136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins o.fl.

179. mál
[16:36]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svar hennar. Ég er hins vegar ekki sannfærð eftir ræðu hennar um að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að beita þessu ráði sem hæstv. ráðherra kallar öryggisatriði. Það kemur fram í máli hæstv. ráðherra að það er minna atvinnuleysi í Búlgaríu núna en gert er ráð fyrir að verði á Íslandi á næstunni og því sé ég ekki að hættan sé fyrir hendi.

Hæstv. ráðherra benti á það sem gert hefur verið á þeim aðlögunarfresti sem við höfum haft, á þeim tíma sem liðinn er frá því að við samþykktum aðlögunarfrestinn. Það hafa verið sett lög um þjónustuviðskipti, það hafa verið sett lög um starfsmannaleigur og við höfum stefnumótun í málefnum innflytjenda.

Ég hefði haldið að öll sú löggjöf ætti að nægja okkur sem öryggisventill eða ætti að nægja sem umhverfi fyrir þann vinnumarkað sem við viljum sjá hér og hafa.

Ég elti ekki frekar ólar við þetta. Þetta er 1. umr. um málið og það á eftir að fara til umræðu í nefnd en ég geri ráð fyrir að við þingmenn Vinstri grænna munum áfram sitja hjá við afgreiðslu þess eins og við gerðum þegar við afgreiddum það á 134. löggjafarþingi.