136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[18:55]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er spurt um mikilvægi þess að styðja við atvinnulífið og hvort sú sem hér stendur vilji beita sér fyrir því að styðja uppbyggingu atvinnulífs. Svarið við þeirri spurningu er afar einfalt: Já. Það er eitt mikilvægasta verkefnið fram undan að styðja við og styrkja íslenskt atvinnulíf. Án þess er ekkert velferðarkerfi, án þess er engin atvinna en ég hef alltaf haldið fram að það séu grundvallarmannréttindi hverrar manneskju, ef hún mögulega getur, að taka þátt í atvinnulífinu. Atvinnulífið er forsenda velsældar samfélagsins, forsenda félagslegrar þjónustu, heilbrigðis og mennta.

Ef ég á að forgangsraða hvar ég vil sjá okkur byggja upp í atvinnulífinu þá á ég ekkert erfitt með það. Ég vil sjá okkur nýta mannvitið og auðlindirnar sem búa í fólkinu og hugvitinu og þekkingunni. Ég minni á að á undanförnum áratug hefur menntuðu fólki fjölgað mjög mikið, þ.e. fólki með háskólapróf á Íslandi en nú eru hátt í 30% af Íslendingum með háskólapróf. Þetta er gleðileg staðreynd. Þessa auðlind eigum við að virkja fyrst og fremst.

Svo hef ég ekkert á móti því að virkja allar aðrar auðlindir Íslands svo lengi sem við náum sátt um sjónarmið nýtingar og landverndar og ég held að þá sátt eigum við eftir að skilgreina betur en vissulega er uppbygging atvinnulífsins númer eitt, tvö og þrjú í uppbyggingarstarfinu fram undan.