136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:26]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum nú felur í sér að Alþingi vísi veginn fram á við um hvernig við nálgumst lausn á hinni svokölluðu Icesave-deilu. Hér er um flókið og erfitt mál að ræða þegar við stöndum frammi fyrir því að þurfa að taka á innstæðutryggingum vegna útibúa íslenskra banka í öðrum löndum sem þeir hafa stofnað til og þegar skuldbindingarnar eru umfram það sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda hér á landi getur ráðið við að greiða.

Í reglukerfi Evrópusambandsins sem við erum aðilar að að þessu leyti er ákvörðun um að opna útibú í öðru landi ámóta einföld og að opna útibú innan lands. Það er því ekki á valdi Fjármálaeftirlits hér á landi að meina íslenskum bönkum að opna útibú erlendis nema þeir hafi beinlínis ekki greiðslugetu eða ekki efnahagslega burði til þess með sama hætti og ef þeir ætluðu sér að opna útibú á Patreksfirði og hefðu ekki til þess burði.

Við þessar aðstæður skapast auðvitað skuldbindingar á Tryggingarsjóð innstæðueigenda. Það er úrlausnarefni í þeirri rannsókn sem fram undan er að kanna til hlítar tildrög þessa hruns alls og þá líka með hvaða hætti við hefðum mögulega getað gripið inn í þessa þróun fyrr. Ég hef sagt það áður og segi það enn að ekki verði tekin hin rekstrarlega ábyrgð af forstjórum og forsvarsmönnum Landsbankans sem réðust í þessa útrás. Það er þeirra ákvörðun að safna þessum skuldbindingum erlendis og það er þeirra ákvörðun að auka mjög á umfang þessara skuldbindinga eftir að þeim var gert viðvart af hálfu íslenska fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið vildi að þeir drægju úr þessum skuldbindingum og kæmu þeim fyrir í dótturfélagi erlendis þannig að Tryggingarsjóður innstæðueigenda hér á landi stæði ekki til ábyrgðar af skuldbindingunum. Það er með öðrum orðum ábyrgð stjórnenda Landsbankans að ganga fram með þessum hætti. Ábyrgðin verður ekki af þeim tekin eða henni létt af þeim og fyrir hana verða þeir auðvitað að svara. Þar liggur stærsta ábyrgðin í þessu máli. Það er virkilegt vafamál þegar horft er til baka hvort heilbrigðar forsendur voru fyrir þessari þenslu í opnun innlánsreikninga, þessum gríðargóðu kjörum sem Landsbankinn bauð eða hvort menn voru þar einungis að fresta óumflýjanlegu hruni bankans. Það verður framtíðarrannsókn að skera úr um og óþarfi er að staldra við það mikið meira hér og nú.

Því hefur verið stillt upp í umræðunni að um einfalt lögfræðilegt úrlausnarefni sé að ræða í Icesave-málinu og hægt sé með einhverjum einföldum lögfræðirökum að finna lausn á því máli, það sé frekar skýrt að íslensk stjórnvöld þurfi ekki að axla bakábyrgð vegna innstæðutrygginga sem eru umfram það sem er í Tryggingarsjóði innstæðueiganda.

Ég vil í þessu sambandi benda sérstaklega á ágæta grein í Fréttablaðinu í dag eftir Helga Áss Grétarsson lögfræðing þar sem hann fjallar um báðar hliðar Icesave vegna þess að við höfum haft tilhneigingu til þess í umræðu undanfarinna vikna að gera heldur mikið úr okkar málstað og heldur lítið úr öðrum sjónarmiðum sem máli skipta. Það er gríðarlega erfitt að finna því ótvíræðan lögfræðilegan stað að Ísland beri ekki þessa ábyrgð. Það er vissulega sjónarmið sem má halda fram um að tilskipunin leggi ekki ótvíræðar skyldur á hendur íslenskum stjórnvöldum að þessu leyti en á hinn bóginn er ljóst að með tilskipuninni er sett á fót heildstætt innstæðutryggingarkerfi í öllum EES-ríkjum. Grundvallarforsenda þess að það virki er sú að almenningur geti reitt sig á að innlánseigendur fái þessar 20.887 evrur alveg óháð öllu öðru. Ef ríki ætlar að komast undan því að bera þessa ábyrgð gagnvart innlánseigendum í öðrum ríkjum á grundvelli þess að sett hafi verið á fót innlánstryggingakerfi en peningarnir dugi einfaldlega ekki til, kollvarpar sú einfalda staðreynd kerfinu. Það er þessi vandi sem veldur því að það er alls ekki hægt að segja að það sé lögfræðilega einhlítt að íslensk stjórnvöld beri ekki ábyrgð á þeim skuldbindingum sem risið hafa vegna starfsemi íslensku bankanna erlendis. Það var auðvitað íslenskra stjórnvalda að endurmeta þörfina fyrir framlög í innstæðutryggingarsjóðinn eftir því sem skuldbindingunum óx fiskur um hrygg og var þá eftir atvikum ástæða fyrir Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka að taka harðar á málum. Seðlabankinn gekk í hina áttina með því að afnema bindiskyldu á útibúum jafnvel á þessu ári.

Lögfræðileg staða í þessu máli er ekki einhlít og það er ekki svo að hægt sé með einhverri vissu að staðhæfa að íslensk stjórnvöld þurfi ekki að axla þessa ábyrgð, þvert á móti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kallaði eftir því í máli sínu áðan að íslensk stjórnvöld hefðu átt að haga sér með þeim hætti í samningaviðræðunum að fá önnur ríki til að taka á byrðunum með okkur í ljósi þess að það varðar þau auðvitað miklu að ekki komi upp óvissa um gildi innstæðutryggingarkerfisins í heild. Í krafti þeirrar staðreyndar ættum við að hafa sagt við viðsemjendur okkar: Þið skuluð þá koma að málinu með okkur og leysa það með okkur. En hv. þingmaður horfir fram hjá því að það er nákvæmlega það sem gert hefur verið af hálfu íslenskra stjórnvalda í þessum samningi og að þau umsömdu viðmið sem hér liggja fyrir þinginu til staðfestingar fela nákvæmlega ekkert annað í sér en það. Forsendan fyrir frekari samningaviðræðum er tvíþætt: Annars vegar að Ísland viðurkenni það sem augljóslega er þjóðréttarskylda okkar sem er að tryggja að innstæðutryggingarkerfið virki hér eins og í öðrum ríkjum Evrópusambandsins og hins vegar að ríki komi að málum með okkur og taki á því með okkur í ljósi sérstakrar og fordæmislausrar stöðu að finna lausn á þessu máli. Það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var að kalla eftir er nákvæmlega það sem er búið að gera, þ.e. fá viðsemjendur okkar að borðinu til að vinna með okkur að lausn til að verja hag allra. Hins vegar er það alveg ljóst að bakábyrgðin á þessu máli og á lúkningu skuldbindinganna fellur samkvæmt þessum skilningi á íslenska ríkið. Íslenska ríkið þarf svo að gangast í ábyrgð en fær á móti aðgang að þeim eignum sem geta staðið til lúkningar kröfunni.

Það gætir líka nokkurs misskilnings hvað annað hefði verið hægt að gera í þessari stöðu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að ræða það opinskátt vegna þess að hér hefur verið látið að því liggja í umræðunni að með þessum umsömdu viðmiðum hafi íslensk stjórnvöld að einhverju leyti afsalað réttarstöðu Íslands sem það hefur haft. Svo er ekki, Ísland hefur ekki fallist á með neinum hætti að það geti ekki við aðrar aðstæður borið fyrir sig lögfræðisjónarmið um takmarkaða ábyrgð á innstæðutryggingum sem íslensk stjórnvöld hafa þegar sett fram, alls ekki. Það sem maður horfðist einfaldlega í augu við var sá sameiginlegi skilningur annarra Evrópusambandsríkja og EES-ríkja, þar með talið Noregs, bestu vina okkar og félaga í EES, að í afstöðu Íslands fælist að Íslendingar væru að víkja sér undan ábyrgð á því að viðurkenna að innstæðutryggingarkerfið virkaði hér með sama hætti og annars staðar í EES-ríkjum.

Í því felst, að áliti þessara ríkja, brot Íslands á EES-samningnum. Þess vegna er það engin hótun, misbeiting valds, kúgun eða eitthvað slíkt, eins og lá í orðum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar áðan, sem felst í afstöðu Evrópusambandsins. Það er einfaldlega mat aðildarríkja Evrópusambandsins og frænda okkar í Noregi að í þessu felst að Ísland uppfylli ekki skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum. Við þær aðstæður kvikna þau úrræði sem samningurinn kveður á um. Þá þarf að vísa ágreiningsefni um framkvæmd samningsaðila til sameiginlegu EES-nefndarinnar sem getur með sameiginlegri ákvörðun vísað málinu til Evrópusambandsdómstólsins í kjölfarið. Fyrir því er ekki vilji af hálfu Evrópusambandsríkjanna því að þau telja að viðurkenning á því mundi setja í hættu fjárhagslegan stöðugleika í Evrópu. Þá vakna einfaldlega heimildir aðildarríkjanna til að beita sérstökum aðgerðum til að bregðast við þessu broti. Við þessar aðstæður blasti við að EES-samningurinn væri að hluta eða í heild í uppnámi, hann væri í hættu.

Maður hlýtur að spyrja sig í ljósi atburðarásar undanfarinna vikna þar sem mjög hefur riðið á að koma á stöðugleika aftur í samfélaginu, fá lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, byrja að koma málum í horf, setja löggjöf sem gerir það kleift að koma á takmörkuðum gjaldeyrisviðskiptum aftur: Halda menn í alvöru að það hafi verið raunsær valkostur að gera ekkert af þessu, halda áfram að vera í styrjöld við okkar nánustu nágranna og bandalagsríki, ljúka ekki málum gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, halda áfram lagaþrætum á vettvangi EES og tefla EES-samstarfinu í hættu? Í hvaða heimi lifa þeir þingmenn sem telja að það sé raunsær valkostur við þær aðgerðir sem við höfum ráðist í á undanförnum vikum? Það liggur ljóst fyrir að við höfum haft ýmislegt annað og betra við tíma okkar að gera að undanförnu en að hefja lögfræðistyrjöld við aðildarríki Evrópusambandsins þar sem enginn er sammála okkur og við sjáum það. Langlíklegasta lausnin er að ESB-ríkin beiti tafarlaust tækjum sínum samkvæmt EES-samningnum til að taka hann úr sambandi að hluta eða í heild. Draumsýnin og draumórarnir mega ekki byrgja mönnum sýn á hvað var raunverulega hægt að gera í þeirri stöðu sem upp var komin.

Hinar upphaflegu kröfur Hollendinga og Breta hljóðuðu upp á mjög víðtæka ábyrgð íslenskra stjórnvalda á öllum innstæðum, líka heildsöluinnlánum og hljóðuðu líka upp á að íslensk stjórnvöld ábyrgðust innstæður alveg upp í topp. Settar voru fram ríkar kröfur um hvernig að þessu yrði staðið og býsna mikil óbilgirni sýnd. Það sem eftir stendur, að samningar náðust á vettvangi EES-samningsins með aðkomu formennsku ríkis Evrópusambandsins, er á hinn bóginn samkomulag sem felur í sér að við setjumst að borðinu, öxlum það sem upp á vantar að til sé fyrir lágmarksinnstæðutryggingunni. Við fáum í hendurnar þær eignir sem bankarnir áttu erlendis og munu ganga til lúkningar þessum skuldum og samningar um lánakjör og önnur sjónarmið taka mið af fordæmislausri stöðu Íslands, þeim miklu erfiðleikum sem íslensk þjóð stendur frammi fyrir. Ég held að öllum sanngjörnum mönnum hljóti að vera skiljanlegt að náðst hefur mikill árangur. Hér hafa náðst forsendur fyrir því að við vinnum okkur út úr þessum vanda og við leggjum grunn að lausn þar sem við tökum á okkur þær byrðar sem eðlilegt má teljast að við öxlum í ljósi aðstæðna, í ljósi tildraga málsins og í ljósi þess regluumhverfis sem við búum við.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur lagt fram í frávísunartillögu Vinstri grænna tillögu um að samningsumboð verði tengt því að Bretar aflétti hryðjuverkalöggjöfinni gagnvart Íslandi. Ég tel að það sé fullkomið glapræði að fara að tengja í samningum við Evrópusambandið og aðildarríkin sem um ræðir það sérstaka mál sem lýtur að óréttmætri beitingu breskra stjórnvalda á hryðjuverkalöggjöf gagnvart Íslandi. Við viljum auðvitað ekki bjóða heim þeirri hættu að bresk stjórnvöld taki okkur þá á orðinu og segi: Við skulum þá ekki semja nema þið fallið frá kröfum um að bera hryðjuverkalöggjöfina undir dómstóla. Það viljum við náttúrlega ekki þannig að ég held að það væri fráleit samningaaðferð af Íslands hálfu að byrja á því að tengja saman beitingu hryðjuverkalöggjafarinnar og þetta tiltekna mál. Það þjónar sannarlega ekki íslenskum hagsmunum. Við eigum að nálgast þetta mál á þeim forsendum sem það byggir á sem er einvörðungu lágmarksinnstæðutryggingin samkvæmt tilskipuninni og sækja svo rétt okkar á hendur breskum stjórnvöldum vegna beitingar hryðjuverkalöggjafarinnar þar fyrir utan. Það er sjálfstætt mál og það er glapræði að tengja þessi tvö mál saman.

Virðulegi forseti. Ég tel að umfjöllunin um málið í nefndinni hafi skýrt það mjög. Með samþykkt þessarar tillögu — vonandi á eftir — veitir þingið ákveðinn pólitískan stuðning við þá lausn sem stjórnvöld leggja til að farin verði. Framgangur samningaviðræðna er í höndum framkvæmdarvaldsins eins og vera ber samkvæmt stjórnarskrá og landslögum. Eins og fram kemur í þingsályktunartillögu er það ætlan utanríkisráðherra að málin komi síðan fyrir Alþingi eftir því sem stjórnskipulegar þarfir kalla á. Jafnframt liggur ljóst fyrir að samráð verður haft við utanríkismálanefnd um framgang samningaviðræðnanna í samræmi við 24. gr. þingskapalaga. Það er sérstakt fagnaðarefni að hér skuli mál vera lagt fyrir með sérstökum hætti í þingsályktunartillögu fyrir þingið umfram það sem lagaskylda kveður á um, umfram það sem stjórnarskrá kveður á um til að tryggja að hér geti farið fram opin, lýðræðisleg umræða um málið þar sem allar hliðar þess eru leiddar í ljós og til að styrkja hið pólitíska umboð sem stjórnvöld hafa þá til lausnar á málinu.