136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[19:46]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Sú afgreiðsla sem hér er lögð til felur í raun í sér að ríkisstjórnin fengi afar takmarkað og skilyrt samningsumboð til þess að leysa úr málinu, ekki yrði farið lengra inn á þá braut sem nú er í gangi í samskiptum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn heldur yrði verkefnið að reyna með lágmarkslántökum eftir atvikum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða öðrum alþjóðlegum aðilum eða ríkjum að taka nauðsynleg gjaldeyrislán án þess að Ísland afsali sér sjálfsstjórn í innri málum með þeim hætti sem þvingunarskilmálar áætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fela í sér og eins og við hv. þingmenn erum þegar farnir að kynnast með vaxtahækkunum, niðurskurði á fjárlögum ríkisins og öðru í þeim dúr. Möguleikar okkar sem sjálfstæðrar þjóðar yrðu þá nýttir eftir föngum til að hefja hér endurreisnarskeið í landinu án óbærilegs skuldaklafa og utanaðkomandi þvingunarskilmála sem gætu gert landsmönnum það verkefni erfitt ef ekki óleysanlegt.