136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[19:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við höfum rætt þetta mál ítarlega í dag, bæði við aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og núna samninga um Icesave-reikningana, en eins og ég gat um fyrr í dag er vandi Íslendinga af fernum toga, í fyrsta lagi er bankahrunið, í öðru lagi jöklabréfin, í þriðja lagi Icesave-reikningarnir sem við ræðum hér og í fjórða lagi kröfuhafarnir.

Bankahrunið eitt sér hefði alveg dugað fyrir Íslendinga. Þar töpuðust 1.000 milljarðar, þar af 130 milljarðar í eigu einstaklinga, þar af 30 milljarðar í eigu aldraðra. Það var bara venjulegt fólk sem átti þarna hlutabréf, sparnaðinn sinn sem hvarf. Þetta veldur atvinnuleysi, launalækkun, eignamissi eins og ég gat um, keðjuverkun út í þjóðfélagið, önnur fyrirtæki fara á hausinn af því að þau höfðu treyst á lánveitingar o.s.frv. Þetta er í rauninni nægilegt verkefni fyrir eina þjóð að glíma við.

Síðan eru jöklabréfin, bréf sem höfðu streymt inn til landsins vegna vaxtamunar. Það hafði svo sem margoft verið bent á það úr þessum ræðustól að það gæti valdið tjóni, væri hættulegt því að þau styrktu gengið þegar þau komu inn, ollu því að innfluttar vörur lækkuðu í verði, og Íslendingar juku neyslu í staðinn fyrir að minnka hana þegar vextirnir hækkuðu. Þegar þetta snýst við gerist akkúrat öfugt og nú lendum við í því að við ráðum ekki við þessar krónur, þetta er það mikið, sumir tala um 200 milljarða, 300 milljarða, eitthvað svoleiðis, og við höfum þurft að setja mjög sorglegar gjaldeyrisreglur sem ég er ekki voðalega hrifinn af en sé alveg nauðsynina á að séu settar. Sem betur fer gerðist það í dag að gengið styrktist. Það styrktist í gær líka þannig að samanlagt er það búið að styrkjast um 22,5% á tveimur dögum, gengisvísitalan komin niður í 204. Ég ætla að vona að þetta sé ekki of ofsafengið þannig að þetta gangi til baka en við skulum vera undir það búin. Það er þó mjög jákvætt að við ráðum á þennan hátt við þennan takmarkaða gjaldeyrismarkað sem byggist bara á vöruskiptum, námsmannagjaldeyri og ferðamannagjaldeyri.

Svo er það Icesave-málið sem við ræðum hér. Það er galli í reglum Evrópusambandsins, flestir eru sammála um það. Fjármálaráðherra Breta hefur meira að segja skrifað Evrópusambandinu bréf og óskað eftir að reglunum verði breytt af því að honum finnst undarlegt að breskir skattgreiðendur eigi að borga fyrir tjón vegna innlánstrygginga.

Margir hafa talað um, þar á meðal hv. síðasti ræðumaður, að enginn bæri ábyrgð. Ég tel að Alþingi — og þar með ég — beri ábyrgð á því að lagasetningin um innlánstryggingar á Íslandi var ekki skotheld og við sáum ekki í gegnum galla í tilskipun Evrópusambandsins sem við hefðum átt að sjá. Það er alveg á hreinu að tryggingarsjóður sem var byggður upp á sjö árum, upp í 1% af innstæðum, dugar þegar hundraðasti hver banki fer á hausinn á sjö ára fresti í rólegu árferði. Hann dugar hins vegar ekki neitt þegar heilt bankakerfi fer á hausinn. Hann mundi ekki heldur duga í Hollandi, ef 50% af bankakerfi Hollands hryndu á einni viku skyldi enginn láta sér detta í hug að þær innstæður yrðu allar greiddar, því geta menn gleymt. Þetta er það sem menn óttast, menn óttast að sparifjáreigendur um alla Evrópu sjái veikleikann í kerfinu ef Íslendingar borga ekki. Íslenskir skattgreiðendur eru látnir greiða fyrir galla í tilskipun Evrópusambandsins, þeir eru látnir greiða fyrir traust sparifjáreigenda á bankakerfinu yfirleitt um allan heim. Svo beittu þeir hryðjuverkalögum sem bættu gráu ofan á svart og hafa sennilega sett Kaupþing á hausinn. Kaupþing hefði átt að standast þetta áfall en gerði það ekki. Þetta er mjög merkilegt.

Síðan gerist það að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er beitt til að kúga Íslendinga til að ganga að kröfum Evrópusambandsins. Það ætti virkilega að verða þeim viðvörunarmerki sem vilja að Íslendingar gangi í Evrópusambandið. Þegar skilningurinn er sá á högum og vandamálum Íslands að bankahrunið og jöklabréfin dugi ekki, heldur skuli hlaðið enn meira á íslenska skattgreiðendur skulu menn ekki búast við að skilningurinn verði neitt meiri þegar við erum orðin pínulítill hreppur í risastóru ríki Evrópusambandsins sem ég vona að verði aldrei. (Gripið fram í: Jæja.)

Svo er það síðasta málið, kröfuhafarnir. Þeir lánuðu einkabönkum. Í sjálfu sér koma okkur þessi lán ekkert við, gífurlegar upphæðir eins og ég gat um í dag, 40 millj. á hvern Íslending. Lánveitendurnir áttu náttúrlega að sjá þetta allt saman, þeir áttu að sjá þetta allt saman, gagnkvæma eignarhaldið, veikleikann í kerfinu — en þeir gerðu það ekki. Nú er tónninn sá að ef þeir geta ekki unnið með íslenskum stjórnmálamönnum að einhverri lausn geti orðið erfitt fyrir Íslendinga að fá lán úti í hinum stóra heimi næstu áratugina. Að því þarf að vinna líka. Ég tel mjög mikilvægt að þetta sé allt unnið í einni heild, allt unnið saman, allur þessi pakki, friðarsamningar, og íslenska þjóðin látin borga eins og hún þolir, ekki meira en það, eins og hún þolir án þess að missa aðalauðlindina, mannauðinn, úr landi. Það er hagur allra. Það er hagur Bretanna, það er hagur Hollendinganna, það er hagur kröfuhafanna og það er hagur Íslendinga að þjóðin sé ekki keyrð í sárafátækt eins og gæti orðið ef menn verða eins óbilgjarnir og þeir hafa verið hingað til, þessir erlendu „vinir okkar“ í Evrópusambandinu. (VS: En EFTA-löndin og Norðurlöndin?) Og Norðurlöndin líka því að ég tel þau öll með sem „svokallaða vini“.

Sú þingsályktunartillaga sem við ræðum hér er mjög opin. Ríkisstjórninni eða hæstv. utanríkisráðherra er falið að gera samninga um eitthvað. Það stendur reyndar í greinargerð með frumvarpinu að undir Alþingi skuli bera einstakar greiðslur við gerð fjárlaga. Þetta er svipað og ég lýsti í dag, svipað og ef maður felur einhverjum manni að kaupa hús. Ekkert meira um það, ekki hversu stórt það á að vera, hversu lítið, hversu dýrt o.s.frv., svo kaupir hann eitthvert kofaræksni fyrir 300 millj. og síðan kemur að gjalddögunum og þá verð ég að borga af því að ég var blankó búinn að fela honum að kaupa hús. Sú þingsályktunartillaga sem við ræðum hérna er einmitt þannig, hún er algerlega opin. Þess vegna nefndi ég við fyrri umr. að eitthvað meira þyrfti að koma til, einhver trygging fyrir því að Alþingi fjallaði um viðkomandi samninga þegar þeir hafa verið gerðir. Það er líka gott fyrir okkar samningamenn því að ef þeir hafa þá í bakhöndinni og viðsemjendur vita að Alþingi getur fellt samninga ef þeir verða óbærilegir íslenskri þjóð eru þeir hógværari í kröfunum. Það mundi styrkja íslenska samningamenn að hafa slíkt ákvæði í þingsályktunartillögunni.

Herra forseti. Þetta er heldur dapurleg umræða í dag og eiginlega mjög dapurleg en ég vil segja að í þessari stöðu felast engu að síður heilmikil tækifæri. Við erum búin að gera heilmikið. Við erum að setja sannleikslög. Við erum að setja sérstakan saksóknara í að kanna málið. Við afnemum vonandi þessar gjaldeyrisreglur sem allra fyrst og hugsanlega gengur það fyrr en seinna. Ef vel tekst til erum við komin með þjóðfélag sem er með miklu skýrari reglur. Ég ætla að vona að út úr þessu öllu saman komi miklu skýrari reglur og miklu betra siðferði í öllu kerfinu. Það er búið að refsa þeim sem brutu af sér þannig að það er viðvörun til manna um að þeir brjóti ekki reglur í atvinnulífinu. Ég held að ungt fólk eigi að sjá í þessu heilmikil tækifæri til að byggja upp nýtt Ísland, nákvæmlega eins og þegar fuglinn Fönix brann og var orðinn að ösku reis upp hinn nýi Fönix, ungur, bjartur og hlýr.