136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

náttúruverndaráætlun 2009–2013.

192. mál
[18:41]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hæstv. iðnaðarráðherra, ferðaþjónustan er mjög mikilvægur atvinnuvegur á Íslandi og alveg örugglega vaxandi atvinnuvegur. Ég hef reyndar sagt það áður, bæði í ræðu og riti, að við eigum frekar að hugsa þar um gæði en magn og með þeim orðum á ég við að við eigum að selja okkur dýrt en ekki að horfa alltaf á að hingað komi svo ótrúlegur fjöldi ferðamanna. Það á að vera markmið okkar að hafa sem mest fjármagn út úr þessu og ég vona að hæstv. iðnaðarráðherra, sem þessi grein heyrir undir, muni beita sér í þeim efnum.

Ég held að náttúruvernd sé alveg bráðnauðsynleg fyrir okkur einmitt vegna ferðaþjónustunnar. En ég er þess líka algerlega fullviss að náttúrunýting, nýting þessara auðlinda, er ferðaþjónustunni gríðarlega mikilvæg eða hvernig haldið þið að það sé á Austfjörðum núna? Það hefur komið fram hjá ferðaþjónustufólki þar hvað ferðaþjónusta hefur eflst gríðarlega á svæðinu eftir að virkjanaframkvæmdir fóru af stað á hálendinu. (Gripið fram í.) Já, ég vil minna á Bláa lónið sem varð til við virkjunarframkvæmdir. Það eru einhverjir eftirsóttustu ferðamannastaðir okkar í dag þannig að þetta getur allt saman farið mjög vel saman. Það sama á við um hvalveiðar og hvalaskoðun, svo að ég nefni það enn og aftur. Síðast í gærkvöldi, á jólaföstu, keyrði ég niður Laugaveginn. Þar var skilti út við götuna — sem ég vona að hæstv. iðnaðarráðherra sjái líka — sem stóð á „Whale menu“ fyrir utan einn veitingastaðinn. Þetta er veitingamaðurinn búinn að bjóða upp á í allt sumar og þetta býður hann enn upp á. Af hverju? Vegna þess að ferðamenn sækjast í það. Það er þetta sem ferðamenn sækjast í og það er þetta (Forseti hringir.) sem Ísland á að vera þekkt fyrir og við eigum að standa í lappirnar varðandi skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda.