136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:47]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ekki að segja að starfsmenn Landsbankans bæru ábyrgð á þessu. Það sem ég sagði var að forsvarsmenn Landsbankans kusu að fara þessa leið til að afla fjár. Þeir settu miklar byrðar á tryggingarsjóð umfram getu sjóðsins. Athugasemdir við framgang þessa máls voru gerðar af hálfu Fjármálaeftirlitsins svo snemma sem í febrúar. Þeir áttu þá ekki eignir til að koma yfir í dótturfélag til að koma þessum skuldbindingum í skjól en héldu samt áfram að auka á skuldbindingarnar. Þetta eru allt rekstrarlegar ákvarðanir sem þeir tóku og verða að bera ábyrgð á. Þeir vissu að það var afstaða Fjármálaeftirlitsins að ekki væri afsakanlegt að halda áfram að leggja þessar byrðar á tryggingarsjóðinn. Þeir héldu því samt áfram og bættu frekar í ef eitthvað var, juku umsvif sín í Hollandi. Þetta er ákvörðun sem þeir tóku og þeir verða að bera ábyrgð á henni. Skipstjóri sem veit að hann er ekki með björgunarbát tekur ákvörðun um hvort hann leggi út á djúpsævi með ósynt fólk. Hann verður að meta aðstæðurnar. Það má auðvitað gagnrýna hvort eftirlitið hefði ekki átt að tryggja að björgunarbáturinn væri í bátnum en það er ekki eftirlitið sem siglir bátnum heldur skipstjórinn. Það er það sem ég er einfaldlega að segja.

Það er ekki rétt sem hv. þingmaður segir að alltaf hafi verið ólíklegast að Landsbankinn færi. Það var alltaf ólíklegast að Kaupþing færi. Kaupþing hefur alltaf staðið langbest hjá okkur af þessum þremur bönkum en látum það liggja á milli hluta. Fjármögnun Landsbankans síðasta ár hvíldi nær alfarið á þessum reikningum og eftir á að hyggja, ég er ekki að segja að það hafi endilega verið öllum ljóst fyrir fram, hlýtur auðvitað að vera mikið (Forseti hringir.) álitamál hvort þarna hafi ekki verið teflt um of á tæpasta vað.