136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

ábyrgð á Icesave-reikningum í Bretlandi.

[13:41]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður hefur greinilega ekki heyrt það sem ég var að segja. Ég vissi að Landsbankinn var að reyna að flýta því að flytja Icesave-reikningana í breska lögsögu en flýtimeðferðinni var hafnað. Ég veit ekki til þess að sú flýtimeðferð hafi verið tengd við 200 millj. punda tilboð frá Fjármálaeftirlitinu. Það hef ég ekki heyrt um neins staðar nema frá Björgólfi Thor í blöðunum, það sem hann hefur sagt um það. Ég veit ekki til þess að það hafi komið til stjórnsýslunnar. Það kom a.m.k. ekki til mín.

Ég er reyndar ekki endilega rétti aðilinn til að fá slík tilboð þannig að það gæti komið eitthvert annað. En það er greinilegt að hv. þingmaður hefur meiri skilning á hugarheimi þeirra sem beita hryðjuverkalögunum en ég og það var ekkert í því samtali (Gripið fram í.) sem við áttum, ég og hæstv. fjármálaráðherra Breta, (Gripið fram í.) um að hann kynni að beita hryðjuverkalögunum. Okkar samtali lauk á þann hátt, munið þið það? Þetta var daginn eftir að við settum neyðarlögin um nóttina. (Forseti hringir.) Munið þið það? Því lauk með því að við ætluðum að vera í sambandi og okkar embættismenn mundu tala saman um þessi mál. Á það að boða það að sett verði á (Forseti hringir.) okkur hryðjuverkalög?