136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

ummæli seðlabankastjóra um stöðu viðskiptabankanna.

[13:47]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það lýstu margir áhyggjum sínum út af þróun mála hér á þessu ári í bankaheiminum. Við trúðum því fram undir það síðasta að úr þeim málum mundi rætast og ég bendi t.d. á álagspróf Fjármálaeftirlitsins í ágústmánuði sl. sem gaf til kynna að bankarnir stæðust öll slík próf. Það skipti máli í því sem gerðist á næstu vikum á eftir.

Meðal annars þess vegna, og til þess hefur verið vísað hér á Alþingi, hélt ég því fram vikunni áður en þessir atburðir gerðust að bankarnir stæðu vel og gerði það í sjónvarpi í útlöndum. Ég vissi ekki betur og taldi það vera hið rétta á grundvelli álagsprófsins og á grundvelli þeirra upplýsinga sem ég hafði frá bönkunum sem héldu því fram að þeir væru búnir að fjármagna sig út árið 2009.