136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

uppbygging og rekstur fráveitna.

187. mál
[16:50]
Horfa

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Frumvarpið var samið af nefnd sem í sátu fulltrúar frá umhverfisráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu, sem þá fór með sveitarstjórnarmál, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samorku. Upphaf þess starfs má rekja til erindis frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem sambandið lýsti þeirri skoðun að eðlilegt væri að skýrt yrði kveðið á í lögum um skyldur sveitarfélaga í fráveitumálum. Má því segja að frumkvæði að frumvarpsgerðinni hafi komið frá sveitarfélögunum og komu sjónarmið þeirra vel fram í starfi nefndarinnar.

Í þessu frumvarpi til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna eru afmarkaðar helstu skyldur sveitarfélaga í fráveitumálum og er gerð tillaga um þá meginreglu að sveitarfélag beri ábyrgð á uppbyggingu fráveitna í sveitarfélaginu. Í raun hafa sveitarfélög um langa hríð sinnt framkvæmdum við fráveitur og rekið fráveitur án þess að rammi utan um þessi verkefni sveitarfélaga hafi verið vel afmarkaður. Þó má geta þess að í gildi eru lög og reglugerðir sem skilgreina þær umhverfis- og mengunarvarnakröfur sem gilda um fráveitur og skólp.

Frumvarpinu er þannig annars vegar ætlað að kveða skýrt á um ábyrgð sveitarfélaga á uppbyggingu fráveitna og að afmarka skyldur sveitarfélaga til að koma á fót og starfrækja fráveitur. Hins vegar er einnig lagt til að heimilað verði að fela sjálfstæðum félögum rekstur fráveitna með svipuðum hætti og gildir um vatnsveitur.

Fráveitukerfi eru afar mikilvæg þjónustukerfi og eðlilegt er, a.m.k. í þéttbýli, að sveitarfélög annist starfrækslu fráveitna. Talið er æskilegt að fráveitukerfi séu skipulögð samhliða skipulagi byggðar og er frumvarp þetta samið með það í huga. Í frumvarpinu er gengið nokkuð lengra en að afmarka skyldur sveitarfélaga í fráveitumálum. Lagt er til að kveðið verði á um skyldur landeigenda til að sjá til þess að skólp sé hreinsað þar sem hlutverki sveitarstjórna til starfrækslu fráveitna sleppir. Þá er í frumvarpinu að finna ákvæði um rétt til aðgangs að fráveitu sem fyrir er.

4. grein frumvarpsins afmarkar helstu skyldur sveitarfélaga í fráveitumálum. Meginreglan er sú að sveitarfélag ber ábyrgð á uppbyggingu fráveitna í sveitarfélaginu. Sveitarstjórnum er með ákvæðinu ætlað að samþætta áætlanir um fráveitur við skipulagsgerð. Talið er rétt að leggja ótvíræða framkvæmdarskyldu á sveitarfélög í þéttbýli, enda verður fráveitum vart komið við á þeim svæðum á annan hátt en með sameiginlegu kerfi fyrir alla íbúa. Einnig var talið nauðsynlegt að sveitarstjórn beitti sér fyrir því að skólpi og ofanvatni væri safnað saman með safnkerfi og sameiginlegu hreinsivirki í dreifbýli. Þykir ástæða til að kveða á um í lögum með skýrari hætti, en nú er gert, á hvaða svæðum skuli koma á fót safnkerfi og sameiginlegu hreinsivirki sem og hver ber þá skyldu.

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir því að sveitarstjórn setji í deiliskipulag ákvæði um safnkerfi og sameiginlegt hreinsivirki þar sem þess er þörf. Með þeim hætti næst fram sú samþætting sem ég gat um hér áðan. Jafnframt kemur fram að sveitarstjórn skuli senda áætlun um nýjar og endurbættar fráveitur til heilbrigðisnefndar. Með þessu er leitast við að tryggja samfellu og samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Meginreglan er því sú að safnkerfi og sameiginlegt hreinsivirki sé til staðar. Telji sveitarstjórn hins vegar ekki þörf á að setja ákvæði um safnkerfi og sameiginlegt hreinsvirki á viðkomandi svæði, svo sem ef kostnaður er óvenjumikill miðað við umhverfislegan ávinning, getur heilbrigðisnefnd heimilað að beitt sé öðrum lausnum. Þetta ákvæði, þ.e. að meta megi hvort raunveruleg þörf sé á safnkerfi, er í samræmi við tilskipun um hreinsun skólps í þéttbýli sem innleidd var með reglugerð um fráveitur og skólp. Með þessum hætti er undirstrikað að safnkerfi og sameiginlegt hreinsivirki sé meginregla á framangreindum svæðum og frávik frá því þurfa að vera vel rökstudd.

Lagt er til í frumvarpinu að sveitarstjórn sé heimilt að koma á fót og starfrækja fráveitur í dreifbýli. Getur það haft í för með sér minni neikvæð umhverfisáhrif en ef um er að ræða mörg stök hreinsivirki og stuðlað að hagkvæmni í landnotkun. Er sveitarfélagi því heimilt að ganga lengra en því er skylt. Þar sem sveitarfélag hyggst nýta heimild sína hefur það forgangsrétt til fráveituframkvæmda utan þéttbýlis.

Samkvæmt frumvarpinu eiga fráveitur sem sveitarfélög setja á fót að vera í eigu sveitarfélaga. Þó er gert ráð fyrir að heimilt sé að fela félagi í meirihlutaeigu sveitarfélaga skyldur og réttindi til uppbyggingar, reksturs og eignarhalds fráveitna. Það fyrirkomulag að fráveitur séu í eigu sveitarfélaga er talið tryggja best þjónustu til handa íbúum sveitarfélaganna. Þar sem sveitarfélagi er skylt að reka og koma á fót fráveitu skal það, samkvæmt tillögum frumvarpsins, hafa einkarétt til þess. Sama gildir þar sem sveitarfélag nýtir forgangsrétt sinn til að koma á fót fráveitu.

Í III. kafla frumvarpsins er fjallað um svæði þar sem skyldum sveitarfélaga sleppir og sveitarfélög nýta ekki heimildir sínar til að koma á fót fráveitu. Kveðið er á um skyldu landeigenda til að sjá til þess að skólp sé hreinsað þar sem sveitarstjórn nýtir ekki heimild sína. Einnig er kveðið á um að landeigandi skuli koma á fót fráveitu þar sem frístundabyggð er skipulögð. Er þetta talið afar mikilvægt í ljósi sívaxandi fjölda frístundahúsa, en ráðuneytið hefur kynnt þetta ákvæði fyrir Landssambandi sumarhúsaeigenda.

Í IV. kafla frumvarpsins er fjallað um fráveitulagnir. Eiganda húseignar er skylt að annast lagningu heimæða á sinn kostnað en eigandi fráveitu sér um lagningu og viðhald allra fráveitulagna. Þá er kveðið á um rétt til tengingar við fráveitu.

Í V. kafla frumvarpsins eru ákvæði um gjaldtöku fyrir tengingu og afnot af fráveitukerfi. Gjaldtökuákvæðin í frumvarpinu eru skýrari en í gildandi lögum. Samkvæmt frumvarpinu skal stjórn fráveitu semja gjaldskrá þar sem kveðið er nánar á um greiðslu og innheimtu gjalda.

Nýmæli er að finna í frumvarpinu varðandi losun í fráveitukerfi sveitarfélags frá atvinnustarfsemi eða vegna losunar sem er frábrugðin losun frá heimilum. Í þessum tilfellum er heimilt að innheimta gjald miðað við innrennsli vatns. Þegar vatn er notað til framleiðslu og því er ekki veitt í fráveitukerfi má notandi mæla notkun vatnsins og einungis greiða fyrir það frárennsli sem frá starfseminni kemur. Þetta getur t.d. átt við um gosdrykkjaframleiðslu eða átöppunarverksmiðjur. Einnig er lagt til að heimilt verði að innheimta sérstakt aukagjald ef frárennsli er svo mengað að það leiði til sérstakra aðgerða við fráveitukerfið. Þetta getur til að mynda átt við þegar mengandi starfsemi fær tímabundna undanþágu frá starfsleyfi vegna viðgerða eða viðhalds á mengunarvarnabúnaði. Ákvæðið tekur mið af sambærilegu ákvæði í dönskum lögum og mengunarbótareglu sem er ein af meginreglum umhverfisréttarins.

Í VI. kafla frumvarpsins eru ýmis ákvæði. Þar er kveðið á um aðgang að fráveitu sem fyrir er og aðgang að landi vegna fráveituframkvæmda, þ.m.t. eignarnám. Þá er einnig kveðið á um hlutlæga bótaábyrgð vegna tjóns á fráveitu vegna losunar.

Að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga voru forsendur kostnaðaráhrifa vegna frumvarpsins metnar í umhverfisráðuneytinu í samræmi við samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga. Ekki er gert ráð fyrir teljandi kostnaðarauka hjá sveitarfélögum frá þeim kröfum sem eru í lögum í dag.

Eins og áður segir eru í frumvarpinu skyldur sveitarfélaga auknar að því leyti að þeim er gert skylt að koma á fót og starfrækja fráveitu í þéttbýli. Í reynd hefur lengi verið litið svo á að uppbygging og rekstur fráveitna í þéttbýli sé verkefni sveitarfélaga og því í raun ekki um nýjan kostnað að ræða.

Verði frumvarpið að lögum getur mögulegur kostnaðarauki fyrir sveitarfélög einkum falist í ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að tengingar í einkaeign sem lagðar hafa verið fyrir gildistöku laganna verði eign fráveitu í framhaldi af endurnýjun þeirra. Verður fráveitu skylt að yfirtaka tengingu frá stofnæð að lóðamörkum sveitarfélagsins ef eigandi tengingar óskar eftir því. Að auki má vænta þess að sveitarfélög verði fyrir auknum kostnaði vegna ákvæðis 4. gr. þar sem segir að sveitarstjórn setji í deiliskipulag ákvæði um safnkerfi og sameiginlegt hreinsivirki þar sem þess er þörf.

Gert er ráð fyrir að gjaldtökuheimildir samkvæmt frumvarpinu nægi til þess að standa undir nauðsynlegum framkvæmdum sveitarfélaganna þannig að ekki verði um útgjöld að ræða umfram gjaldtöku. Ekki verður séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, hafi áhrif á kostnað ríkissjóðs.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.