136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

Sjúkratryggingastofnun.

[13:58]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Fyrir sléttri viku barst inn á borð nokkurra tuga starfsmanna Tryggingastofnunar ríkisins bréf þar sem þeim var boðið að sækja um starfið sitt aftur en hjá nýjum atvinnurekanda, hjá Sjúkratryggingastofnun Íslands. Hið virta fréttarit Smugan skýrði frá þessu strax daginn eftir.

Undir þetta bréf ritar Steingrímur Ari Arason, nýskipaður forstjóri Sjúkratryggingastofnunar, og þess má geta að allir starfsmenn Tryggingastofnunar fengu í gær annað bréf sem ekki er hægt að líta á öðruvísi en sem hótun. Þar er þeim sagt að ef þeir sæki ekki um starfið sitt fyrir morgundaginn verði það auglýst á almennum vinnumarkaði.

Menn eru að vonum skelfingu lostnir í þessari stofnun enda átti að vera tryggt með lögum um Sjúkratryggingastofnun að fullt samráð yrði um verkaskiptingu á milli þessara tveggja stofnana, Tryggingastofnunar ríkisins annars vegar og Sjúkratryggingastofnunar hins vegar. Það átti líka, með bráðabirgðaákvæði í sömu lögum, að vera algerlega tryggt að allir starfsmenn fengju starf — ekki að þeir mættu sækja um starfið sitt heldur að þeir fengju starf hjá nýrri stofnun eða áfram hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Hér er um mikið dekurverkefni einkavæðingarsinna að ræða, Sjúkratryggingastofnun sem miklar deilur stóðu um. Í raun var komið í veg fyrir að þessi stofnun yrði 70–80 manna stofnun sem tæki yfir landlæknisembættið, Lýðheilsustöð og guð má vita hvað. Hún átti að vera svona temmilega stór og hafa þjónustusamning við Tryggingastofnun og fullt samráð um hvernig störfum skyldi skipt.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra, því að nú snertir þetta tvö ráðuneyti, hvort hann er tilbúinn til þess að beita sér fyrir því að þessi hótunarbréf verði dregin til baka og starfsmönnum verði tryggt það sem Alþingi lofaði með lögum um Sjúkratryggingastofnun, að þeir héldu störfum sínum.