136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[19:06]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að við þurfum ásamt viðsemjendum okkar að finna góða lausn á Icesave-deilunni og helst þurfa samningsaðilarnir að hafa gagnkvæman hag af því að hámarka verðmæti eigna gamla Landsbankans og tryggja þannig best möguleikana á að eignir dugi fyrir skuldum.

Hv. þm. Eygló Harðardóttir nefnir töluna 628 milljarða í tengslum við Icesave-deiluna sem skuld Íslendinga og einnig að stjórnarliðar séu rétt að vona að upphæðin sé lægri en 628 milljarðar. Fyrir liggur að verðmæti Landsbanka Íslands erlendis var metið á ríflega 1.700 milljarða kr. en einnig að búast megi við að ná megi um 1.000 milljörðum út úr eignunum. Þetta er ekki alveg víst og ég vona að það megi ná jafnvel meiru út úr eignunum. Og því spyr ég: Hvers vegna heldur þingmaðurinn því fram að stjórnarliðar séu rétt að vona að upphæðin sé lægri? Telur hún að það sé einhver óskhyggja að upphæðin sé lægri? Heldur hún að eignir Landsbankans erlendis komi ekki á móti þessum 628 milljörðum? Er þetta von án innstæðu?