136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

ummæli seðlabankastjóra um stöðu viðskiptabankanna.

[13:43]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Davíð Oddsson seðlabankastjóri mætti á fund viðskiptanefndar í síðustu viku og sagði aðspurður um það hvort Seðlabankinn hefði varað við yfirvofandi bankahruni að hann hefði sagt í júnímánuði sl. að það væru 0% líkur á því að íslensku viðskiptabankarnir mundu lifa af. Um þessi ummæli Davíðs hafa orðið nokkrar umræður í fjölmiðlum og hæstv. utanríkisráðherra hefur m.a. gefið út yfirlýsingar um að hún kannist ekki við þessi ummæli eða fund í júnímánuði hvað þetta varðar. Af þessu gefna tilefni þar sem seðlabankastjóri fullyrðir þetta, að hann hafi sagt að það væru 0% líkur á því að íslensku bankarnir mundu lifa af, hlýt ég að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er það ekki starfsskylda seðlabankastjóra að láta vita og gera grein fyrir, a.m.k. forsætisráðherra, öllum þeim atriðum sem máli kunna að skipta varðandi efnahagsstjórn landsins og starfsemi viðskiptabanka?

Í öðru lagi hlýt ég að spyrja: Gerði Davíð Oddsson seðlabankastjóri grein fyrir því á formlegum fundi í júní sl. eða síðar að hrun viðskiptabankanna þriggja væri yfirvofandi, Glitnis, Landsbankans og Kaupþings, og hvenær var það þá gert? Hafi Davíð Oddsson ekki gert grein fyrir þessari skoðun sem hann segist opinberlega hafa haft í júní, gerði hann þá grein fyrir þessari skoðun sinni með einhverjum öðrum hætti en opinberlega? Einnig vil ég spyrja hvort Davíð Oddsson hafi nokkru sinni gert ríkisstjórninni grein fyrir þeirri skoðun sinni að bankahrun væri yfirvofandi eða gert hæstv. forsætisráðherra grein fyrir þeirri skoðun sinni persónulega, og þá hvenær var það gert?

Með vísan til þess sem seðlabankastjóri segir hlýt ég enn fremur að spyrja: Hafi þessu verið komið á framfæri, hvernig stóð þá á því að það var ákveðið að hafa sérmeðferð með Kaupþing?