136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[18:57]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Herra forseti. Það mál sem við fjöllum hér um er að mínu mati afleiðing af algeru klúðri ríkisstjórnarinnar, seðlabankastjórnarinnar og Fjármálaeftirlitsins. Við stöndum því frammi fyrir því núna að taka á okkur, sem menn hafa varlega áætlað og kemur fram m.a. í áliti 2. minni hluta utanríkismálanefndar, 628 milljarða kr. En svo vona menn að þetta verði kannski bara 150 milljarðar, við ætlum að vona það.

Ég tel að það sem gerðist í þessu máli, og það kemur raunar fram í gögnunum sem fylgja þessari þingsályktunartillögu, að ástæðan fyrir því að við erum komin í þessa stöðu sé sú að með aðgerðum sínum hafi ríkisstjórnin raunverulega ógnað fjárhagslegum stöðugleika innan Evrópusambandsins og innan EES-svæðisins.

Bankakerfið byggir á trú fólks og ef engin trú er á bankakerfinu, engin trú á bönkunum og engin trú á að tryggingar sem bankarnir hafa á innstæðum standist þá eru bankarnir raunverulega ekki til. Við sáum þetta gerast með Lehman Brothers í Bandaríkjunum, þegar markaðir sáu að bandaríska ríkisstjórnin ætlaði að leyfa einum stærsta fjárfestingarbanka heims að verða gjaldþrota þá hrundi spilaborgin einhvern veginn. Það sama gerðist síðan á Íslandi. Ríkisstjórnin og nokkrir af æðstu embættismönnum landsins, seðlabankastjórnin, ákváðu að það væri í lagi að Glitnir yrði gjaldþrota og sögðu að þeir gætu ekki gert neitt og kannski væri bara ágætt að þessir óreiðumenn yrðu gjaldþrota og við losnuðum við þá. Síðan virtist sem þeir ætluðu hugsanlega að reyna að redda Kaupþingi fyrst staðan var þannig að þeir gátu í rauninni ekkert gert fyrir Landsbankann. Það sem gerðist náttúrlega er að trúin á bankakerfið og svo í framhaldinu af því hversu bankarnir voru stórir hér, trúin á íslenska ríkið hverfur. Og við stöndum í þeim sporum núna að ræða þetta mál vegna þess að íslenska ríkisstjórnin gerði ekki neitt. Hún brást ekki við.

Það hefur margítrekað komið fram að ýmsir vöruðu við þessu. En það var bara allt í fína hér, við vorum að vinna verðlaun á Ólympíuleikunum, við gátum flogið í einkaþotum, við vorum bara flott fólk og þurftum ekki að hafa neinar áhyggjur.

Það hefur komið fram að menn vissu af gífurlegri uppsöfnun á peningum inn á þessa innlánsreikninga en það var ekkert gert og ekkert sagt. Bent hefur verið á að það voru úrræði til staðar en þau voru ekki nýtt. Og það sem við horfum fram á núna er algert hrun hins íslenska efnahagslífs, algert hrun.

Ríkisstjórnir landa innan Evrópusambandsins sögðu hreinlega að þær gætu ekki leyft þessu að gerast á sínu svæði, þær yrðu að tryggja að borgararnir, fólkið sem býr í þessum löndum hefði trú á bankakerfinu, hefði trú á að innstæðutryggingakerfið virki.

Þegar í ljós kemur að ríkisstjórnin sagði nánast beint, þar á meðal við Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, að hún ætli sér ekki að standa við þetta, hún ætli sem sagt að mismuna þarna, sem er önnur grunnstoð EES-samningsins og Evrópusambandsins, þá er náttúrlega ekkert skrýtið að það gerist eitthvað. Mundum við ekki bregðast við? Ég tel það.

Ég hef stundum nefnt Vestmannaeyinga og fólk sem býr í Árborg sem dæmi, og annar hv. þingmaður nefndi dæmi, mig minnir að hann hafi talað um Patreksfjörð og einhvern annan fjörð. Það er nefnilega þannig að Sparisjóður Vestmannaeyja hefur verið í sinni litlu útrás, hann er nú með útibú á Hornafirði og Selfossi. Menn geta rétt ímyndað sér þetta ef þeir byggju á Selfossi og svipuð staða kæmi upp og Vestmannaeyingar segðu við fólkið sem er búið að leggja inn peningana sína þar: „Sorry“, þið búið ekki í Vestmannaeyjum, við ætlum ekki að gera neitt fyrir ykkur. Ég veit að ég yrði svolítið fúl.

En ég skal líka alveg viðurkenna að viðbrögð breskra yfirvalda voru náttúrlega öfgafull og algerlega fáránleg. Þetta er þjóð um telur sig eina siðmenntuðustu þjóð heims en grípur til svona aðgerða, hún segist ætla að semja við okkur en setur síðan á okkur hryðjuverkalög. Ég hef einmitt verið minnt á það að Bretar töpuðu víst miklum peningum þegar bankarnir fóru á hliðina í Bandaríkjunum en ég man ekki eftir að hafa séð Bandaríkin á þeim lista sem var talinn upp hér eða að þar hafi verið brugðist svona við.

Ég hef líka aðeins nefnt mikilvægi þess að við skoðum vinnubrögðin, hvernig við vinnum hlutina. Ég get sagt að mér finnst vinnubrögðin við þessa þingsályktunartillögu vera ívið betri en við þingsályktunartillöguna um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það er a.m.k. verið að leggja samningsviðmiðin fram á Alþingi þannig að við getum rætt um þau áður en gengið er til samninga. Ég tek hins vegar algerlega undir álit 2. minni hluta um að það hefði verið langeðlilegast að málið hefði verið rætt á Alþingi áður en skrifað var undir þetta plagg, áður en gengið var frá samningsviðmiðunum. Maður verður alla vega að hrósa því sem maður telur betra en er samt alls ekki nógu gott. Það er rétt sem hér hefur komið fram, að með því að fara með þetta í gegnum þingið er verið að koma með ákveðinn pólitískan stuðning við það að svona ætlum við að vinna. Það kemur líka fram í gögnunum að ætlunin er að leggja endanlega niðurstöðu fyrir þingið og það sem maður ætti kannski að vera þakklátur fyrir, ætlunin er að upplýsa utanríkismálanefnd um framgang samninganna. Og við verðum náttúrlega að vera þakklát fyrir það litla sem fáum, er það ekki?

Spyrja má hvort ástæðan fyrir því að við horfum á að þetta ákveðna mál núna er unnið aðeins öðruvísi sé að þarna kristallist ákveðinn munur á vinnubrögðum hæstv. utanríkisráðherra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og hæstv. forsætisráðherra Geirs H. Haardes þar sem mikið var kvartað undan því einmitt varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að menn fengu ekki að vita neitt nema það sem að vísu DV birti.

Málið er að mínu mati eitt allsherjarklúður. Verið er að leggja á okkur byrðar, á börnin mín og þær kynslóðir sem taka við. Ég verð að segja eftir að hafa skoðað þetta mál og hlustað á umræðuna hér að mér finnst mjög erfitt að hafa einhverja trú á því að ríkisstjórnin nái árangri í þessum samningum þegar menn eru meira að segja hræddir við setja inn í þingsályktunartillöguna að við förum fram á það að lögin sem Bretar settu á okkur verði felld niður og við fáum aðgang að þeim eignum sem íslenska ríkið á í Bretlandi í gegnum Landsbankann. Ég vona svo sannarlega að við lendum ekki í því sem við horfðum upp á varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að það sé í rauninni búið að borga áður en þingið hefur fengið að samþykkja samninginn.