136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins o.fl.

179. mál
[16:12]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, lögum um atvinnuréttindi útlendinga og lögum um útlendinga með síðari breytingum.

Þann 1. ágúst 2007 tóku gildi samningar um inngöngu Búlgaríu og Rúmeníu í Evrópska efnahagssvæðið en í samningaviðræðum um aðild ríkjanna að Evrópusambandinu var gert ráð fyrir að sömu reglur giltu á öllu svæðinu. Í samningnum um inngöngu ríkjanna í Evrópusambandið var þó ekki gert ráð fyrir að þau ákvæði í löggjöf Evrópusambandsins er varða frjálsa för ríkisborgara þessara ríkja sem launamanna innan svæðisins taki gildi fyrr en í fyrsta lagi 1. janúar 2009. Enn fremur var aðildarríkjum Evrópusambandsins gert heimilt að fresta gildistöku þessara tilteknu ákvæða í tveimur áföngum í allt að 5 ár til viðbótar eða til 1. janúar 2014. Frá árinu 2007 hafa ákvæði í löggjöf Evrópusambandsins sem varða frjálsa för því ekki gilt um ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu sem launamanna innan sambandsins. Einstök ríki Evrópusambandsins gátu hins vegar við inngöngu Búlgaríu og Rúmeníu sett samhljóða ívilnandi reglur í landslög og hvenær sem er síðan á fyrsta tveggja ára aðlögunartímabilinu, allt til 1. janúar 2009. Sérstaklega var þó kveðið á um að ríkinu væri ekki heimilt að setja strangari skilyrði fyrir dvalar- og atvinnuréttindum ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu en giltu á þeim degi er ríkin tvö gerðust aðilar að Evrópusambandinu.

Ísland, Noregur og Liechtenstein hafa sömu heimildir og Evrópusambandsríkin til að beita tímabundnum takmörkunum varðandi frjálsa för launamanna frá Búlgaríu og Rúmeníu á yfirráðasvæðum viðkomandi ríkja. Samkvæmt ákvæðum aðildarsamnings EES frá 2007 um frjálsa för launafólks er gert ráð fyrir að hvert aðildarríki beiti eigin landslögum og/eða ákvæðum tvíhliða samninga um aðgengi ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu að vinnumarkaði sínum fyrstu tvö árin frá stækkun svæðisins.

Með lögum sem samþykkt voru á Alþingi 13. júní 2007 um breytingu á lögum vegna samnings um þátttöku lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu nýttu íslensk stjórnvöld sér fyrrnefndar heimildir til að takmarka aðgang ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu að innlendum vinnumarkaði. Löggjöf Evrópusambandsins heimilar enn frekari frestun á gildistökuákvæðum um frjálsa för í allt að þrjú ár til viðbótar eða til 1. janúar 2012. Þeim ríkjum sem kjósa að gera slíkt ber að tilkynna það framkvæmdastjórninni. Sendi ríki ekki frá sér slíka tilkynningu verður litið svo á að ákvæðin er varða frjálsa för ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu sem launamanna innan svæðisins taki að fullu gildi að því er varðar þau ríki frá 1. janúar 2009. Ríkjunum er heimilt að hverfa frá takmörkunum sem þau hafa viðhaft og taka upp hinar sameiginlegu reglur bandalagsréttarins um frjálsa för launafólks. Geri þau það er hins vegar ekki unnt að snúa til baka, þ.e. frá hinum sameiginlegu reglum Evrópusambandsins til ákvæða í landslögum, nema að uppfylltum mjög ströngum skilyrðum sem m.a. lúta að aðstæðum á vinnumarkaði.

Að því er varðar EES- og EFTA-ríkin ber þeim að tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA fyrir fram um áætlanir sínar um frestun á gildistöku umræddra ákvæða. Samkvæmt upplýsingum Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nýta öll gömlu Evrópusambandsríkin að Finnlandi og Svíþjóð undanskildum umræddar heimildir til að takmarka aðgang ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu að vinnumarkaði viðkomandi ríkja og samkvæmt sömu heimildum bendir allt til þess að svo verði áfram.

Virðulegi forseti. Ljóst er að vegna þrenginga í efnahagslífi þjóðarinnar ríkir nokkur óvissa um stöðu og þróun á innlendum vinnumarkaði á næstu mánuðum. Atvinnuleysi hefur aukist hratt undanfarnar vikur og mældist 1,9% í október 2008. Miðað við skráningu fólks á atvinnuleysisskrá Vinnumálastofnunar nú í nóvember má gera ráð fyrir að atvinnuleysi verði 4,4% um mánaðamótin nóvember/desember 2008 og verði nálægt 8% um mánaðamótin janúar og febrúar 2009. Á innlendum vinnumarkaði hafa aðstæður því breyst mjög hratt til hins verra á undanförnum vikum og erfitt að meta hversu langt er að bíða þess að atvinnuástand batni á nýjan leik. Að teknu tilliti til þessara aðstæðna og þá sér í lagi þeirrar óvissu sem ríkir er lagt til með frumvarpi þessu að gildistökuákvæði 1.–6. gr. reglugerðar nr. 1612/68/EBE, um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins, ásamt síðari breytingum, verði enn frestað tímabundið til 1. janúar 2012 að því er varðar aðgengi ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu að íslenskum vinnumarkaði. Í því skyni eru með frumvarpi þessu lagðar til breytingar á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, lögum um atvinnuréttindi útlendinga og lögum um útlendinga þess efnis að ákvæði laganna sem snúa að takmörkun á frjálsri för ríkisborgara þessara ríkja sem launamanna innan svæðisins haldi gildi sínu fram til 1. janúar 2012. Þannig er gert ráð fyrir að ákvæði fyrrnefndra laga um rétt ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu til að starfa hér á landi sem launamenn gildi áfram fram til 1. janúar 2012 .

Virðulegi forseti. Þessar breytingar á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins og lögum um atvinnuréttindi útlendinga og lögum um útlendinga sem ég hef rakið hér að framan eru lagðar til í ljósi þess ástands sem ríkir á innlendum vinnumarkaði um þessar mundir. Við verðum að bregðast við ástandinu með öllum tiltækum ráðum í því skyni að lágmarka eins og kostur er þann skell sem heimilin í landinu verða fyrir þessa dagana. Okkur ber einfaldlega skylda til að gera allt sem í okkar valdi stendur til að draga eins mikið og við getum úr yfirvofandi atvinnuleysi hér á landi á komandi vikum og mánuðum. Einnig verðum við að nýta okkur áfram þær heimildir sem ég hef lýst.

Ég vil geta þess að þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu í lögum um útlendinga eru gerðar í fullu samráði við hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra og við smíði frumvarpsins var enn fremur haft samráð við utanríkisráðuneytið, Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins og Vinnumálastofnun.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. félags- og tryggingamálanefndar.