136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

náttúruverndaráætlun 2009–2013.

192. mál
[19:00]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessi svör. Ég vil minna á varðandi Teigsskóg að landeigendur hafa einmitt lýst sig fúsa til friðlýsingar og verndunar á skóginum. Mér er ekki alveg ljóst við hvað hæstv. ráðherra á þegar hann talar um sveitarfélagið, ég hygg að það séu nokkrir fleiri aðilar sem þrýsti á um vegagerð í gegnum Teigsskóg og þar vil ég bara nefna Vegagerðina sem á í málaferlum, m.a. við landeigendur og náttúruverndarsamtök, náttúruverndara, og það mál mun nú vera á leið til Hæstaréttar ef ég veit rétt.

Það virðist ljóst að ef niðurstaðan þar verður sú að kröfunni um bann við lagningu vegarins verði hrundið þá þurfi að taka land þarna eignarnámi, þannig að deilum yrði ekki lokið með þeim hætti. Þess vegna er afar brýnt að leita leiða til þess að ná samkomulagi um aðra legu þessa vegar því að það er svo sannarlega rétt sem hæstv. ráðherra sagði að þarna er um mjög verðmætan skóg að ræða.

Ég fagna því einnig að hæstv. ráðherra útilokar ekki að hægt sé að vinna frekar varðandi kaldsjávarkóralana á tímabili nýrrar náttúruverndaráætlunar. Það eru nokkur friðlýst svæði í hafinu umhverfis Ísland, ég minni á Surtsey, ég minni á hverastrýturnar í Eyjafirði og ég minni á Breiðafjörðinn. Það er mjög mikilvægt að lögsaga náttúruverndar á Íslandi afmarkist ekki við fjöruborð heldur nái til þeirrar náttúru sem vernda þarf enda þótt hún sé á sjávarbotni eða í sjó. Ég endurtek hvatningu mína til umhverfisnefndar og hæstv. ráðherra um að drífa í þessu máli.