136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:55]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru nokkurn veginn eins órökstuddar staðhæfingar og hægt er að hafa þær. Í upphafi samningaviðræðnanna lágu fyrir ríkar kröfur Breta og Hollendinga um greiðslu okkar á öllum skuldbindingum með sama hætti og við höfum ábyrgst innlend innlán upp í topp umfram lágmarksinnstæðutryggingarnar. Jafnframt lágu frammi harðar kröfur af þeirra hendi um hvernig staðin skyldu skil á þessum greiðslum. Eftir aðkomu Evrópusambandsins, sem hv. þingmanni er mikið í nöp við, og eftir aðkomu annarra ríkja Evrópusambandsins er búið að fá þá ofan af þessu. Forsendur samninganna eru innstæðutryggingarnar einar og berar. Forsendur samninganna eru að tekið verði tillit til sérstakrar og fordæmislausrar stöðu Íslands. Það eru forsendurnar sem gengið er út frá, hv. þingmaður. Allt tal um að af hálfu Evrópusambandsins sé ekki tekið tillit til aðstöðu Íslands í þessum efnum er fráleitt og styðst ekki við nein rök. Þvert á móti, eins og stendur í umsömdum viðmiðum sem eru fyrir framan hv. þingmann í þingsályktunartillögunni, eru forsendur samningalausnarinnar þær að tekið verði tillit til þessarar sérstöku stöðu.

Hvað varðar það að við getum vegna sérkennilegrar túlkunar hv. þingmanns á stjórnarskrárákvæðinu um að lagaheimild þurfi til ráðstöfunar fjár úr ríkissjóði og þá getum við beitt því fyrir okkur gagnvart öðrum þjóðum — þá held ég að hann sé á nokkrum villigötum í þjóðarétti. Íslensk stjórnvöld undirrita þjóðaréttarsamninga við önnur ríki og þeir eru síðan innleiddir í íslensk lög. Íslensk stjórnvöld bera sjálf ábyrgð á að þeir séu í samræmi við stjórnarskrá. Ef samningarnir eru með þeim hætti að þeir gangi umfram heimildir stjórnarskrár er það íslenskt vandamál en ekki alþjóðlegt.