði í landsrétti og þjóðarétti, að samningar sem gerðir eru þar sem annar aðilinn er settur í slíkar aðstæður halda ekki eða þurfa ekki að standa vegna þess að það er ekki þannig sem siðað fólk semur, að annar aðilinn sé með byssu í hnakkanum eða eitthvað viðlíka í formi hótana um efnahagsþvinganir o.s.frv.

Þá kem ég að því sem formaður utanríkismálanefndar nefndi hér í ræðu sinni og er ekkert leyndarmál lengur, að því hafi verið hótað að setja EES-samninginn eða að minnsta kosti hluta hans í uppnám ef við gæfumst ekki upp. Þetta er að mínu mati viðbótarþvingun vegna þess að hún er ólögmæt. Það er ekki þannig að samningsaðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið geti hegðað sér hvernig sem er ef upp koma deilur. Samningurinn sjálfur felur í sér farveg til úrlausnar deilumála. Ætlar þá gagnaðili okkar að láta eins og hann sé ekki til og grípa til einhliða aðgerða án þess ferlis sem á að fara í gang samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið ef þar koma upp deilur? Hótunin var um það. Hefði verið staðið við það? Hvers konar lögleysa væri þá upp komin? Ég held að við eigum ekki að láta bjóða okkur hvað sem er án þess að minnsta kosti að nota lögin og vitna í þau og beita þeim og benda á að það eigi þá að brjóta á okkur lög í ofanálag við allt annað. Því hótunin um þetta var ekkert annað en hótun um að brjóta samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sem hefur lagastoð í öllum ríkjunum eins og kunnugt er.

Það sem er kannski dapurlegast af öllu í þessu og ég áttaði mig ekki á fyrr en einum eða tveimur dögum eftir að undirritað var, 18. nóvember, er að frystingin samkvæmt hryðjuverkalögum á eignum Landsbankans í Bretlandi stendur enn. Hvernig í ósköpunum stóð á því að samningamenn Íslands skyldu skrifa undir eða ríkisstjórnin skipa þeim að gera það nema að gera það að algerlega fortakslausri kröfu að frystingunni yrði þá aflétt? Hvað vakir fyrir Bretum með því að halda frystingunni? Hafa menn hugsað það? Gæti það átt eftir að tengjast uppgjöri þessara mála? Haldleggja Bretar ef til vill enn þá eignir Landsbankans í Bretlandi með það í huga að nota eitthvað af þeim í að gera upp reikningana ofan við 20.887 evrur sem þeir eru ábyrgir fyrir upp að 50 þús. pundum? Eða ætla þeir að nota þetta í einhverjum öðrum skilningi umfram það sem þarna gæti átt í hlut?

Það er von að spurt sé hvers vegna frammistaðan er þessi. Og ég spyr formann utanríkismálanefndar: Er honum kunnugt um að það bóli á því að Bretar aflétti frystingunni? Vill Alþingi kannski vita af því áður en það samþykkir umboðið? Menn fá að vísu kost á því að afgreiða breytingartillögu á eftir verði frávísun ekki samþykkt sem tekur á því máli en ég er svo sem ekkert bjartsýnn á að hún fái stuðning frekar en annað, af því að mönnum virðist vera kappsmál að koma þessu í gegn og hafa eðlilega kannski ekki mikinn áhuga á að ræða þetta lengi eða draga að þessu máli mikla athygli jafnsnautlegt og það er fyrir íslensk stjórnvöld.

Loks getur það skipt miklu þegar kemur að uppgjöri þessara mála hvort ákvæði neyðarlaganna um forgang innstæðna í kröfuröð halda. Það er algerlega ljóst að á það mun reyna. Það gjörbreytir öllu reikningsdæminu ef allar kröfur verða jafnsettar og þessi milljarður plús/mínus 25% sem mögulega kæmi út úr þessum eignum eftir kannski þrjú ár smyrst jafnt út á allt eða hvort hann gengur upp í þessa 1.100–1.200 milljarða sem eru vegna innstæðna á Icesave-reikningunum að frátöldum heildsöluinnlánum. Það munar um minna hvort menn deila þeim upp í 1.200 millj. eða 3.300–3.600 en það er stærðin á heildarpakkanum.

Óvissan um hvað verið er að afgreiða hér, hvers konar heimild ríkisstjórnin er að fá til samninga er með endemum. Ég get ekki annað en tekið hjartanlega undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal, ég held að maður hafi sjaldan ef nokkurn tímann á sínum ferli staðið frammi fyrir öðru eins framsali af hálfu þingsins til framkvæmdarvaldsins og hefur maður þó marga fjöruna sopið. Þetta er alveg rosalegt.

Ég öfunda ekki þá ágætu samningamenn, tvö til fjögur ofurmenni sem senda á í það verkefni fyrir okkur að reyna að bjarga þarna þjóðarhagsmunum þegar í húfi eru hundruð og aftur hundruð milljarða, hvernig til tekst. Það er ekki lítil ábyrgð lögð á herðar þeirra, ég held að það sé eins gott að bakka þá upp. Það er því miður ekki gert með þessu og það er enginn efi í mínum huga að langvænlegast er að vísa málinu frá og senda þar með gagnaðilum okkar þau skilaboð að þjóðþingið fallist ekki á þetta svona og framkvæmdarvaldið verði að gjöra svo vel og mæta til leiks með það ósköp einfaldlega að það hafi ekki fengist heimild á löggjafarsamkomunni fyrir því að leiða málið til lykta á þessum forsendum. Það sé einfaldlega allt of mikil hætta á því að út úr því komi nánast óviðráðanlegar byrðar fyrir íslenskan þjóðarhag á komandi árum og það getum við ekki undirgengist.

Það er því meira en til mikils mælst að ríkisstjórnin skuli ætlast til þess að Alþingi fái henni galopið samningsumboð til að leiða þetta mál til lykta í ljósi þessara gríðarlegu skuldbindinga til framtíðar fyrir íslenska ríkið og íslenskan almenning, skattgreiðendur í landinu, svo nemi fleiri hundruðum milljarða kr. á ársgrundvelli.

Ég ætla ekki að vera með hrakspár eða hræða menn í sjálfu sér út frá því, og lengi vill maður vona hið besta, en eitthvað segir mér að það sé ákaflega mikil hætta á því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gæti á endanum farið nærri lagi að kannski lenti helmingurinn eða svo af þessum reikningi á okkur. Bjartsýnar vonir um að það verði ekki nema fjórðungur eða þriðjungur eru ekki studdar miklum gögnum þegar betur er að gáð. Fáist ekki mjög hagstæð lán, vaxtalaus, þá byrja vextir af 640 milljörðum kr. að tikka strax á næsta ári og gera svo þangað til að reikningurinn fer að lækka með þeim eignum sem koma út úr búunum sem nú er upplýst að vænlegast sé að reyna að hanga á í kannski þrjú, fjögur, fimm ár til að þær verði að einhverjum verðmætum, því að ef þær væru losaðar núna færu þær á brunaútsölu.

Auðvitað hef ég velt því mikið fyrir mér af hverju ekki var hægt að reyna að koma málinu í þann farveg að segja við Breta: Hér eru þessar eignir í Bretlandi, hjálpið okkur að gera mat úr þeim og þá fáið þið þetta, þá munið þið njóta góðs af því á móti okkur upp í þennan reikning. Þeir ættu þannig hagsmuna að gæta í því að passa upp á að gera úr þeim verðmæti. Gallinn við undirritun þessa er m.a. sá að þrýstingurinn fer af, af því að ábyrgðin á því að borga er á endanum orðin Íslands en ekki hinna. Þannig að þeir geta látið sér í léttara rúmi liggja en ella hvað verður um þessar eignir.

Þar með er það svo, virðulegi forseti, að 2. minni hluti utanríkismálanefndar leggur til að ríkisstjórninni verði falið að taka upp samningaviðræður við deiluaðilana að nýju á hreinu borði og leita eftir og sækja fast á um lögformlegan úrskurðarfarveg í deilumálinu og/eða samningsniðurstöðu á sanngjörnum forsendum. Í ljósi þessa leggur 2. minni hluti til að tillögunni verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá, með leyfi forseta:

„Með vísan til rökstuðnings hér að framan leggur 2. minni hluti til að Alþingi ákveði að aðhafast ekki frekar í málinu að svo stöddu og feli ríkisstjórninni að taka upp viðræður á nýjan leik og að málinu verði vísað frá og tekið fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þá fær ríkisstjórnin einfaldlega það verkefni eða framkvæmdarvaldið hvort sem það verður að fara í málið á nýjan leik á hreinu borði. Það er niðurstaða sem aðrir hljóta að skilja. Annað eins hefur gerst í samskiptum þjóða að þjóðþing taki völdin sem það á að hafa, ekki satt? og geri það sem það telur réttast að gera í svona stöðu. Það er auðvitað mjög fáheyrt á Íslandi því að hér er hlýðnin mikil eins og við sjáum og heyrum, m.a. í umræðunum í dag. En það má fjandakornið ekki fara að líta svo á að það sé lögmál að það sé alltaf formsatriði að leggja hluti fyrir þingið og að fyrirvari um samþykki Alþingis sé alltaf formsatriði, að það komi aldrei til greina að Alþingi komist að annarri niðurstöðu en framkvæmdarvaldið hefur gert í taugaveiklun á örfáum sólarhringum og einhverri ímyndaðri nauðvörn.

Verði ekki tillaga um rökstudda dagskrá samþykkt þá mun koma til atkvæða varatillaga 2. minni hluta sem felur í sér skilyrta gildistöku samningsumboðsins til ríkisstjórnarinnar og þá þannig að samningsumboð íslenskra stjórnvalda til að ganga til viðræðna um lausn deilunnar á grundvelli hinna umsömdu viðmiða stofnist ekki fyrr en Bretar hafa aflétt frystingu á eignum Landsbankans í Bretlandi á grundvelli hryðjuverkalaga, og málin hafa þá væntanlega líka skýrst hvað varðar verðmæti þeirra eigna sem til ráðstöfunar eru og fleira í þeim dúr. Það fyndist mér algerlega svartasta lágmark að Alþingi þó gerði. Eða ætlum við virkilega að gera þetta þannig að fallast bara á þetta samningsumboð og kyngja því að við sætum enn hryðjuverkalögum af hálfu breskra stjórnvalda? Gæti ég margt sagt um það mál, ekki fáfengilega þrætu um það hverjum er um að kenna og hver sagði hvað og hvers vegna Bretar gerðu þetta, ég tel nær að kalla það þá skýringar á því, þ.e. einhverjar málsástæður Breta sem auðvitað eru engin rök fyrir. Þetta er óréttlætanlegur gerningur hvernig sem á hann er litið, algerlega fáheyrður og einsdæmi í samskiptum þjóða af þessu tagi. Það hefur aldrei gerst að t.d. eitt aðildarríkja Evrópuráðsins beiti annað aðildarríki Evrópuráðsins fantatökum af þessu tagi. (Iðnrh.: Það finnst ekki Evrópuráðsþingmanninum Siv Friðleifsdóttur.) Það hefur aldrei gerst, ég gef þá bara ekkert fyrir það. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé fáheyrt og ég hef reynt að koma þessu máli m.a. þar á dagskrá og það hefur fengið góðar undirtektir að þetta sé náttúrlega slík uppákoma í samskiptum siðaðra þjóða innan Evrópuráðsins að það sé óumflýjanlegt að fara ofan í saumana á því. Þessu verður auðvitað að breyta. Það má aldrei aftur gerast að ein þjóð stimpli aðra með þessum hætti, með því að blanda saman í lögum hreinum vörnum gegn hryðjuverkum og einhverjum heimildum til að grípa inn í efnahagslegar varnir og nota þær við algerlega óskyld tilvik gagnvart aðila og gagnvart landi sem aldrei hefur haft neitt og mun vonandi aldrei hafa neitt með hryðjuverk að gera. Þetta er ekki hægt.

Manni svíður það mjög að mál skuli hafa þróast þannig að stjórnvöld okkar hafi gefist upp í málinu með þessi hryðjuverkalög enn í gildi og það væru algjör lágmarksskilaboð frá Alþingi að samningsumboðið stofnaðist ekki fyrr en Bretar hefðu gjört svo vel og aflétt frystingunni á grundvelli hryðjuverkalaga og auðvitað ættu þeir að biðjast afsökunar á því í leiðinni að gera það sem þeir gerðu, það gríðarlega tjón og þann skaða sem þeir ollu okkur.

Vonandi gefast menn ekki upp á því að leita réttar síns í því máli sérstaklega sem og að Kaupþing leiti réttar síns gagnvart því hvernig það var knésett í Bretlandi. Ég held að þau málaferli séu mikilvæg, ekki aðeins til að fá fram niðurstöðuna heldur líka vegna þess að í gegnum þau fáum við færi á að rétta okkar hlut, koma sjónarmiðum okkar á framfæri. Það sem við höfum þörf fyrir að gera núna alls staðar þar sem við getum er að koma upplýsingum á framfæri um þessi mál. Það er ekki erfitt að fá fólk til að skilja sjónarmið okkar þegar það rennur upp fyrir mönnum hversu fáheyrður þessi fantaskapur í raun og veru var.

Virðulegi forseti. Við getum ekki stutt þennan gerning, ekki á nokkurn hátt eins og til hans er stofnað og innihald hans er, og verði þar af leiðandi ekki fallist á að vísa honum frá eða að lágmarki að samþykkja (Forseti hringir.) breytingartillögu okkar um skilyrta gildistöku þá munum við greiða atkvæði gegn málinu.