136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

náttúruverndaráætlun 2009–2013.

192. mál
[17:56]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir það svar sem hér kom fram en mig langar til að beina spurningu til hv. þingmanns. Nú erum við að upplifa mikið hlýindaskeið og allir vísindamenn segja að veruleg hlýnun muni verða hjá okkur á Íslandi. Til að mynda í þeirri náttúruverndaráætlun sem hér er til umræðu er verið að tala um að það eigi að varðveita rústamýrar. Nú gæti svo að farið að hlýnunin verði til þess að þær eyðileggist af náttúrunnar hendi og þannig er með Þjórsárverin öll að þau geta breyst gríðarlega við þá hlýnun sem við erum að upplifa núna og eigum eftir að upplifa kannski næstu áratugina. Náttúra Íslands er síbreytileg og við þurfum að taka tillit til þess.

Ég vil að sjálfsögðu að Þjórsárver séu varðveitt en það er enginn sem segir að þau geti varðveist af náttúrunnar hálfu eins og þau eru í dag.