136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

uppbygging og rekstur fráveitna.

187. mál
[17:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ánægjuefni að fá frumvarp þetta til umfjöllunar Alþingis og hv. umhverfisnefndar og má segja að það sé löngu tímabært að skýrt og greinilega sé kveðið á um það í lögum hverjar skyldur aðila, einkum í þéttbýli, til lagningar á fráveitu eru. Á þessu sviði hefur verið unnið gríðarlega mikið og gott starf á vegum sveitarfélaganna sl. 15 ár og í raun og veru hefur verið lyft þar grettistaki, m.a. í tengslum við innleiðingu tilskipana en það var Evrópusamstarfið sem varð mönnum hvatning á sínum tíma til þess að taka sér tak hér á landi í frárennslismálum sem veitti víða ekki af, ekki síst hjá okkur hér í þéttbýlinu. Það lýsir kannski um sumt þeim viðhorfum sem áður voru nokkuð rík að sú gjaldtaka eða skattlagning sem menn lögðu á í tengslum við þá uppbyggingu alla var á stundum í pólitískri orðræðu okkar kölluð „skítaskattur“ og þótti ekki mjög fín.

Núna 15 árum síðar er sannarlega búið að vinna mikið starf á vegum sveitarfélaganna. Þau eiga hrós skilið fyrir það og er ánægjuefni að samkomulag sé á milli allra helstu málsaðila um hvernig best verði skerpt á lagaskyldum aðila og tryggt að framkvæmdin sé öll hin besta. Ég tel að sú íþyngjandi ákvörðun um að sveitarfélögin eignist einkaæðar við endurnýjun þeirra sé sannarlega tímabær og verði til þess að auka skilvirkni í þessum rekstri með svipuðum hætti og var þegar vatnsveiturnar tóku að eigin frumkvæði yfir heimaæðar til þess að leysa mörg vandamál sem upp gátu komið þegar einstaklingar höfðu ekki bolmagn til þess að endurnýja lagnir sínar. Er miklu eðlilegra að þær stofnanir sem sjá um innviðina í samfélaginu beri kostnað af þessu og dreifi honum yfir lengri tíma og stærri hóp.