136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

uppbygging og rekstur fráveitna.

187. mál
[17:21]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir viðbrögðin við ræðu minni. Það er tvennt sem ég mundi vilja hnykkja á eða inna hæstv. ráðherra eftir og það er um eignarhaldið. Við erum bersýnilega alveg sammála um að það er ekki fyrirséð mikil samkeppni í þessum málaflokki og ég er sammála hæstv. ráðherra um að það má vera og þarf að vera sveigjanleiki í kerfinu. En um eignarhaldið á þessu grunnveitukerfi, að það sé ótvírætt hjá sveitarfélögunum, er ráðherra sammála því viðhorfi? Telur ráðherra að skoða þurfi hvort staðan sé þannig, sem ég er ekki viss um, að framlengja þurfi þetta ákvæði enn einn ganginn hvað varðar endurgreiðslur ríkisins á hlutdeildinni í stofnkostnaði við þessar framkvæmdir, þ.e. þær 200 milljónir sem verið hafa?