136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

náttúruverndaráætlun 2009–2013.

192. mál
[18:56]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi tvö atriði í ræðu minni fyrr í dag sem ég sakna í þessari náttúruverndaráætlun. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvers vegna það sem ég sakna er ekki inni í áætluninni. Sérstaklega vil ég nefna Teigsskóg, sem ég hef áður spurt hæstv. ráðherra um, og þá tillögu sem nefnd á vegum umhverfisráðuneytisins gerði um friðlýsingu Teigsskógar í kjölfar samantektar eða skýrslu um verndargildi birkiskóga á landinu. Að hinu leytinu til vil ég spyrja hvers vegna eða hversu langt eða skammt var komið undirbúningi að friðlýsingu viðkvæmra hafsvæða þar sem er að finna tegundir sem er hætt vegna veiða, sérstaklega steinkóralla og aðra kóralla í útrýmingarhættu.

Mig langar í kjölfar þess sem hæstv. ráðherra sagði um þingskjölin — þingskjölin eru auðvitað ekki útgáfur í sjálfu sér. En á bls. 17 í þessari greinargerð kemur fram kostnaðarmat við framkvæmd náttúruverndaráætlunar 2009–2013. Þar mætti að ósekju standa kostnaður við framkvæmd og kynningu á náttúruverndaráætlun. Þarna er verið að tala um 67 millj. kr. á tímabilinu. Ég hef mjög góða þekkingu á því hvað útgáfa af þessu tagi kostar og það eru hreinir smáaurar miðað við það sem hér er lagt upp með. Ég hvet eindregið til þess að gefið verði út efni til kynningar á þessum tillögum og síðan á áætluninni sem slíkri.