136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

uppbygging og rekstur fráveitna.

187. mál
[17:03]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir framsöguna með þingmálinu sem hér er til umfjöllunar en það er frumvarp til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Ég segi það strax í upphafi að ég tel eins og síðasti ræðumaður að það sé löngu tímabært að sett verði heildarlöggjöf um starfsemi fráveitna í landinu. Ég tel að það sé mjög til bóta að skilgreina þá starfsemi og þær skyldur sem löggjafinn hyggst setja á herðar m.a. sveitarfélögunum varðandi uppbyggingu og rekstur slíks kerfis. Þess vegna held ég ekki að ástæða sé til þess að ætla annað en að um þetta mál geti í öllum meginatriðum verið nokkuð góð samstaða á þinginu og í hv. umhverfisnefnd sem fær málið til meðferðar.

Það eru þó nokkur atriði sem ég vil aðeins fjalla um í þessu samhengi og byrja á því að rifja það upp að á tíunda áratug síðustu aldar var farið af stað með heilmikið átak til þess að koma fráveitumálum í landinu, einkum og sér í lagi á þéttbýlisstöðum, í viðunandi horf frá því sem áður hafði verið. Það er rétt sem komið hefur fram að það byggðist m.a. á tilskipun frá Evrópusambandinu þótt út af fyrir sig hefði verið hægt að fara í framkvæmdir á sviði fráveitumála burt séð frá henni. Sveitarfélög og aðrir aðilar — þá ríkið eftir atvikum — geta tekið ákvörðun um slíkt. Engu að síður er það staðreynd að tilskipunin sem var þá hluti af EES-samningnum fól í sér að það var skylda að fara í heilmiklar framkvæmdir við hreinsun strandlengju og við að koma fráveitumálunum í viðunandi horf. Það hefur sannarlega verið gert allvíða.

Jafnframt var ákveðið á þeim tíma að ríkið mundi koma að fjármögnun þess viðamikla verkefnis með því að endurgreiða virðisaukaskatt af þessum framkvæmdum. Upphaflega átti að gefa tíu ár, frá 1995 til 2005, til þess að koma þeim verkefnum sem lögin eða tilskipunin tók til í framkvæmd og átti ríkið að koma inn í framkvæmdina með þeim hætti. Það er alveg ljóst að kostnaður við þessar fráveituframkvæmdir hefur reynst sveitarfélögunum gríðarlega mikill. Það er reyndar rétt sem hæstv. umhverfisráðherra sagði í framsöguræðu sinni, að þessi mál séu nú þegar á hendi sveitarfélaganna og þau líti á þau sem skylduverkefni þó að það hafi ekki verið bundið í lög. Hæstv. ráðherra sagði að þar af leiðandi væri ekki mikið um nýjan kostnað en þó verður að halda því til haga að í gegnum árin frá því að þessi tilskipun var innleidd hefur kostnaður sveitarfélaganna verið geysilega mikill en tölur eru ef til vill á reiki um það.

Í skýrslu sem utanríkisráðherra lagði hér fram á Alþingi að beiðni minni og annarra þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þar sem óskað var eftir því að ráðherra flytti skýrslu um skuldbindingar íslenskra sveitarfélaga í EES-samningnum, kemur fram um fráveitumálin á bls. 19 í þeirri skýrslu sem er á þskj. 875 frá síðasta löggjafarþingi, að árið 1993 hafi verið lagt mat á kostnað við að koma þessum málum í viðunandi horf á Íslandi. Hann hafi þá numið á verðlagi þess tíma, 1993, 10–12 milljörðum. Gert var ráð fyrir því að framlag ríkisins yrði um 200 millj. kr. á ári á þessu tíu ára tímabili, frá 1995–2005, ætti að vera um 20% af heildarkostnaði.

Síðar hafa sveitarfélögin metið það svo að kostnaðurinn við fráveituframkvæmdirnar á grundvelli þessarar tilskipunar hafi verið nær 20 milljörðum kr. fyrir sveitarfélögin en framlög ríkisins voru um 2 milljarðar, ef ég man þetta rétt, þ.e. um 10%. Það er því ljóst að sveitarfélögin hafa haft verulegan kostnað af þessari framkvæmd án þess að um það hafi sérstaklega verið samið við þau eða þeim tryggðir sérstakir tekjustofnar til að standa undir öllum þessum kostnaði. Að vísu hafa sveitarfélögin heimildir til þess að innheimta holræsagjald eins og kunnugt er en það er alveg ljóst að þarna er um verulegan kostnað að ræða sem ég tel að liggi enn þá að verulegu leyti óbættur hjá garði, ef svo má segja, gagnvart sveitarfélögunum í landinu í gegnum þessi ár. Ég mun kalla eftir frekari upplýsingum í vinnu nefndarinnar um hvernig þeim málum er háttað og hver staða þeirra er í dag.

Aðeins síðan aftur að frumvarpinu. Í 4. gr. er farið í hlutverk sveitarfélaga og það skilgreint annars vegar varðandi hlutverk sveitarfélaganna í þéttbýli og hins vegar í dreifbýli og utan þéttbýlis. Ég velti því upp hvort ekki sé full ástæða til þess að skoða betur skyldur sveitarfélaganna í dreifbýli vegna þess að ég held að víða í dreifbýli séu þessi mál ekki í nægilega góðu lagi. Ég segi það þó með vissum fyrirvara. Það eru áreiðanlega frávik frá því líka en allvíða held ég að þeim málum sé ekki nægilega vel fyrir komið og bendi þá sérstaklega á, sem kemur reyndar fram í frumvarpinu, að það er sívaxandi frístundabyggð í landinu. Það er mikilvægt að fráveitumálin séu líka í góðum farvegi þar. Ég velti því upp hvort hugsanlega þurfi að vera ríkari skyldur til þess að þessi mál séu þar örugglega á hendi sveitarfélaganna eins og í þéttbýli.

Í 5. gr. er talað um rekstur fráveitunnar og kveðið á um að sveitarstjórn fari með rekstur og stjórn fráveitna á vegum sveitarfélagsins nema annað rekstrarform hafi sérstaklega verið ákveðið og er þar vísað til 6. gr. Einnig er heimild til þess að gera þjónustusamninga við einkaaðila um rekstur einstakra þátta fráveitunnar. Í gjaldtökuákvæðum er síðan tekið fram að heimilt sé að skipta starfsvæði fráveitu í fráveitusvæði og setja sérstaka gjaldskrá fyrir hvert veitusvæði. Þegar maður les þetta í samhengi veltir maður því fyrir sér hvort verið sé að gefa kost á því að t.d. í stóru þéttbýlissveitarfélagi séu búin til fleiri en eitt svæði sem hugsanlega eru bútuð niður og gerðir samningar við einkaaðila um rekstur á tilteknum hluta, til að mynda í einu hverfi. Það er ekki víst að sá sé tilgangur frumvarpsins yfirleitt en þarna finnst mér vera alla vega vera atriði sem taka þarf til skoðunar.

Síðan er í 6. gr. sagt, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórn er heimilt að fela stofnun eða félagi sem að meiri hluta er í eigu sveitarfélaga skyldur sínar og réttindi hvað varðar uppbyggingu, rekstur og eignarhald fráveitna samkvæmt lögum þessum.“

Og áfram:

„Við ráðstöfun skv. 1. mgr. skal í samningi, eftir því sem við á, kveðið á um eignarrétt á fráveitu, eftirlit sveitarstjórnar með rekstri fráveitunnar og innlausnarrétt sveitarfélagsins á fráveitu og fastafjármunum fráveitunnar auk annarra atriða sem sveitarstjórn telur nauðsynleg.“

Um þetta vil ég segja að ég tel að fráveitan sé eitt af grundvallarveitukerfum og grunnþjónustuþáttum í hverju samfélagi. Þess vegna er það afstaða mín að hún eigi tvímælalaust að vera á hendi opinberra aðila, þ.e. sveitarfélaganna. Hér er að vísu vísað til þess að nú þegar séu einhver dæmi um að félög í eigu sveitarfélaganna séu með þennan rekstur á sínum snærum og þess vegna þurfi að vera þannig um hnútana búið í löggjöfinni að þau geti haldið því áfram. Það er nokkuð sem mér finnst líka mikilvægt að við skoðum. Ég set að minnsta kosti verulegan fyrirvara varðandi eignarréttinn á fráveitunni jafnvel þó að menn kjósi að vera með sérstakt félag — eins og ég þekki hér á höfuðborgarsvæðinu varðandi vatnsveituna, hitaveituna og rafveituna þar sem fráveitan er nú hluti af — sem er að öllu leyti í eigu sveitarfélaganna, ekki bara að meiri hluta.

Ég hef vissan fyrirvara á því er varðar eignarréttinn sjálfan. Ég er ekki viss um að það sé heppilegt og vísa til þess sem gerst hefur á undanförnum vikum í samfélagi okkar með hruni bankakerfisins og mörg fyrirtæki farið illa samhliða því, m.a. fyrirtæki sem keypt hafa eignir af sveitarfélögunum sem gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki, svo sem skóla. Þegar þessi fyrirtæki verða gjaldþrota sitja íbúar sveitarfélagsins eftir með sárt ennið og hugsanlegt er að sveitarfélögin þurfi að leysa til sín þessi mannvirki á nýjan leik með ærnum tilkostnaði. Þetta er ekki starfsemi sem er undir samkeppnissjónarmiðum komin nema síður sé. Ég sé ekki fyrir mér að mikil samkeppni verði í fráveitustarfsemi einstakra sveitarfélaga þannig að ég tel enga sérstaka þörf á því að því sé gefið undir fótinn að eignarrétturinn á fráveitunni geti farið til annarra aðila en sveitarfélaganna sjálfra. Það er því atriði sem ég hef fyrirvara á í þessu frumvarpi og mun koma honum frekar á framfæri við vinnu í umhverfisnefnd.

Síðan vil ég nefna það sem talað er um varðandi skyldur landeigenda í dreifbýli. Það snýr að því sem ég nefndi áðan um stöðu mála í dreifbýli. Ég velti því alla vega fyrir mér hvort rétt sé að leggja þessar skyldur á landeigendur og með hvaða hætti þeir eigi þá að standa straum af kostnaði við slíkt. Það eru sannarlega gjaldtökuheimildir í þessu frumvarpi en mér finnst að skýra þurfi betur hlutverk sveitarfélaganna sjálfra sem fara jú með umboð almennings og íbúanna í sveitarfélaginu í þessu efni þannig að það sé ekki aðeins á hendi landeigenda, eins og gert er ráð fyrir í 9. gr. um frístundabyggð, að koma á fót fráveitu. Hér er reyndar sagt: „að höfðu samráði við sveitarstjórn“. Þarna finnst mér að frumkvæðið þurfi hugsanlega að vera ríkara hjá sveitarstjórninni sjálfri.

Aðeins í lokin, því að tími minn er á þrotum, vil ég nefna 21. gr. sem talað er um reglugerð og segir þar, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og aðra hagsmunaaðila, að setja reglugerð um fráveitur sveitarfélaga þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd fráveitumála.“

Það hefur á stundum komið upp í umræðu um lagafrumvörp þar sem verið er að setja almennar reglugerðarheimildir að eðlilegt sé að reglugerðarheimildir til handa framkvæmdarvaldinu séu skýrar afmarkaðar en hér er gert ráð fyrir, að það sé ekki bara ein grein sem fjallar um almenna heimild ráðherra til að setja reglugerð um hvaðeina óskilgreint sem lýtur að þessum lögum. Ég er þeirrar skoðunar að almennt eigi að vera betur skilgreint í lögum um efni reglugerða, um hvaða þætti laganna ætlast er til að ráðherra geti sett reglugerð en ekki bara með einni allsherjarsetningu eins og hér er lagt til.

Virðulegur forseti. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta frumvarp. Eins og ég sagði í upphafi held ég að þetta sé þjóðþrifamál í sjálfu sér og ekki ágreiningur um það burt séð frá einstaka útfærsluatriðum sem hér er gerð grein fyrir. Ég áskil mér og flokki mínum rétt til þess að láta skoða þessi atriði frekar og hugsanlega munum við beita okkur fyrir einhverjum breytingum á frumvarpinu hvað þau varðar.