136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

rannsóknargögn um fall bankanna.

[13:50]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég vil taka undir þau meginsjónarmið sem fram komu í máli hv. þingmanns. Það er mjög mikilvægt að rannsóknargögnum sem varða fall bankanna, hvort sem það er hér heima eða erlendis, verði ekki spillt. Auðvitað á að greiða fyrir því að skattrannsóknarstjóraembættið geti unnið sín störf. Það finnst mér að segi sig sjálft.

Það er síðan álitamál hvort hagsmunum Íslands, þar með talið möguleikum á að afla rannsóknargagna, sé betur borgið í samstarfi við yfirvöld í Lúxemborg um að selja þann banka sem þar er eða halda honum í óbreyttu horfi og tapa þar með hugsanlega peningum og jafnvel eiga rýrari aðgang að upplýsingum úr bankanum. Gleymum því ekki hvernig kerfið í Lúxemborg er og hversu erfitt er að fá gögn út úr þeim bönkum.

Mér er tjáð að mögulegt sé að koma eignum Kaupþings Lúxemborgar í verð sem skilanefndin er þá ábyrg fyrir í samstarfi við yfirvöld í Lúxemborg og Belgíu. En slíkt samstarf hlýtur að sjálfsögðu að vera háð því að íslensk yfirvöld afsali sér í engu þeim möguleikum sem þau hafa til að afla rannsóknargagna til þess að geta haldið áfram þeirri úttekt sem ætlunin er að setja hér í gang á grundvelli sérstakra laga. Ef eitthvað er ætti sú staða að styrkjast frekar en veikjast ef út í slíka sölu væri farið.