136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:02]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði í máli hv. þingmanns sem vekja spurningar og ekki gefst þó tími til að ræða í stuttu andsvari. Á eitt vildi ég þó sérstaklega benda. Það er hinn sérkennilegi skilningur sem hv. þingmaður virðist hafa á eðli samningaviðræðna við önnur ríki þegar hann átelur þau ummæli hæstv. forsætisráðherra og hæstv. starfandi utanríkisráðherra, hæstv. iðnaðarráðherra, að ekki verði fallist á kröfur Breta og Hollendinga opinberlega og önnur opinber ummæli þeirra þar sem þeir tala fyrir hagsmunum þjóðarinnar. Hvað í ósköpunum áttu þeir að segja í miðju samningaferlinu? Að það kæmi vel til greina að fallast á kröfurnar? Áttu þeir að segja að það kæmi vel til greina að tengja saman Icesave og málefni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Auðvitað ekki. Í miðju samningaferli tala ráðherrar auðvitað með þeim hætti að þeir gera sér grein fyrir því að á þá er hlustað í útlöndum og þeir reyna að halda lágmarkssamkvæmni á milli málflutnings hér heima og erlendis öfugt við það sem hv. þingmaður Steingrímur J. Sigfússon hefur stundum gert. Það er þessi grundvallar ... (Gripið fram í.) ja, t.d. ummæli og hinar sérkennilegu Noregsferðir hv. þingmanns þar sem er ekki mikið samræmi á milli þess sem hann segir okkur á þingi um viðbrögð Norðmanna og svo þess sem við sjáum í Noregi af viðbrögðum norskra stjórnvalda. (Gripið fram í.) Það er algerlega ljóst að ráðherrar sem eru í miðju samningaferli tala auðvitað fyrir þeim kröfum sem verið er að setja fram. Annað væru stórfelld afglöp af þeirra hendi.