136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

ábyrgð á Icesave-reikningum í Bretlandi.

[13:35]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég hef séð ástæðu til þess að reyna að fá upplýsingar hjá ráðherrum um stöðu Icesave-ábyrgða og hvort það geti verið rétt sem Björgólfur Thor heldur opinberlega fram, að bæði Seðlabankinn og ráðherrann hafi vitað af því að unnt væri að flytja Icesave-ábyrgðirnar yfir í breska lögsögu gegn 200 millj. punda tryggingu.

Það er mjög erfitt að henda reiður á því hvað skeði helgina þegar þessar viðræður fóru fram. Í fjölmiðlum segist t.d. seðlabankastjóri, Davíð Oddsson, í Morgunblaðinu hafa heyrt af því að Landsbankinn væri að reyna að flýta flutningi Icesave. Síðan segir hæstv. forsætisráðherra á Stöð 2:

„En ég þekki ekki þetta nákvæmlega með þessi 200 milljón pund.“

Það er þetta orð „nákvæmlega“ sem vefst verulega fyrir mér. Ég hef kosið að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í þessi mál. Ég fékk skriflegt svar sem barst reyndar mjög seint og var afar rýrt í roðinu. Ég verð að viðurkenna, virðulegur forseti, að ég átta mig ekki á svarinu sem borið er fram og sé því ástæðu til að halda áfram að elta ráðherrana með að gefa skýr svör. Ég tel að það verði að gefa þinginu skýr svör. Menn geta kannski komist upp með að gefa loðin svör í fjölmiðlum en ekki á þinginu. Í viðtali sem hæstv. ráðherra á við fjármálaráðherra Breta er minnst á þessi 200 millj. pund, fjármálaráðherra segist ekki hafa vitað af þessum ábyrgðum en segir að hann hafi talið að fjármálaráðherra Breta væri að vísa í fyrirgreiðslu sem Landsbankinn hefði farið fram á í Seðlabankanum en ekki fengið.

Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hvað þýðir það að fjármálaráðherra hafi „talið“? Vissi hann ekki um hvað var að ræða? (Forseti hringir.) Af hverju orðað ráðherrann þetta svona en segir ekki bara hreinlega: Fjármálaráðherra „vísaði“ til fyrirgreiðslu o.s.frv.?