136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

launamál í ríkisstofnunum.

[13:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst og fremst fagna þessum yfirlýsingum hæstv. fjármálaráðherra. Það er auðvitað þannig að stjórnum og ráðum ríkisins hefur verið nokkur vandi á höndum á undanförnum árum þegar mikið launaskrið hefur verið á hinum almenna markaði. Laun til að mynda seðlabankastjóra og hugsanlega í fjölmiðlafyrirtækjum og öðrum slíkum hafa verið hækkuð með tilvísun til þess sem var að gerast á almenna markaðnum.

Nú hefur orðið gagnger breyting á launakjörum þar og verður enn meiri á næstu mánuðum og þess vegna er tímabært, og lag fyrir okkur, að endurskoða þetta. Ég ítreka þá skoðun mína að ég tel að til lengri tíma fari best á því að næst á eftir forseta Íslands sé hæstv. forsætisráðherra hæst launaði forstöðumaðurinn á vegum íslenska ríkisins.