136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

rannsóknargögn um fall bankanna.

[13:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Komið hefur fram í fjölmiðlum að jafnvel standi til að selja í næstu viku dótturfélag Kaupþings í Lúxemborg, hvort sem það verður lýbískur banki í eigu Gaddafi-fjölskyldunnar sem kaupir eða einhverjir aðrir.

Fram kemur í fjölmiðlum í dag að skattrannsóknarstjóri fær ekki gögn frá skilanefndum gömlu bankanna um málefni dótturfélaga þeirra eða starfsemi þeirra í Lúxemborg. Tvær af þremur skilanefndum hafa neitað skattrannsóknarstjóra um gögn vegna yfirstandandi rannsóknar á fyrirtækjum sem hafa átt viðskipti þarna í gegn.

Alþingi er með frumvarp um víðtæka heildarrannsókn á öllum þessum hlutum til meðferðar. Einnig er hér til meðferðar frumvarp um sérskipaðan saksóknara. Ætlar ríkisstjórnin að láta það gerast að mikilvæg lykilgögn, rannsóknargögn í þessum málum, gangi okkur úr höndum með því t.d. að dótturfélög eða starfsemi bankanna í nágrannalöndunum verði seld á næstu dögum eða vikum? Ætlar ríkisstjórnin ekki að hlutast til um það að skattrannsóknarstjóri fái öll þau gögn sem það embætti óskar eftir? Eru þessar skilanefndir, sem starfa í lagalegu tómarúmi, eins og ágætur lögmaður orðaði það, heilagar? Ætlar ríkisstjórnin ofan á allt annað sem við stöndum nú frammi fyrir að láta alla þjóðina horfa upp á að svona hlutir eigi sér stað?

Ég skora á hæstv. forsætisráðherra að koma upp og taka tvennt fram, annars vegar að hlutast verði til um það að skilanefndirnar, Fjármálaeftirlitið og aðrir aðilar vinni með yfirvöldum að rannsókn þessara mála og hins vegar að sölu á eignum bankanna erlendis, sem geta varðað rannsóknarhagsmuni, verði frestað.