136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[18:01]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Það stóð íslenskum stjórnvöldum næst, sagði hv. þm. Árni Páll Árnason, að tryggja að innstæður væru fyrir í innstæðutryggingarsjóði til þess að standa undir skuldbindingunum á bak við Icesave-reikningana. Það stóð íslenskum stjórnvöldum næst að gera þetta og gera hitt, kom fram í máli hv. þm. Árna Páls Árnasonar.

Íslensk stjórnvöld stóðu sig ekki í því. Íslensk stjórnvöld höfðu ekki gripið til þeirra ráðstafana sem voru nauðsynlegar og þau máttu vita að hefði þurft að grípa til svo þessi staða kæmi ekki upp.

„Þú veist hvað sá heitir sem bregst sínu landi og þjóð“, segir Jakobína Sigurðardóttir í einu kvæða sinna. Íslensk stjórnvöld brugðust í þessu máli. Þau gripu ekki til þeirra ráðstafana sem voru nauðsynlegar til að lágmarka þann skaða sem við stöndum nú frammi fyrir vegna Icesave-reikninganna.

Ég ætla fyrst að gera að umtalsefni það sem kom fram bæði hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni, formanni utanríkismálanefndar, og hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni, varaformanni utanríkismálanefndar, um að hér væri rætt mál sem þyrfti í raun ekki að bera undir Alþingi. Ríkisstjórnin hefði getað afgreitt málið sisvona og engin lagaskylda væri til að taka það til umfjöllunar á vettvangi Alþingis.

Ég ætla að leyfa mér að vera ósammála þeim um þetta atriði og finnst býsna langt seilst af hálfu þessara þingmanna að halda þessu fram.

Hér er í þingsályktunartillögu lagt til, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um.“

Hér liggur ljóst fyrir að verið er að skuldbinda ríkissjóð fyrir hundruð milljarða kr. með þingsályktunartillögunni. 600–700 milljarða kr. Að sjálfsögðu með þeirri gríðarlegu vaxtabyrði sem slíkum skuldbindingum fylgir til næstu ára. Svo koma þeir og leyfa sér að segja að ekki þurfi að bera þetta undir Alþingi.

Þetta er fullkomin ósvinna og vanvirðing við lýðræðið og jaðrar við að vera einræði sem hv. þingmenn tala hér fyrir. (ÁPÁ: Lestu stjórnarskrána.) Um er að ræða skuldbindingar upp á hundruð milljarða kr. Hundruð milljarða kr., m.a. úr ríkissjóði. Ekkert gjald og engar greiðslur mega fara úr ríkissjóði nema að fyrir því sé heimild af hálfu Alþingis. Skyldi hv. þingmaður hafa gleymt því eða er þeim nákvæmlega sama? Er þeim kannski alveg nákvæmlega sama? Líður þeim svona vel að vera með þessa milljarða á herðunum sem þeir ætla að leggja á þjóðina.

Það er gott og vel. Ég hef lesið stjórnarskrána. (Gripið fram í.) Ekkert gjald má greiða úr ríkissjóði eða greiða neitt úr ríkissjóði öðruvísi en fyrir því sé heimild Alþingis. Þingmaðurinn vill kannski mótmæla því og það verður þá svo að vera. Þetta er auðvitað alveg fáránleg málsvörn af hálfu þingmannanna.

Að sjálfsögðu á að taka svona stór mál og ræða í sölum (Gripið fram í: Við erum að gera það.) Alþingis og fjalla um þau ítarlega. Hér er ekki fjallað neitt sérstaklega ítarlega um málið. Það verður að segjast eins og er. Tillagan fékk umfjöllun í nefnd. Nefndarálit var tekið með afbrigðum til umræðu á fundinum til að hægt væri að ljúka málinu í dag. Þetta eru óvönduð vinnubrögð.

Íslensk stjórnvöld hafa ekki staðið sig í því sem þau hefðu átt að gera. Það kom fram í fjölmiðlum um miðjan nóvembermánuð að í tilskipun Evrópusambandsins um vernd innstæðna í bönkum sé heimild til að takmarka ábyrgð Tryggingarsjóðs innstæðueigenda þannig að sjóðurinn tryggi ekki innstæður ákveðinna aðila svo sem ríkissjóða, sveitarstjórna og fjárfestingarfélaga.

Sú heimild hefur ekki verið nýtt í íslenskri löggjöf. Það mun þó hafa verið til umræðu. Samtök fjármálafyrirtækja hafa sagt að fyrir um það bil tveimur árum hafi stjórnvöldum verið bent á að umrædd heimild hafi ekki verið notuð en hún hafi hins vegar verið notuð af ýmsum öðrum ríkjum, m.a. Bretlandi. Þannig hafi mörg ríki takmarkað ábyrgð sína að þessu leyti.

Það var ekki gert hér. Af hverju var það ekki gert? Af hverju svara ráðamenn því ekki þegar um það er spurt og um það hefur verið ítrekað spurt í umræðunni? Af hverju var það ekki gert? Hver ber ábyrgð á því? Hver ætlar að axla þá pólitísku ábyrgð? Hvaða ráðamaður ætlar að gera það? Kannski enginn og það er eftir öðru.

Ekki verður undan því vikist, virðulegi forseti, að minna á að íslenskir ráðamenn, m.a. forsætisráðherra, höfðu uppi stór orð um að við létum ekki kúga okkur. Íslendingar mundu ekki láta kúga sig í málinu. Hæstv. utanríkisráðherra lýsti þeirri skoðun sinni að ríkisstjórnin mundi aldrei binda þjóðinni bagga sem hún gæti ekki staðið undir. Engu að síður er verið að gera það í dag með þeim tveimur málum sem við höfum fjallað um. Binda þjóðinni gríðarlega bagga til frambúðar sem mikil áhöld eru um að hún geti staðið undir.

Vel má fara í lögfræðilega deilu um það eins og hér hefur verið gert að hve miklu leyti við höfðum val eða að hve miklu leyti við hefðum getað gert ágreining fyrir dómstólum og hvaða leiðir hefðu þá verið færar í því efni. En það sem stendur eftir er að íslensk stjórnvöld voru ekki reiðubúin til að láta reyna á lögmæti aðgerða Breta. Voru ekki reiðubúin til að láta reyna á hver raunveruleg skylda íslenskra stjórnvalda væri til að standa undir innstæðunum sem hér er fjallað um. Ekki var vilji til þess. Af hverju? Vegna þess að það hefði hugsanlega getað sett EES-samninginn í uppnám.

Er ekki málið að þessar tryggingar eru ekki til staðar í EES-samningnum? Það var það sem Evrópusambandið vildi ekki láta koma fram í dagsljósið. Vildi ekki að almenningur í Evrópusambandsríkjunum áttaði sig á því að í raun og veru vantaði tryggingar í evrópsku löggjöfina. Það var hættan.

Menn geta auðvitað haft þá skoðun eins og hv. þm. Árni Páll Árnason og Samfylkingin eins og hún leggur sig að við eigum að fara í Evrópusambandið og það sé besti kostur fyrir íslenska þjóð. Við getum að sjálfsögðu rætt það. Ég er í hópi þeirra sem eru þeirrar skoðunar að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að Evrópusambandinu eigi að fara fram. Þjóðin eigi að fá að taka af skarið í því efni. Það breytir ekki því að ég get haft þá skoðun að það sé ekki endilega besti kosturinn fyrir okkur. Það er bara annað mál.

En mér virðist staðan vera sú að hv. þm. Árni Páll Árnason taki málstað Evrópusambandsins alltaf hráan upp og verji, alveg sama hvernig hann er, af því hann hefur svo mikinn áhuga á að við förum inn í þennan klúbb og aldrei megi andæfa eða blása neitt á það sem kemur frá Evrópusambandinu.

Þannig menn geta ekki gætt hagsmuna Íslands gagnvart öðrum aðilum. Menn verða að vera gagnrýnir á það sem þaðan kemur og geta staðið á rétti Íslendinga og hagsmunum. Líka gagnvart Evrópusambandinu þótt menn kikni dálítið í hnjánum þegar það er nefnt þess utan.

Í þessu máli eru ekki frekar en því fyrr í dag fyrirliggjandi upplýsingar um hvað við erum í raun og veru að skrifa upp á. Í nefndaráliti meiri hlutans er sagt að megi ætla að um 150 milljarðar geti staðið út af að því ferli loknu. Þá er vísað til þess að einhverjar eignir séu upp á móti þessum skuldbindingum. Það megi ætla það. Það hefur komið fram hjá öðrum að þetta er sennilega algjör lágmarkstala og meiri hlutinn kýs að halda henni fram í stað þess að segja hlutina eins og þeir eru. Segja sannleikann. (ÁPÁ: Það getur vel verið að það þurfi ekkert að borga. Það er lágmarkstalan.) Það er afskaplega ósennilegt, hv. þingmaður.

Í öllu falli er (Gripið fram í.) ljóst að á meðan safnar skuldbindingin vöxtum sem íslenskir skattgreiðendur munu þurfa að borga vegna þess að ekki á að taka eignirnar á þessu augnabliki og reyna að gera verðmæti úr þeim vegna þess að menn segja að á þessum tímapunkti er hætt við að þær fari á brunaútsölu og lítið fáist fyrir þær. Þess vegna þurfi að bíða með það í einhver ár. (Gripið fram í.) Það kann vel að vera skynsamlegt. En á meðan safnar skuldbindingin vöxtum og hverjir eiga að borga þá aðrir en skattgreiðendur? Að sjálfsögðu. Það á sem sagt að fara á þær herðar líka.

Hér er þetta auðvitað eðlilega þannig, virðulegi forseti, að menn vilja ekki að sannleikurinn komi fram. Þá dettur mér í hug að vísa í ágætt verk eftir þekktan rithöfund, Henrik Ibsen, sem segir á einum stað, með leyfi forseta:

„Hættulegasti óvinur sannleikans og frelsis okkar á meðal er hinn pottþétti meiri hluti. Já. Hinn bölvaði pottþétti frjálslyndi meiri hluti, það er hann. Það er hinn mikli meiri hluti í samfélagi okkar sem rænir mig frelsinu og vill meina mér að segja sannleikann.“

Það er nefnilega það. Þetta er leikrit sem er meira en hundrað ára gamalt og einhvern veginn eiga þessi orð nú við í þessu samhengi í dag. (Gripið fram í: Það er Þjóðníðingurinn.) Dettur hv. þingmanni það kannski í hug, já. Það er nefnilega það. Minni hlutinn hefur alltaf á réttu að standa, segir Henrik Ibsen líka í þessu ágæta leikriti og bendir þar á að sannleikurinn, venjulegur sannleikur lifi ekki nema í hæsta lagi í 15–20 ár. Það er nú sá tími sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið ferðinni í íslenskum stjórnmálum um þessar mundir.

Loks segir söguhetjan Stockmann þessa ágætu setningu sem líka á við í dag, með leyfi forseta:

„Ég vil berja því inn í hausinn á rökkunum þeim arna að frjálshyggjudátarnir eru lúmskustu óvinir frjálsra manna. Að stefnuskrár flokkanna kyrkja öll lífvænleg sannindi. Að nytja tillitssemin kollvarpar öllu siðgæði og réttlæti.“

Merkilegt hvað meira en hundrað ára gamalt verk getur átt við aðstæðurnar í íslensku samfélagi í dag, virðulegi forseti.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég hef miklu meiri skömm á þessu máli í raun og veru heldur en því fyrra sem við ræddum í dag. (Gripið fram í.) Hafði ég nokkra skömm á því, svo því sé til haga haldið, eins og mátti greina í ræðu minni um það mál.

Ég hef í raun og veru miklu meiri áhyggjur af þeim skuldbindingum sem verið er að leggja á okkur Íslendinga með málinu vegna þess að þrátt fyrir allt verður um hitt málið að segja að auðvitað á eftir að koma í ljós hvað verður gengið mikið á þau lán eða lánalínur sem þar er óskað eftir heimildum fyrir og ekki er útséð um að allar þær skuldbindingar sem heimildin gengur út á verði nýttar.

Hér er annað á ferðinni. Hér er talað um að taka og axla ábyrgð á verulegum skuldbindingum vegna þessara innlánsreikninga og ég vil að skýrt komi fram að ég er þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi að virða alþjóðlegar skuldbindingar sínar í þessu máli eins og öðrum. Að sjálfsögðu eigum við að gera það. En það hefur verið og er ágreiningur um hverjar þessar skuldbindingar raunverulega eru og ég hefði talið að eðlilegt hefði verið að við létum reyna á það frekar.

Ég las líka greinina í Fréttablaðinu, sem hv. þm. Árni Páll Árnason vísaði til, eftir ágætan lögfræðing Helga Áss Grétarsson þar sem hann rekur rök með og á móti. Hv. þm. Árni Páll Árnason sagði að ekki væri bara ein hlið á málinu. Það er rétt. Að sjálfsögðu eru tvær og kannski fleiri hliðar á málinu. En stjórnarmeirihlutinn verður líka að taka það til sín að fleiri hliðar eru á málinu. Líka þær sem honum þóknast ekki að halda sérstaklega til haga. Má í því sambandi m.a. vísa í erindi sem forseti lagadeildar Háskóla Íslands hélt núna nýverið fullveldisdaginn 1. desember þar sem hún fjallar m.a. um hryðjuverkalögin og beitingu þeirra. Þar segir, með leyfi forseta:

Með aðgerðum breskra stjórnvalda var í raun brotið bæði gegn þjóðréttarskyldum í samskiptum við annað ríki sem er sjálfstætt skoðunarefni sem íslenska ríkið getur sótt rétt sinn vegna. Auk þess var brotið gegn réttindum íslenskra aðila sem þannig eignast kröfu á hendur breskum stjórnvöldum. Um það síðarnefnda eru afdráttarlausar skyldur leiddar af mannréttindasáttmála Evrópu sem Bretland hefur gengist undir og jafnframt leitt í lög. Frysting á eignum og aðrar þungbærar aðgerðir sem Landsbankinn varð fyrir á grundvelli hryðjuverkalaganna brutu gegn eignaréttindum sem vernduð eru af sáttmálanum þar sem lagastoð fyrir þeim skorti.

Segir forseti lagadeildar Háskóla Íslands og síðar í erindinu segir hún, með leyfi forseta:

ESB-ríkin voru ófáanleg til að fallast á að úr þessum ágreiningi yrði skorið eftir löglegum leiðum. Augljóslega hefði málið vakið óróa innan Evrópusambandsríkjanna og vakið athygli allra á því að engar Evrópureglur eru til sem mæla fyrir um ríkisábyrgð á bankainnstæðum. Í ofanálag voru skilyrði fyrir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins spyrt saman við þessar deilur um ríkisábyrgð innstæðna svo íslensk stjórnvöld áttu engra kosta völ. Það var ekki um annað að ræða en að gangast undir þá þvingun að taka lán sem rennur að hluta til þess að ábyrgjast greiðslur Tryggingarsjóðsins. Nokkuð sem ríkinu ber engin lagaleg skylda til. Hvorki eftir Evróputilskipun né öðrum þjóðréttarreglum. Samningar af þessum toga eru á lögfræðimáli kallaðir nauðungarsamningar. Ekki aðeins í okkar lögum heldur einnig í þjóðaréttinum og slíkir samningar eru raunar ógildanlegir.

Þannig að við erum hér komin á ystu brún svo ekki sé meira sagt. Ég tel að ekki hafi verið haldið vel á hagsmunum Íslendinga. Ég held því ekki fram að undir öllum kringumstæðum hafi ekki einhverjar skuldbindingar lent á herðum Íslands vegna málsins vegna þess að menn fengu að fara út í heim og leika sér þar á ábyrgð íslenskra skattgreiðenda án þess að þeir hefðu hugmynd um að þeir bæru nokkra ábyrgð. Ekki sögðu stjórnvöld þjóðinni það. Ekki gripu stjórnvöld til neinna ráðstafana til að reyna að lágmarka skaðann sem hér blasir við.

Bersýnilegt er að íslensk stjórnvöld brugðust í þessu mikilvæga hlutverki sínu. Þau máttu vita og hafði verið bent á að grípa þyrfti til ráðstafana. Einn farsinn enn er að formaður bankastjórnar Seðlabankans lýsti því yfir að hann hafi á fundi með forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna í sumar sagt að núll prósent líkur væru á því að bankarnir kæmust í gegnum þessa erfiðu bankakreppu.

Hæstv. utanríkisráðherra, formaður Samfylkingarinnar, hefur sent frá sér yfirlýsingu og sagt að þetta sé ekki satt. Þá stendur orð gegn orði en um leið stendur málið þannig að annað hvort þeirra segir ekki satt. Er það ekki alveg dagljóst? Hvort þeirra er það? Er það formaður bankastjórnar Seðlabankans sem Samfylkingin hefur ákveðið að taka ábyrgð á og hafa í vinnu áfram, að minnsta kosti um sinn? Kann það að vera? Þetta mál er auðvitað allt með þvílíkum ólíkindum, virðulegi forseti, að það tekur engu tali. Þetta eru erfiðir skilmálar og erfiðar byrðar sem verið er að leggja á íslensk heimili og íslenskar fjölskyldur til margra ára.

Við höfum lagt það til hér í tillögu sem er að finna í nefndaráliti 2. minni hluta utanríkismálanefndar á þingskjali 260 að málinu verði vísað frá. Að ríkisstjórninni verði falið að taka að nýju upp viðræður við hlutaðeigandi aðila. En til vara höfum við jafnframt lagt til að verði dagskrártillagan ekki samþykkt verði umboðið til ríkisstjórnarinnar skilyrt þannig að það verði ekki virt fyrr en Bretar hafi aflétt frystingu á eignum Landsbankans á grundvelli hryðjuverkalaganna. Að hryðjuverkalögin hafi verið tekin úr sambandi gagnvart Íslandi.

Er það til of mikils mælst? Dettur stjórnarliðum í hug að þjóðin sé ósammála þeirri tillögu? Það getur varla verið. Um það hlýtur að verða breið samstaða meðal þjóðarinnar að hryðjuverkalögin viljum við burt. (Forseti hringir.)