136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

launamál í ríkisstofnunum.

[13:55]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Eins og hv. þingmenn vita væntanlega skrifaði forsætisráðherra bréf til kjararáðs þar sem hann fór fram á að kjararáð endurskoðaði kjör þeirra sem undir kjararáð heyra. Í lok bréfsins nefnir forsætisráðherra að ríkisvaldið muni í framhaldinu hefja umræður við starfsmenn sína um svipaðar breytingar á launum. Ég hef litið svo á að það muni taka til þeirra stofnana og fyrirtækja sem heyra undir ríkið og það á meira en 50% í.

Það er alveg ljóst, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, að gríðarlega mikil breyting hefur orðið á launakjörum í þjóðfélaginu og ég tel að af því leiði að við þurfum að skoða launakjör hjá þeim stofnunum og fyrirtækjum sem eru á vegum ríkisins í þá veru sem hv. þingmaður nefndi. Ég tel mjög líklegt að það þurfi að gerast fyrir forgöngu fjármálaráðuneytisins.

Ég get ekki sagt um það á þessari stundu hversu langt er hægt að ganga í þessu efni en hins vegar er ljóst í mínum huga að það sem þarf að gerast er sannarlega í áttina til þess sem hv. þingmaður er að tala um.

Það geta verið ljón á þessum vegi og þau ljón eru fyrst og fremst samningar. En samningar hafa alla jafnan einhvern gildistíma þannig að þeir eru ekki eilífir. Því ætti að vera möguleiki á því að ná þeim markmiðum sem sett verða í fyllingu tímans.