136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

dýravernd.

186. mál
[16:45]
Horfa

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Forseti. Mér er ljúft og skylt að svara spurningum hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur hvað varðar gang við heildarendurskoðun dýraverndarlaga, sem er vissulega í gangi en eins og flest verkefni sem maður tekur sér fyrir hendur ganga þau ekki eins hratt og maður hefði óskað. Þetta gengur vel og unnið er að heildarendurskoðun dýraverndarlaga sem ég tel bæði tímabæra og mjög mikilvæga. Ég hvet hv. þingmenn og hv. umhverfisnefnd til að kynna sér það mál sérstaklega, ekkert er því til fyrirstöðu á meðan endurskoðun á vegum nefndarinnar sem ég hef skipað þar til er í gangi og það er vissulega mikilvægt og tengist málinu.

Ástæða þess að þetta tiltölulega litla frumvarp kemur fram núna er að verkefnum tilraunadýranefndar hefur fjölgað meira en menn gátu séð fyrir. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að svo mörg tilfelli þyrftu að fara fyrir nefndina til að fyrirtæki eins og Íslensk erfðagreining, að einhverju leyti, og tilraunastöðin á Keldum fái leyfi til að starfa með og nýta tilraunadýr. Þannig að þetta er víðar en maður gerir sér grein fyrir við fyrstu sýn eða fyrstu skoðun.

Hvað varðar álit fjármálaráðuneytisins eða kostnaðarmatið sem fylgir þessu frumvarpi, eins og öllum öðrum frumvörpum, hef ég svo sem ekkert annað um það að segja en að ég samsinni þeim ekki sem telja það löst í fari fagráðuneytanna að reyna að koma sér upp mörkuðum tekjustofnum. Ég held að sú leið sé mjög skynsamleg til að hafa jafnar og stöðugar fjárveitingar í tiltekin lögboðin verkefni. Í þessu tiltekna dæmi þarf einfaldlega að greiða fyrir mjög sértæka þjónustu sem ekki margir nýta sér en þeir sem þurfa að nýta sér hana munu væntanlega í fyllingu tímans njóta einhverra ávaxta af því að hafa gert þessar tilraunir. Því finnst mér fyllilega eðlilegt að gera þetta með þessum hætti enda er það lagt til í frumvarpinu og ekki beinlínis lagst gegn því í áliti fjármálaráðuneytisins þó að mér sé vel kunnugt um að þar á bæ hafi menn aðrar skoðanir um málið.