136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

náttúruverndaráætlun 2009--2013.

192. mál
[18:34]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var athyglisverð ræða og vekur upp spurningar um hver raunveruleg afstaða hv. þingmanns er og hver afstaða Sjálfstæðisflokksins í heild er til þeirrar tillögu að náttúruverndaráætlun sem hæstv. umhverfisráðherra hefur kynnt og mælt fyrir. Ég verð að segja alveg eins og er að þrátt fyrir að hv. þingmaður hafi sagt að hann muni líta á þetta jákvæðum augum fannst mér annað liggja í orðum hans. Þá vísa ég til þess sem lesa mátti úr þeim að umhverfisráðherra sé að hans mati einsýnn, líti ekki til beggja átta, þ.e. til nýtingar, það þurfi að nýta náttúruauðlindir þessa lands af festu og ábyrgð. (Gripið fram í.)

Ég spyr þess vegna hreint út: Styður Sjálfstæðisflokkurinn samstarfsflokkinn sem leggur fram þetta mál eða stendur til að koma í veg fyrir með einhverjum hætti að einhver einstök svæði þarna verði á náttúruverndaráætluninni? Ég spyr sérstaklega um Langasjó og Þjórsárver.