136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

náttúruverndaráætlun 2009–2013.

192. mál
[17:53]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlustaði á hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fara yfir náttúruverndaráætlunina. Mér fannst hv. þingmaður fara í nokkurn hring í málflutningi sínum. Það kom fram að þingmaðurinn sagði að verndargildi náttúruverndaráætlunar ætti að ganga fyrir. Síðan ætti rammaáætlun, sem væri nýtingaráætlunin, að koma þar á eftir og hv. þingmaður vildi fá að heyra hvað því máli liði.

Í lok ræðu sinnar vildi þingmaðurinn fá svör við því frá hæstv. umhverfisráðherra hvort ekki væri áreiðanlegt að svæðið í kringum Norðlingaölduveitu yrði það stórt að örugglega væri ekki hægt að fara í Norðlingaölduveitu.

Þá finnst mér hv. þingmaður vera farin að tala um að það verði að friða nógu mikið til að alls ekki sé hægt að nýta þá auðlind sem þar liggur.